08.04.1930
Neðri deild: 74. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1586 í B-deild Alþingistíðinda. (2091)

3. mál, landsreikningar 1928

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Ég vildi út af þessum ummælum hv. 1. þm. Reykv. taka það fram, að ef þetta er fært eins og n. leggur til, þá hefir upphæðin ekki áhrif á niðurstöðu skýrslunnar. Ef upphæðin er færð eins og nú er, þá gerir hún hag ríkissjóðs 1.500.000 kr. betri; ef hún er færð innanstriks, hefir hún engin áhrif á niðurstöðu fjárhagsins. En hinsvegar er ekki hægt að neita því, að þar sem ríkissjóður er eigandi að þessari kröfu, er ekki hægt að segja, að hún sé einskis virði, enda þótt Landsbankinn eigi ekki fyrir henni, en ef bjart verður yfir atvinnuvegunum á næstu árum og allt gengur vel, þá er ekki svo óeðlilegt, að Landsbankinn eigi eftir að græða svo mikið, að hann geti eignazt sem þessu svarar. Eins og þetta er fært, þá kemur það til að hafa áhrif á niðurstöðu eigna og skulda, jafnóðum og hann eignast þetta; en ég get ekki séð, að það geri nokkra breyt., þótt þessi krafa sjáist, en hún kemur til að hafa áhrif á reikninginn jafnóðum og eitthvað kemur upp í kröfuna. Sannleikurinn er sá, að kröfur, sem maður hefir á ýmsa einstaka menn, þótt þeir eigi ekki fyrir þeim í augnablikinu, þá getur aðstaða þeirra síðar orðið þannig, að þær hafi fullt gildi. Hvers virði er ekki hægt að segja, en rétt er að láta þær ekki hafa áhrif fyrr en gildi þeirra kemur til. Þess vegna tel ég ekki ástæðu til að breyta færslu n.