31.03.1930
Neðri deild: 67. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

1. mál, fjárlög 1931

Sigurður Eggerz:

Eldhúsdagarnir eru orðnir margir og strangir, og mun ég því fara eins fljótt yfir sögu og unnt er. Fyrst mun ég svara hæstv. dómsmrh. fáum orðum.

Í þeirri einu ræðu, sem ég hefi haldið hér við þessar umr., gerði ég að umtalsefni grein, sem hæstv. dómsmrh. ritaði í stjórnarblaðið 15. febr. síðastliðinn. Ég sé ekki, að hæstv. ráðh. hafi tekizt að verja sig eða hrekja nokkuð af því, sem ég bar fram í tilefni af þessari grein. Svarræða hans var að því, er mig snerti, hófleg. En hann sagði, að Morgunblaðið hefði farið út fyrir þau takmörk, sem leyfileg væru gagnvart sambandsþjóð okkar, og að það væri hættulegt fyrir frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar. Ég skil ekki, hvaða grein í þessu blaði það er, sem hæstv. dómsmrh. á við. Ég vildi beina til hans þessum gömlu orðum: „Skjóttu geiri þínum þangað, sem þörfin meiri fyrir er“. Hæstv. ráðh. er að vita framkomu íslenzks blaðs. Meiri ástæða var til að vita eitthvað í blöðum sambandsþjóðar okkar, þar sem land vort er kallað dönsk hjáleiga. Það er varla hægt að koma með meiri móðgun en þetta. En hvaða grein í Morgunblaðinu á hæstv. dómsmrh. við? Ef til vill grein, sem birtist í október um sjálfstæðismálin. Hún sýnir einmitt, hve órétt eru ummæli hans um Sjálfstæðisflokkinn. Þar segir meðal annars, með leyfi hæstv. forseta:

„Mikill meiri hluti íslenzku þjóðarinnar telur jafnréttisákvæðið háskalegasta og ranglátasta ákvæði sambandslagasamningsins. Þar er Dönum tryggður sami réttur á Íslandi og Íslendingar hafa sjálfir“.

Yfirleitt er með þessari grein farið rækilega inn á þá galla, sem eru á sambandslögunum. Samtímis er bent á, að raddir hafi komið fram frá danskri hlið um, að þetta svokallaða jafnréttisákvæði í paragraf 6 í samningunum sé betra fyrir Íslendinga en Dani. Þá talar blaðið um, að æskilegast væri að fá þessu breytt þegar í stað en bíða ekki fram yfir 1943. Vill blaðið, að gefnu tilefni í ummælum danskra stjórnmálamanna, leita samþykkis Dana til þess að uppsögnin geti farið strax fram. Ég get ekki ímyndað mér, að hæstv. ráðh. eigi við þessa grein. Þar er aðeins gert ráð fyrir samkomulagi, ef það sé fáanlegt. Hinsvegar sýnir þessi grein rækilega, að stefna Morgunblaðsins í þessu máli er ósvikin.

Hæstv. ráðh. fór ýmsum háðulegum orðum um sjálfstæðisflokkinn og sagði, að þar væru nú ýmsir þeir menn, sem þungfærastir hefðu verið í sjálfstæðisbaráttunni. Ég ætla ekki að rekja sögu manna yfirleitt, sem eru í flokkum hér á landi. Aðalatriðið er ekki, hvaða aðstöðu þeir kunna að hafa haft; hitt er aðalatriðið, hvaða stefnu þeir hafa nú. Ég þekki engan grundvöll, sem alvörugefnir menn geta sameinazt um í stjórnmálum, annan en grundvöll málanna. Sá grundvöllur, sem Sjálfstæðisflokkurinn nú er byggður á, sést í stefnuskrá hans, en hana las ég upp í síðustu ræðu minni.

