13.03.1930
Efri deild: 50. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2289 í B-deild Alþingistíðinda. (3048)

117. mál, jarðræktarlög

Halldór Steinsson:

Ég viðurkenni það, að nauðsynlegt er að koma upp góðum heyhlöðum sem víðast. Hinsvegar get ég tekið í sama streng og þeir, sem haldið hafa fram, að þar sem hér væri um allmikla fjárgreiðslu að ræða, gæti verið spursmál, hvort rétt er að samþykkja hana án þess að hafa vissu fyrir, að einhver tekjuliður komi í staðinn. A. m. k. hefir það stundum áður verið látið klingja hér í hv. d., hafi átt að samþykkja einhverjar fjárgreiðslur, að nauðsynlegt væri að útvega einhvern nýjan tekjulið í staðinn. Og nú hefir verið lagt fram frv. um að lækka útflutningsgjald af síld, en meiri hl. fjhn. gat ekki mælt með því, vegna þess að ekki væri bent á neinn nýjan tekjulið í staðinn. Ef fylgja á þessari reglu, þegar um er að ræða ívilnanir eða styrk til sjávarútvegsins, þá á áreiðanlega það sama að gilda þegar styrkja á landbúnaðinn.

Það er ekki svo að skilja, að ég sé að telja eftir, hvað mikið hefir verið lagt fram til eflingar landbúnaðinum. En því verður ekki neitað, að ekki er fullt samræmi milli þessara tveggja atvinnuvega að því er snertir fjárframlög ríkisins til þeirra. Það má segja, að svo langt sé nú þegar gengið í því að styrkja landbúnaðinn, beint og óbeint, að bændur geta fengið greitt svo að segja hvert dagsverk, sem þeir láta vinna, annaðhvort með beinum styrkjum eða lánum. Það er nú búið að styrkja landbúnaðinn svo mikið, bæði með jarðræktarlögunum og ýmiskonar lánsstofnunum, sem veita bændunum hagkvæm lán til hverskonar framkvæmda, að mér finnst ekki rétt að stíga enn stórt spor í sömu átt án þess að líta til hins atvinnuvegarins. Það verður að gæta þess að gera ekki of mikið upp á milli hinna tveggja aðalatvinnuvega landsmanna. Það er svo nú, að ef t. d. þurrabúðarmaður í einhverju kauptúninu vill rækta blett eða byggja yfir sig og sína, þá á hann ekki greiðan aðgang að neinum sjóði eða banka og fær engan styrk frá ríkinu; hinir fáu sparisjóðir úti um landið eru helzta hjálparhella slíkra manna, og geta þeir þó ekki veitt nema mjög takmarkaða hjálp.

Nú eru alltaf að verða hærri og hærri þær raddir, sem krefjast stuðnings til hafnarbóta úti um landið. En sumir þm. virðast sýna heldur lítinn skilning á því mesta framfaramáli þeirra, sem við sjávarsíðuna búa, og bæri þeim þó að taka þeim málaleitunum með jafnmiklum skilningi og velvild sem þeim málum, er lúta að vexti landbúnaðarins.

Hv. 6. landsk. taldi ekki þörf á að leggja á nýja skatta, þó frv. þetta væri samþ., og benti á ýmsar fjárveitingar, sem samþ. hefðu verið án þess að sérstakur tekjuliður væri ætlaður á móti. Sagði hann, að í hlöðunum væri líka um svo mikið verðmæti að ræða, þegar þær væru komnar upp. Það er auðvitað rétt, en sama má segja um flestallar aðrar framkvæmdir. Ekki eru t. d. hafnirnar verðlausar, þegar búið er að byggja þær, því fáar framkvæmdir munu gefa eins mikinn arð og þær.

Annars stóð ég nú upp aðallega til að benda á það, að mér finnst ekki þetta mál vera látið ganga alveg rétta þingskapaleið í gegnum hv. d. í 16. gr. þingskapanna segir svo:

„Nú er borið upp frumvarp eða þingsályktun, sem fer fram á aukin útgjöld úr ríkissjóði, og er því máli vísað í nefnd, og skal þá sú nefnd, ef hún ætlar að mæla með frumvarpinu eða tillögunni, leita álits fjárveitinganefndarinnar um fjárhagsatriðið í málinu; skal fjárveitinganefnd í stuttu máli játa uppi álit sitt með eða móti, og skal það álit fylgja nefndarálitinu“.

Þó ekki hafi nú æfinlega verið farið eftir þessu, þá finnst mér ástæða til þess, þegar um svo stóra upphæð er að ræða sem nú. Ætti því að taka málið út af dagskrá nú og vísa því til fjvn. til að fá hennar álit um það. Ég kynni betur við, þar sem um svo stóra fjárupphæð er að ræða í sambandi við þetta frv., að því ákvæði þingskapa væri fylgt, að málið væri í þetta sinn tekið út af dagskrá og vísað til fjvn.