11.04.1930
Neðri deild: 77. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (1994)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Gunnar Sigurðsson:

Ég skal ekki bæta miklu við þær löngu umr., sem orðið hafa um þetta mál. Það hefir víst mikið átt að vanda til þessara laga, eftir því að dæma, hve mikið hefir verið um þau talað og margar till. hafa komið fram.

En þegar ég lít yfir frv., finnst mér ekki vera tekið nógu mikið tillit til framtíðarmöguleikanna á þessu sviði. Refaræktarbúin eru fá ennþá, allt of fá, og þeim hlýtur að fjölga. Framtíðin mun sýna nauðsyn þess, að þau dýr, sem tekin eru hér ung, séu alin upp á búunum. Nú er það öllum vitanlegt, að allmikið er flutt út af yrðlingum til Noregs, og Norðmenn hafa sýnt okkur það ódrengskaparbragð, að þeir hafa selt verstu refina sem íslenzka refi, en blárefina sem grænlenzka. Við verðum að reyna að taka fyrir þetta. Það er máske ekki tímabært nú að koma því í gegn, en því verður að breyta bráðlega. Það væri t. d. hugsanlegt að leyfa refabúum aðeins að selja refi, sem eru stálpaðir. Ungir refir þola miklu verr flutninginn en gamlir.

Ef enn verða langar umr. um þetta mál, ber ég ef til vill fram skriflega brtt. Annars læt ég till. mínar bíða næsta þings.