Því hefir verið haldið fram, að sjálfstæðisnafnið væri misbrúkað með því að nefna flokkinn þessu nafni. Það var sérstaklega hv. 2. þm. Árn. er hélt því fram. Hann sagði meðal annars, að sjálfstæðisnafnið ætti ekki við flokk hjá sjálfstæðri þjóð, en það hefði átt við áður. Ég leyfi mér að benda honum á, að Sjálfstæðisflokkurinn gamli viðurkenndi aldrei yfirráð Dana. Hann hélt því alltaf fram, að Ísland væri sjálfstætt ríki, en ekki innlimað í Danmörku. Ummæli hv. þm. í þessu efni eru hreinasta firra.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að hv. 3. landsk. hefði á fundi á Skeggjustöðum talað um yfirvofandi hættu af Dönum. Ég hlustaði ekki á þá ræðu, en ég býst við, að hann hafi sýnt mönnum fram á, hve réttur Dana gæti orðið landsmönnum hættulegur. Ég hefi heyrt, að danska stj., sem nú situr, vilji ekki stuðla að því, að danskur fiskiskipafloti komi hér til Íslands. En eins og ég hefi tekið fram áður, þá er það engin trygging, því að núverandi Danastjórn ræður ekkert við það, sem kann að gerast í framtíðinni. Einstakir menn þar í landi geta hvenær sem er sent hingað skip sín.

Hæstv. dómsmrh. kemur alstaðar fram eins og málafærslumaður Dana. Það sást vel, þegar hann ræddi um strandvarnir þeirra, sem honum þótti alltof hraklega talað um hér heima. Hann lýsti því, hve Fylla væri orðin gömul og lengi að hreinsa katla sína. Það er nú enginn sérstakur kostur á danska landvarnarskipinu, að það skuli vera orðið svona aldrað. Það var viðkvæmni í rómnum hjá hæstv. ráðh. er hann minntist á Fyllu. Ég gat ekki skilið betur en að hann teldi það herfilegar móðganir við Dani, ef fundið væri að landhelgisgæzlu þeirra, svo sem því, að Fylla hefði legið 80 daga, eða betur þó, inni á Reykjavíkurhöfn eitt árið. En þó gagnrýndar séu framkvæmdir, sem einstakir menn hafa hér í þjónustu Dana, þá er það allt annað en að móðga dönsku þjóðina. Það er auðvitað skylda vor að vaka yfir því, að allt sé haldið sem í samningnum felst. Danir mundu skoða það sem einurðarleysi og aumingjaskap frá vorri hálfu, ef ekki væri fundið að því, sem aflaga færi. Hæstv. ráðh. sagði, að ekki hefði landhelgisgæzlan verið betri þegar ég var ráðh. Ég man ekki, hvort skýrsla er til um það, hvað lengi skipin lágu inni. En þá voru skipstjórar eins og t. d. Brobjerg, sem sýndi frábæran dugnað við landhelgisgæzluna, og fengu enda sérstaka viðurkenningu fyrir að mínu undirlagi. Sýnir það, að ég er fús á að viðurkenna það, sem Danir gera vel. Hæstv. dómsmhr. sagði, að þessi gagnrýni á landhelgisgæzlunni gæti skapað úlfúð milli þjóðanna. Ég held, að það sé alger misskilningur. Einurðin skapar einmitt oft skilyrði fyrir sem beztri sambúð. En hinsvegar sá ég ekki, að hæstv. ráðh. gæti í raun og vera varizt því, sem ég lagði mikla áherzlu á í fyrri ræðu minni, að sú grein, sem hann skrifaði í 7. tölublað Tímans þ. á., hún geti framar öllu öðru skapað úlfúð milli Íslendinga og Dana, þar sem hann segir, að annar aðalflokkurinn hér á landi sé beinlínis byggður á úlfúð og hatri til Dana. Það er ekki hægt að vekja upp draug úlfúðarinnar, ef það er ekki gert með því að koma slíkri hugsun inn hjá sambandsþjóð vorri. Og það sætir furðu, að jafnmerkur maður og Kragh innanríkisráðherra skuli taka undir með slíkum röddum og fara að fárast yfir því, hvaða nafni flokkur hér á landi kalli sig. Ég verð enn að spyrja að því, sem ég fékk ekki svar við um daginn, hvort það sé vegna þessarar ræðu á sambandslaganefndarfundinum í haust í Kaupmannahöfn, að hæstv. stj. og stuðningsflokkar hennar báðir kalla andstöðuflokk sinn aldrei annað en Íhaldsflokk? (Dómsmrh.: Það, sem hann er). Ég hefi enn á ný spurt, hvort þetta sé virkilega eftir danskri skipun. Það er sannarlega óberandi, að slíku sé ekki svarað öðru en útúrsnúningum. Það þekkist líklega ekki í sögu nokkurrar þjóðar, að stj. og flokkur hennar hafi ekki einurð til að kalla andstæðinga sína réttu nafni, og ennþá afkáralegra verður það, ef það er gert til þess að geðjast Dönum. Ég vil sýna Dönum alla þá samúð, sem þeir eiga skilið, en ég vil ekki krjúpa í auðmýktinni með hæstv. dómsmrh. Og meðan hæstv. dómsmrh. neitar því ekki afdráttarlaust, verð ég að líta svo á, að þetta sé gert eftir danskri skipun!

