13.02.1930
Efri deild: 21. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1702 í B-deild Alþingistíðinda. (2324)

60. mál, löggilding verslunarstaða

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég hygg, að það sé varla háð nokkurt Alþingi nú á síðari tímum svo, að ekki liggi þar fyrir till. um löggilding verzlunarstaða, og oftast hafa þessar till. náð fram að ganga. Á þskj. 60 liggur fyrir frv. um, að löggiltir séu tveir staðir í Norður-Múlasýslu, sem sé Gunnólfsvík á Langanesströndum og Hánefsstaðaeyrar við Seyðisfjörð.

Það stendur svo á um báða þessa staði, að þar er allmikil útgerð. Á Hánefsstaðaeyrum er rekin mest útgerð við Seyðisfjörð, og í Gunnólfsvík hefir verið rekin útgerð í nokkur ár, en farið mjög í vöxt eftir að farið var að hafa vélar í opnum bátum. Á báðum þessum stöðum eru sæmileg lendingarskilyrði og því hafa þeir, sem þarna búa, nokkuð til síns máls, er þeir æskja eftir að fá þessa staði löggilta sem verzlunarstaði.

Eins og ég gat um áðan, hefir verið venja að verða við slíkum óskum, og því hefir n. lagt til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.