11.04.1930
Neðri deild: 77. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1510 í B-deild Alþingistíðinda. (1990)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Hákon Kristófersson:

Ég finn mér skylt að þakka hv. l. þm. Árn. fyrir ummæli hans um þetta mál. Ég verð þó að segja, að eins og frv. kom frá mþn. í landbúnaðarmálum var það sízt betra en það er nú. Af tvennu illu held ég, að þetta sé betra. Hitt vil ég taka fram, að þetta er eitthvað það bezta, sem komið hefir frá þessari n. En ef tekið er tillit til þess, hverjir í þessari n. sitja, er það einhver þverúðarfyllsta n., sem setið hefir hér á þingi. Henni er ómögulegt að ganga inn á réttmæti ýmsra till., en samt hefir hún samþ. þær.

Í sambandi við þetta vil ég minnast á þær till., sem ég flutti í þessu máli. Mér til mikillar ánægju virtist hv. frsm. vera mínum till. að mestu eða öllu leyti samþykkur, en hann lét taka af sér ráðin. Annars skal ég ekki vera að ræða við þá um þetta: Þeir þekkja þar ekkert til.

Nú þykir þessum hv. þm. Ed. hafa breytt 6. gr. frv. óhæfilega mikið. Vitanlega er frv. nú ekki eins og ég vil hafa það, en þó er það sízt verra en ef till. þessarar n. verður samþ.

Þá er það ein fyrirspurn, sem mig langar til að bera upp fyrir hv. frsm. n., um brtt. á þskj. 483.. Það atriði hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Allir yrðlingar, sem teknir eru á greni eða annarsstaðar á víðavangi, eru eign þess sveitarfélags, er annast um grenjavinnslu á því svæði skv. 2. gr., enda greiði sveitarfélagið eða sveitarfélögin allan kostnað við grenjavinnsluna“.

Ég vil nú bara spyrja hv. n.: Hvaða líkur eru fyrir því, að maður taki yrðlinga á víðavangi utan grenja? Það kemur alls ekki fyrir. (BSt: Það hefir komið fyrir). Já, en það kemur ekki fyrir hér eftir. (BSt: Hvers vegna ekki?). Af því að sveitarfélagið fær andvirðið, en það hefir það ekki gert áður. Það er líklegra, að þeir láti þá lifa til vetrar og vita, hvort ekki verður þá hægt að ná þeirra dýrmætu skinnum.

Ég verð að segja það, að úr því að n. vill, að yrðlingarnir komi ábúanda til gagns, hefði hún átt að samþ. mínar till. við þessa gr. Í þeim var miklu meiri trygging en frv. eins og það kom frá mþn., því í minni brtt. var eingöngu borgað eftir því, hvort bæði dýrin eða annað hefðu náðzt. En þessari brtt. minni snérist n. á móti.

Hv. 1. þm. Árn. benti á, að skytturnar fengju nú of mikinn ágóða af grenjavinnslu, en of lítið færi til sveitarfélaganna. Þar er ég honum ósammála. (JörB: Ég sagði það ekki). Jú, hv. þm. sagði það, og það hefðu líka orðið málaferli milli skyttu og hreppsnefnda. En það, sem ég er sammála hv. þm. um, er það, að eitthvert ákvæði verði að vera í lögum, sem tryggi það, að skyttur leggi sig ekki minna eftir fullorðnum dýrum en yrðlingum.

Hv. þm. sagðist mundu greiða neikvæði við frv. Ég skal sízt lá honum það. En ég held þó, að þótt þetta frv. sé hið mesta afskræmi (MJ: Heyr!), þá sé rétt að samþ. það, í von um, að eitthvað megi síðar gera til að laga gallana.

Það má finna marga aðra galla á frv., t. d. 9. gr. Hún er óþörf. Ég mæltist til þess við n., að þetta væri fellt niður eða því breytt þannig, að bæta mætti úr því með reglugerð. En það er eins og annað. Þótt ég viðurkenni, að allir í n. séu ágætismenn, geta þeir ómögulega gengið inn á neitt í þessu máli, sem þeir geta ekki komið auga á sjálfir. En þeir eru þessu svo ókunnugir, að þá hefir brostið getu, til þess að ganga sæmilega frá því. Það er líka efamál, hvort hægt sé að skylda sýslusjóð til að borga fyrir að vinna hlaupadýr. Ég vil benda hv. n. á það, að sýslusjóður Barðastrandarsýslu hefði orðið að borga 900 kr. fyrir unnar tófur í vetur, ef þetta hefði verið í lögum. (BSt: Þá veitir ekki af að drepa þær). Nei, en það þarf ekki að verðlauna það. Það er svo mikið verð í feldunum, að það er fulltrygging fyrir því, að menn leggi sig eftir slíkum veiðum. Þó að það sé svona mikið um tófuna, held ég, að hvergi hafi verið talað um að dýrbítur hafi fundizt.

Ég vil minna hv. þm. Mýr. á það, að hann er ekki forseti í þessari hv. d. Ég vil því ráðleggja honum að þegja um það, hverju ég held hér fram. (BÁ: Ég var ekki að tala um það). Þarna kemur heigulshátturinn fram hjá hv. þm. Hann þorir ekki að standa við það, sem hann hefir sagt. Já, hv. þm. er óhætt að kveðja sér hljóðs. Hann má tala í allan dag fyrir mér. (BÁ: Þarf að bera af mér sakir). Það mun þá takast hönduglega.

Af því að ég vil hugga hv. þm., ætla ég að segja honum, að ég hefi næstum lokið máli mínu. Ég hefi verið að benda hér á ýmsa agnúa á þessu frv., og ég get ekki séð, að það bæti úr neinu, þó að þessi brtt. verði samþ. Ég legg heldur enga áherzlu á, að þetta frv. nál. fram að ganga, en finnst það ekki lakara nú en þegar það fór úr þessari hv. d.