Að því er sambandslaganefndina snertir, þá var það hugsun vor Íslendinga, sem töldum hana óþarfa, að gera starf hennar eins lítilfjörlegt og hægt væri. En mér þykir þá skörin færast upp í bekkinn, ef Danirnir í n. fara að heimta skilagrein fyrir því, hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn kalli sig þessu nafni. Ég álít, að þjóðin eigi fulla kröfu á því, að hæstv. dómsmrh. skýri frá, hver sá merki stjórnmálamaður var, sem sagði, að Sjálfstæðisflokkurinn væri stofnaður á óvild til Dana. Hver var þessi stjórnmálamaður? Eigi að gera kröfu til þess, að við tölum með fullri varúð, þá verður a. m. k. að gera þær kröfur, að Danir hætti að kalla Ísland nýlendu sína og að merkustu stjórnmálamenn þeirra fari ekki með þá fjarstæðu, að stærsti flokkur landsins sé stofnaður af óvild til dönsku þjóðarinnar.

Hæstv. dómsmrh. lét svo um mælt í svarræðu sinni til mín, að nokkrir pólitískir spekulantar hefðu tekið sér falskt nafn og ráðizt á vinsamlega þjóð. Þessi ummæli munu sízt verða hæstv. ráðh. til sóma.

Þó hæstv. ráðh. sé kalt til andstæðinga sinna, þá verður hann þó að gæta hófs í ummælum sínum um stærsta flokk landsins. Verð ég vegna þessara ummæla, þótt mér þyki það leiðinlegt, enn einu sinni að leyfa mér að lesa hér upp fyrsta liðinn í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins, en hann hljóðar svo:

„Aðalstefnumál flokksins er að vinna að undirbúningi þess, að Íslendingar taki öll sín mál í sínar eigin hendur og gæði landsins til afnota fyrir landsmenn eina, jafnskjótt sem 25 ára tímabil sambandslaganna er á enda“.

Nú vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. dómsmrh., hvað það er í þessari stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins, sem hefir reitt hann til reiði gagnvart flokknum? Og ennfremur vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort nokkuð það hafi fram komið síðan Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður, sem beri öðru vitni en að flokknum sé það full alvara að standa fast um þessa stefnuskrá?

Greinin, sem hæstv. dómsmrh. las upp úr Morgunblaðinu, sýnir það ljóslega, að Sjálfstæðisflokkurinn vill halda sér við þessa stefnuskrá og vinna að því, að þjóðin geti eignazt land sitt kvaðalaust. Ég skoða það sem hverja aðra fjarstæðu, að það skuli vera kallað árás á vinsamlega þjóð, þó að þjóð vor sé að vinna að því marki, sem hún þegar hefir sett sér endur fyrir löngu, og margir hinna beztu sona hennar hafa lagt sinn skerf í, að takast mætti að ná. Það er stór furða, að hæstv. ráðh. skuli kalla það árás á sambandsþjóðina, að við vinnum að því marki að eignast landið, eftir að samþykki til þessa er komið af hálfu sambandsþjóðarinnar í sambandslögum.

Mér finnst sem hæstv. dómsmrh. hefði átt að vera það gleðiefni, að Sjálfstæðisflokkurinn hefir ósvikinn vilja á að keppa að þessu marki, en hitt virðist mér aðeins sagt til að sá fræjum sundrungarinnar að vera að þræða allar götur aftur í tímann, til að leita að því, hvernig hver og einn hafi jafnan staðið í því máli.

