11.04.1930
Neðri deild: 77. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1512 í B-deild Alþingistíðinda. (1991)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Einar Jónsson:

Það er mikið búið að ræða þetta mál hér í hv. d., og er því leiðinlegt við það að bæta. En ég get ekki tekið þegjandi þeim orðum, sem beint hefir verið að hv. landbn. í sambandi við þetta mál. Hún hefir verið sögð þverúðarfyllsta n. þingsins. Þau ummæli get ég ekki tekið til mín, og ekki hv. meðnm. minna heldur. Finnst mér landbn. sízt eiga þau skilið, þegar hún er búin að leggja mikið starf í að reyna að laga þetta frv. Hitt mætti fremur segja, að hún væri ekki málinu nógu kunnug. Get ég viðurkennt það að því er mig snertir. En þó ekki sé mikið um refi nú í minni sýslu, þá var mikið strit við að útrýma þeim á yngri árum mínum þar. Og svo mikið mun vera enn til af refum, að full ástæða sé til að reyna allt, sem hægt er, til að útrýma þeim. A. m. k. skilst mér á hv. þm. Barð., að hann viti af æðimörgum skollum þar vestur frá, þar sem hann álítur sýslusjóðunum ofvaxið að greiða 10 kr. fyrir hvert hlaupadýr, sem skotið er. Hann hélt fram, að sýslusjóður Barðstrendinga gæti þurft að borga 900 kr. vegna þessa ákvæðis. Það sýnir, að hv. þm. hefir 90 refi þarna í nágrenni sínu. Og þó mér detti ekki í hug að bæta honum við þá tölu, þá er ekki hægt annað að segja en að allt of margir refir séu í Barðastrandarsýslu.

Þá hefir nm. verið borið það á brýn, að þeir hafi látið utanaðkomandi menn hafa áhrif á sig. Þetta kannast ég alls ekki við. En það var sjálfsögð skylda n. að sýna þeim, sem mesta þekkingu hafa á refaræktinni, þá kurteisi að veita þeim viðtal.

Brtt., sem n. flytur nú, jafnar þátttöku einstaklinga og hreppsfélaga í kostnaði og hagnaði við eyðing refa. Var n. einhuga um, að það væri heppilegasta leiðin. Hv. 1. þm. Árn. er illa við þessa till., og hv. þm. Barð. virðist honum að mestu sammála, þar til hann mundi allt í einu eftir, að mþn., sem hv. 1. þm. Árn. er í, var þó ennþá verri í þessu máli en landbn. þessarar d. En ég vil láta hann slá meira af og hætta að bera landbn. á brýn þverúð og að hún hafi hlaupið eftir till. utanaðkomandi og hlutdrægra manna. (HK: Ég hefi aldrei borið hv. n. á brýn, að hún hafi hlaupið eftir till. annara). Það má vera rétt, en þetta var samt sagt greinilega í mín eyru hér í hv. d. ekki alls fyrir löngu, og það má eflaust sjá í þingtíðindunum, hver það hefir verið.

Landbn. hefir nú gert það, sem hún áleit bezt í þessu máli, og það er nú á valdi hv. d., hvað hún fellir og hvað hún samþykkir.