27.02.1930
Neðri deild: 38. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2024 í B-deild Alþingistíðinda. (2570)

45. mál, háskólakennarar

Hannes Jónsson:

Það er ekki hægt að segja, að mikill svipur sé með því, sem hv. flm. þessa frv. segja. Annar telur, að ég fari með rétt mál, en hinn rangt; og þó kemur þeim báðum saman um, að ég misskilji frv. Hv. 1. þm. Reykv. var líka flm. þessa frv. í fyrra, og hafi hv. 2. þm. Reykv. á réttu að standa nú, hefir hv. 1. þm. Reykv. ekki vitað, hvað það var, sem hann samdi og bar fram þá. En mér finnst miklu sennilegra, að það sé hv. 2. þm. Reykv., sem veður reyk og villu í þessu máli nú, og að það sé misskilningur hjá honum, að hér sé ekki um launamál að ræða.

Ég endurtek því, að mér finnst þetta ætti að bíða eftir endurskoðun launalaganna, ef hv. þm. á annað borð trúa því, að hún verði gerð, og ég tel sjálfsagt, að svo sé, þar sem dýrtíðaruppbótin er framlengd nú aðeins til eins árs.

Þetta er að vísu ekki stórvægilegt mál, en það verður ábyggilega ekki til að greiða fyrir endurskoðun launalaganna í heild, þegar hún fer fram, ef nú á að ganga inn á þá braut að gera breyt. á kjörum einstakra embættismanna, heldur þvert á móti.