Hitt skiptir ráðh., hvernig menn standa nú. Og því verr standa nú fáir verr í þessu máli en hæstv. dómsmrh.

Hæstv. dómsmrh. kallaði það glamur hjá mér, þegar ég var að átelja þau mistök, sem ég tel, að hæstv. ráðh. hafi orðið á í þessu máli. Ég fæ ekki betur séð en að ég hafi haft á réttu að standa, þegar ég var að átelja hæstv. ráðh. fyrir grein sína í Tímanum 15. febrúar í vetur. Ég fæ ekki séð, að neitt hafi komið fram, sem sýni annað. Og ég verð að segja það enn, að það voru mistök hjá hæstv. dómsmrh. að vera að flytja þann boðskap, sem hann hefir flutt sambandsþjóð okkar í þessu efni.

Það er sagt, að sumir menn séu skyggnir og sjái í gegnum holt og hæðir. Má vel vera, að þetta sé rétt; að minnsta kosti er það víst, að sumir menn eru skyggnir í stjórnmálum. Þeir sjá í gegnum holt og hæðir, sjá í gegnum vefinn, hvað er rétt og hvað rangt, hvað aukaatriði og aðalatriði, hvað það er, sem skiptir mestu máli fyrir framtíð þjóðarinnar.

Þeir eru fáir, sem í eiginlegum skilningi eru skyggnir í stjórnmálum. En þeir eru margir, sem á vissum augnablikum eru skyggnir og í þeim fjölmenna hópi er ég. Það koma yfir mig augnablik, þegar ég sé hitt og þetta, sem aðrir sjá ekki. Þegar hv. 2. þm. Árn. var að flytja sína ræðu, sýndist mér sem einhver ósýnileg hönd væri að klappa á kollinn á hv. þm., og sú hönd var ekki íslenzk. Má vel vera, að fleiri hafi séð þessa ósýnilegu hönd en ég, þó að ég viti það ekki, en hitt er víst, að allir heyrðu ræðu hv. þm., sem var mjög dönsk í sniðinu.

Hæstv. dómsmrh. var að ráðast á Sjálfstæðisflokkinn fyrir það, að í honum væru menn, sem áður fyrr hefðu ekki verið sterkir í sjálfstæðismálum, þó að hann gæti ekki borið á móti því, að þeir væru nú ákveðnir. Ég verð nú að segja það, að ég tel þetta gleðiefni. Hitt er verra, ef þeir menn, sem áður voru góðir sjálfstæðismenn, eru nú að yfirgefa sjálfstæðismálið, en slíka menn er einmitt að hitta í stjórnarflokknum. Því er nú verr og miður, og eftir seinustu ræðu hv. 2. þm. Árn. virðist mér hann vera að fara yfir í þann hóp.

Hæstv. dómsmrh. lét svo um mælt í ráðgjafarn., að uppsögn sambandslaganna væri ekki ofarlega á dagskrá meðal þjóðarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn heldur því fram, að uppsögnin sé efst á dagskrá, og þar liggur mismunurinn milli hæstv. dómsmrh. og Sjálfstæðisflokksins í þessu máli.

Ég var ekki viðstaddur, þegar hv. 2. þm. Árn. hóf ræðu sína, en mér er sagt, að hann hafi látið svo um mælt, að fimm ára ákvæðið hafi verið óþarft. (MT: Nei, þvert á móti). Þá hefir hv. þm. tekið sig á og leiðrétt þetta. Mér skildist sem hann liti ekki sömu augum á 6. gr. sambandslaganna nú og áður. Ein aðalástæðan fyrir því, að hv. 2. þm. Árn. var andvígur sambandslögunum, voru þó ákvæði þeirrar gr. um ábúðarréttinn, þar sem Dönum var gefinn sami réttur til Íslands sem Íslendingum sjálfum. Þær ástæður, sem hv. þm. færði fyrir þessu breytta viðhorfi sínu, voru svo barnalegar, að ekki nær nokkru tali. Það hefir enginn haldið því fram, að Danir hafi misnotað þennan rétt til þessa, en hinsvegar er nú vöknuð hreyfing í Danmörku fyrir því, að Danir hagnýti sér þennan rétt. Þó að það hafi heyrzt, að sú stj., sem nú situr að völdum í Danmörku, muni ekki hafa í huga að beina hinum danska fiskiflota hingað til Íslands, er ekkert víst um það, hvernig næsta stj. kann að taka í það mál; auk þess sem hin danska stj. ræður ekki við hið danska einstaklingsframtak, ef því sýnist svo sem arðvænlegt sé að leita hingað. Hættan í þessu efni liggur því opin fyrir.

