08.04.1930
Neðri deild: 74. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1594 í B-deild Alþingistíðinda. (2098)

3. mál, landsreikningar 1928

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Það má flestöllum vera ljóst, að ekki er rétt að færa svo, sem hér er gert. Þó ætti þetta innskotsfé í Landsbankanum, 1½ millj. kr., að vera lifandi eign fyrir ríkið. En mér finnst miklu réttara og eðlilegra, að þessi upphæð komi í ljós jafnóðum og hún sýnir sig að vera til. Ef hæstv. stj. ráðfærir sig við sérfróða menn um þetta næst, þegar landsreikningurinn er gerður, þá veit ég, að þeir sérfræðingar munu fallast á till. n. Og þar sem ég veit, að þetta getur ekki verið neitt kappsmál fyrir hæstv. stj., veit ég, að hún muni hér eftir haga færslum þessum eins og réttast er.

Ég hefi ekki tíma til að svara hv. þm. Barð. Ég heyri, að það er andi hatursins, sem blæs hinum mikla fjandskap inn í ræðu hans um Staðarfellsskólann. Hann vildi fá þennan skóla í Barðastrandarsýslu. Ég vil undirstrika það, að þessi skóli, sem Magnús á Staðarfelli átti svo mikinn þátt í að koma upp, hefir verið bæði héraðinu og landinu til sóma, og forstöðukonunni til sóma, vildi ég bæta við. Hvað átti hún að gera, þegar hún missti bróður sinn, dugnaðarmann, annað en að selja? Hún ætlaði ekki að búa. Hún ætlaði að gera skólann að fyrirmynd; það var hennar höfuðmark. Nú á Þórður á Breiðabólsstað að taka við búinu. Hv. þm. má spyrjast fyrir um hann. Hann nýtur einróma trausts. — Ég vona, að ég þurfi ekki að deila meir við hv. þm. Barð. Það er andi hatursins, sem hefir blásið þessari feikna illska inn í ummæli hans.