12.02.1930
Neðri deild: 22. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1788 í B-deild Alþingistíðinda. (2435)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Fjmrh. (Einar Árnason):

Hv. 1. þm. Skagf. flytur tvær brtt. á þskj. 97. Ég get verið mjög stuttorður um þær, en skal þó víkja að þeim nokkrum orðum.

Fyrri brtt. á þskj. 97 er um það, að skilanefnd verði kosin af sameinuðu Alþingi, í stað þess að fjmrh. skipi hana. Hv. flm. færði þær ástæður fyrir þessu, að betra væri, að þessi n. væri dálítið blönduð í pólitísku tilliti. Ég get skilið það, að ef hv. flm. telur það mikils um vert, að í þessa n. veljist eingöngu sterkt litaðir menn, þá er þetta bezti vegurinn til þess að gera n. pólitíska. En er þetta til þess að tryggja gott samkomulag í n.? Ég held ekki. Ég verð hinsvegar að telja það mestu varðandi, að í n. veljist fyrst og fremst vel samhentir og viljagóðir menn, bæði vegna bankans og viðskiptamanna hans. Með tilliti til þess, verð ég að leggja á móti þessari till. — Hv. flm. kvaðst hafa lýst því yfir við 2. umr., að hann mundi flytja slíka brtt. við 3. umr. Ég tók nú ekki eftir því; það hefir farið framhjá mér. En hinsvegar taldi ég sjálfsagt, að brtt. hans fengju að komast til þessarar umr., þó afbrigða þyrfti að leita.

Um aðra brtt. er það að segja, að ef hún yrði samþ., er ég hræddur um, að slíkt kynni að leiða af sér óþægilega vafninga í viðskiptalífinu. Í till. segir m. a. svo:

„Þeir, sem vegna stöðvunar á starfsemi bankans geta ekki staðið í skilum við skuldheimtumenn sína, skulu hafa greiðslufrest til 1. maí“ o. s. frv.

Hér er ekki einu sinni bundið við það að eiga inni í bankanum. Till. er fyrst og fremst óhæfilega víðtæk. Það gætu allir skotið sér inn undir þetta skálkaskjól og sagt: Ég ætlaði að fá víxillán í Íslandsbanka; þess vegna get ég nú ekki staðið í skilum. — Slíkt ákvæði má teygja óendanlega til þess að refjast við greiðslum. T. d. getur sá, sem á sparisjóðsbók í Íslandsbanka með jafnvel óverulegri upphæð í, ávallt sýnt bókina, þegar hann væri krafinn um greiðslur. Ég þarf ekki að eyða orðum um þetta; menn ættu að geta skilið, að slík lagasetning getur haft og hlýtur að hafa hinar háskasamlegustu afleiðingar. (HK: Eru menn almennt svona óærlegir í viðskiptum, að þurfi að gera ráð fyrir slíku?). A. m. k. hlýtur þetta að ýta mjög undir vanskila- og skuldarefjar; gæti auðveldlega komið af stað þeirri vanskilakeðju, sem örðugt yrði að ráða fram úr og sem seint tæki enda. Ef t. d. hv. þm. Barð. ætti hjá mér peninga og vildi fá þá greidda, þá væri mér nóg að sýna honum sparisjóðsbók í Íslandsbanka, til þess að hann gæti ekki gengið að mér. (HK: Ég myndi nú ekki gera það hvort eð væri; þykir of vænt um þann heiðursmann til þess). Að slepptu öllu gamni hygg ég, að ekki verði skynsamleg rök færð gegn því, að slíkt ákvæði yrði mjög misnotað. Ég verð því að ráða hv. d. alvarlega frá því að samþ. þessa breyt. hv. 1. þm. Skagf.

Þá skal ég víkja nokkrum orðum að brtt. hv. 2. þm. G.-K. á þskj. 99. Sú till. fer fram á, að bankastjórn Landsbankans skipi n. til þess að rannsaka hag Íslandsbanka, og að vissir tilteknir menn verði þessari n. til aðstoðar. Mér koma þessar till. mjög á óvart, því að hv. flm. lagði mikla áherzlu á það í gær, að ég skipaði nefndina sem allra fyrst. Ég hafði líka gert ráð fyrir því, að brtt. kæmu ekki fram þessa efnis, og því get ég alls ekki léð þeim fylgi nú, þar sem ég er kominn nokkuð á veg með skipun nefndarmannanna. Ég hefi að vísu ekki slegið föstu um alla mennina, en sumir þeirra eru þegar teknir til starfa. (MJ: Hverjir?) Ég get fúslega svarað þeirri spurningu. Á Akureyri hefi ég sett Böðvar lögmann Bjarkan til þessa starfa, og á Ísafirði Jón Guðmundsson endurskoðanda, og lagði hann af stað í nótt með „Drottningunni“. Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þessar brtt., en er fullkomlega andvígur þeim öllum og legg til, að þær verði allar felldar.