Þó að ég væri með sambandsl. á sínum tíma, var það ekki af því, að ég sæi ekki þessi ákvæði 6. gr., sem og ákvæði 7. gr., heldur af hinu, að með ákvæðum 18. gr. um uppsagnarfrestinn var þjóðinni fenginn lykillinn að sjálfstæði Íslands, ef hún kynni að nota hann. Þess vegna var sjálfsagt að taka við sambandsl., þrátt fyrir gallana á 6. og 7. gr. Og ég tel það skyldu mína að berjast fyrir því, að þessi réttur verði notaður. Allir þeir, sem skildu, hvað þessi réttur þýddi, verða að berjast fyrir því, að hann verði notaður, því að það er hinn mikilvægasti réttur, sem þjóðinni hefir verið fenginn í hendur í sambandsmálinu. Þess vegna hefir mér fallið það þungt, þegar ýmsir þeirra manna, sem harðastir voru í sjálfstæðismálinu áður fyrr, gera nú lítið úr þessum rétti og kalla það glamur,þegar verið er að halda honum fram, og í ótíma talað, þegar verið er að reyna að vekja þjóðina til þess að trúan á þennan rétt.

Hv. 2. þm. Árn. sagði, að ég væri mestur í máli, en minni til framkvæmda. Um það er ekki mitt að fella dóm. Það verða aðrir en ég að gera. Því verður þó ekki neitað, að ég hefi gert allt, sem í mínu valdi hefir staðið, til þess að vekja skilning og trú meðal þjóðarinnar á þennan rétt, sem henni er fenginn í hendur með uppsagnarákvæðum 18. gr. Og ég mun halda því áfram, svo sem mér er auðið. Meira verður ekki af mér heimtað.

Hv. 2. þm. Árn. sagðist hafa verið hlutlaus í þessari baráttu. Það er helzt til að hrósa sér af. Samkv. hinni fyrri afstöðu þessa hv. þm. til sambandslaganna, er hann skyldugur til þess að standa fast í þessari baráttu.

Hv. 2. þm. Árn. var að skjóta persónulegum hnútum til mín. Ég læt mér það í léttu rúmi liggja. Það skiptir litlu máli, bæði fyrir mig og þjóðina, þó að hann og ýmsir aðrir leggist á það lag.

Hv. þm. sagði að ég væri einangraður. Það fæ ég ómögulega séð, þar sem það mál, sem ég legg höfuðáherzluna á, hefir jafnmikið fylgi og raun ber vitni. Ég fæ ekki séð, að sá sé einangraður, sem hefir áheyrn hjá þjóðinni og hefir fengið marga af mestu mönnum hennar til þess að trúa á sinn málstað og fylkja sér um hann. Hitt er annað mál, að ýmsir aðrir, eins og t. d. hv. 2. þm. Árn., standa nær þeim, sem völdin hafa, og geta þannig haft áhrif á ráðstafanir stj.

Hv. 2. þm. Árn. sagði, að sjálfsagt væri að segja samningunum upp, hvort svo sem samningur yrði gerður eða ekki. Þetta er hin mesta firra. (MT:Ég sagði ekkert í þessa átt). Hv. þm. hefir lært mikið síðan um daginn, þegar ég skrifaði þetta upp eftir honum. En þetta sama hefir komið fram í sjálfu stjórnarblaðinu. Þar er áherzlan lögð á endurskoðunina í stað uppsagnarinnar, og öllu grautað saman í þessu máli. Og eftir yfirlýsingu hæstv. núverandi stj. um það, að uppsögnin væri ekki ofarlega á dagskrá með þjóðinni, var það knýjandi nauðsyn að stofna Sjálfstæðisflokkinn.

