12.04.1930
Efri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

1. mál, fjárlög 1931

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég þyrfti í raun og veru að svara hv. 4. landsk., en þar sem hann er dauður við þessa umr., verð ég að láta það bíða þangað til við næstu umr. (JBald: Að ári) — og svara meiri partinum af ræðu hans þá. En hv. þm. beindi til mín fyrirspurn út af gengisviðauka til stúdenta, sem fá styrk úr ríkissjóði, og er þar því til að svara, að stj. áleit, að eins og gengið væri frá fjárl., væri ekki hægt að skoða þennan styrk öðruvísi en í íslenzkum krónum, en aftur á móti hefir komizt á sú þingvenja síðan 1918 að borga konungi og sendiherra í mynt þess lands, sem þeir eru búsettir í, en aldrei komizt á sú venja að borga stúdentum í mynt annara landa. Nú er, það sérstaklega eitt land, sem er lokað fyrir stúdentum, en það er England. Það hefir verið gerð tilraun til þess af prófessorum við háskólann í Leeds, þar sem íslenzkir stúdentar hafa stundað nám við og við, til þess að benda þeim á, að íslenzkir námsmenn gætu ekki stundað nám í Englandi með þessum 1.200 kr. styrk, hvort sem það væri í íslenzkum eða dönskum krónum. Það má segja, að stj. sé ámælisverð að hafa ekki leyst þetta, en það er erfitt, því að ef farið væri að veita mjög mismunandi háan styrk, mundi koma óánægja meðal þeirra, sem styrkinn fá, en ef þetta hefði komið til fyrr en við þessa umr., hefði ég verið ánægður með að setja aths. í fjárl. hvernig þessu væri háttað. Það má kannske skilja þessa fyrirspurn hv. 4. landsk. sem aths. viðvíkjandi þessum styrk. En ég verð því miður að játa, að þetta mál er ekki leyst með þeim aðgerðum, sem gerðar hafa verið.