Hv. 2. þm. Árn. sagði, að sjálfstæðisnafnið væri fagur forngripur. Ég verð nú að segja það, að hver sá flokkur, sem reynir að vinna að sjálfstæðismálum þjóðarinnar, getur með góðri samvizku borið þetta nafn. Það er langt frá því, að tími sé kominn til að leggja árar í bát. Meðan þjóðin er ekki búin að fá eignarrétt yfir landinu og ná utanríkismálunum í sínar hendur, er nóg að vinna fyrir sjálfstæðisflokk. Ef nógar raddir verða til þess að taka undir með hinum núráðandi flokkum í landinu um það, að sjálfstæðismálið sé glamur eitt, er hætta á ferðum. Þá er framtíð þjóðarinnar í voða.

Ég skal játa það, að það er langt frá því, að ég öfundi hv. þm. af utanfararstyrknum, sem mikið hefir verið rætt um. Hann var ekki svo mikill, að það taki því. Ég vissi, að hv. þm. þurfti að fara utan til þess að stækka sjóndeildarhring sinn. En því verr og miður hefir sjóndeildarhringurinn ekki stækkað, en hitt virðist mér, að hv. þm. hafi komizt helzt til mikið undir pilsfaldinn á „dönsku mömmu“ í þessari utanför sinni.

Ég skal fara fljótt yfir sögu, að því er snertir ummæli hv. 2. þm. Árn. um bankamálið. Hv. þm. sagði, að enginn í Framsóknarflokknum hefði viljað leggja bankann í rústir. Þetta þótti mér harla einkennilegt að heyra, þar sem það var á allra vitorði, að hæstv. stj. lagðist óskipt á þá sveif. Og hvað þýddi gjaldþrotafrv., sem kom fram nóttina eftir að vakað hafði verið og beðið fyrir lánstrausti þjóðarinnar, annað en það, að bankinn yrði lagður á höggstokkinn?

Það var ekki laust við að vera skemmtilegt, þegar hv. 2. þm. Árn. var að lýsa yfir því, að hann hefði alltaf verið því mótfallinn, að ríkið tæki bankann að sér og ræki hann. Með hvaða móti hefir endurreisn bankans orðið? Ríkið á meiri hluta hlutafjárins, það ræður meiri hluta bankaráðsins, svo að bankinn er eins nærri því að vera ríkisbanki og nokkur banki getur verið. Þó að einstakir menn hafi lagt fram hlutafé til bankans, hefir það engin áhrif á skipun bankastjóranna, og sýnir það greinilega, að bankinn er að öllu leyti ríkisbanki.

Ég skal ekki rekja sögu bankamálsins að þessu sinni. Ég hefi gert það áður. En ég get sagt það, að ég gerði allt, sem í mínu valdi stóð, til þess að vinna að endurreisn bankans. Mér var það ljóst í upphafi, hvað hrun bankans mundi verða örlagaríkt fyrir þjóðina, út á við og inn á við. En ég skal ekki fara nánar út í þetta nú. Það er ekki vert að vera að draga bankamálið inn í eldhúsdagsumr. frekar en þörf gerist, heldur vil ég aðeins drepa nokkuð á hina þingræðislegu aðstöðu, sem lausn bankamálsins hefir sett hæstv. stj. í. Kem ég að vísu inn á þetta í minni fyrri ræðu, en verð þó að endurtaka nú, það sem mestu máli skiptir. Þungamiðjan í því, sem ég sagði, var það, að ég vissi ekki betur en að hæstv. ríkisstj. hefi staðið á bak við gjaldþrotafrv. og þannig sýnt, svo að ekki verður um villzt, að hún var á móti bankanum. Á síðustu stundu var öllu snúið við með stofnun hins nýja banka. Allir sem kryfja málið til mergjar sjá, að þessi nýi banki er Íslandsbanki endurreistur. Nafnbreytingin er ekkert aðalatriði. Þótt bær, sem hét Fagridalur áður, sé nefndur upp ogkalláður Skeggjastaður, þá er það vitanlega alveg sami bærinn eftir sem áður. (BÁ: Og þótt Íhaldsflokkurinn skíri sig upp og nefnist Sjálfstæðisflokkur, þá er það sama íhaldið eftir sem áður). Ný stefnuskrá, nýir menn. og nýtt nafn skapa nýjan flokk. Hvað er svo þessi nýi banki? Hvaða kapital hefir hann? Hann hefir 1½ millj. kr. í stofnfé. Hvaða hús hefir hann? Ekkert. Hvaða fortíð? Enga. — Hann hefir ekkert nema þessa 1½ milljón; enga þræði sem liggja út til þjóðarinnar. En Íslandsbanki hefir kapital sem nemur 6 millj. Hann hefir hús, hefir útibú á fjórum stöðum og hann veltir milli 300 og 400 millj. Það er hégóminn einn að tala um, að Íslandsbanki sé ekki endurreistur. Bankinn með nýja nafninu tekur auk þess að sér allar skuldbindingar Íslandsbanka. Nei, það er Íslandsbanki, sem heldur áfram að starfa í sínu húsi, sínum útibúum og með sinni veltu, en auðvitað breyttu nafni. Skeggjastaðir þykja nú fallegra en Fagridalur. Hv. þm. talaði um, að ríkið hefði enga ábyrgð á þessum banka. Ræður ekki stj. yfir, hvernig bankaráðið verður skipað og hverjir verða bankastjórar? Leggur ekki ríkið fram 3 millj. + 1½ millj.? Þessi banki er í raun og veru ríkisbanki. Hann er alveg á valdi ríkisins og stj. En hæstv. stj. Lagðist hún ekki fast gegn því, að Íslandsbanki yrði endurreistur? Og samt er hann endurreistur og stórfé lagt í endurreisnina. En þegar málið gekk svo mjög gegn stj. var þá ekki ástæða fyrir hana að draga sig til baka? Jú, sannarlega! Það eru til þingræðisreglur, sem gildi hafa í öllum þingræðislöndum í kringum oss. Gegn þeim allsherjarreglum megum við ekki syndga. Fyrir oss er það álitshnekkir. Ef mikilsverð mál ganga á móti stj. í Englandi, þá biður hún þegar um lausn. Sama er í öðrum helztu þingræðislöndum. En mér þætti gaman að sjá það mál, sem gengi á móti þessari hæstv. stj. og henni þætti svo mikilsvert, að hún sæi ástæðu til að biðja um lausn. Stj. þóttist einu sinni eiga stórt mál, gengismálið. Það var svo stórt mál, að það blandaðist hjá henni saman við öll önnur mál. En hvað hefir svo hæstv. stj. gert í því máli síðan hún tók við völdum? — Ekkert, bókstaflega ekkert! — Þó var þetta hjartans mál stj., eftir því sem hún sjálf sagði. Forsrh. talaði aldrei um annað en gengið. Allt valt á því. En stj. sat samt sem fastast, þó hún gæti ekki komið málinu fram. Stj. annara þingræðislanda fara frá, ef þær koma ekki fram sínum hjartansmálum. — Bankamálið var afarstórt mál. Allir nema stj. og hennar auðmjúku skildu í raun og veru hversu stórt það var. Stj. var staðráðin í því að drepa bankann. Stj. hafði þá tröllatrú, að þetta væri til þess að bjarga lánstrausti þjóðarinnar. Þá kom kurr upp í stjórnarliðinu. Ekki nógu sterkur að vísu til að kasta stj. Enn nógu sterkur til þess að bjarga málinu. Fyrir þá björgun eiga uppreisnarmennirnir þökk skilið. En mikið þjóðþrifaverk hefði það verið, ef þeir hefðu einnig látið stj. falla. Hv. 2. þm. Árn. talaði um það, að þetta mál hefði verið notað af okkur til þess að reyna að fella stj. Hv. þm. mænir alltaf á stj. Og allir vita, að Sjálfstæðisflokkurinn telur það skyldu sína að fella stj. En svo stórt var þetta mál, að til þess að bjarga því hefðum við unnið það til að láta stj. sitja, ef við hefðum haft líf hennar í hendi okkar. —

Og hvílíkur ábyrgðarhluti hefði það ekki verið að láta stj. sitja, ef hægt hefði verið að fella hana.

Þá var hv. þm. með eitthvert spakmæli, sem ég skyldi ekki fyllilega. Mér heyrðist hann segja, að „seint væri afglapa at snotra“. — Ég býst nú við að þetta hafi verið einskonar eintal sálarinnar og leiði það hjá mér.