16.04.1930
Neðri deild: 84. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

1. mál, fjárlög 1931

Hákon Kristófersson:

Það vill svo til, að ég á 2 brtt. við fjárlagafrv., sem er hér til umr., en því er þannig háttað, að tilgangslaust virðist að mæla fyrir þeim, því að hv. fjvn., að undanteknum hv. þm. Ísaf., og meiri hl. þessarar hv. d. virðist ætla að taka höndum saman um það að láta enga brtt. ná fram að ganga, hversu réttmæt sem hún væri. Hitt orkar tvímælis, hversu rétt þetta er, einkum þegar litið er til þess yfirlits, sem hv. frsm. gaf um meðferð hv. Ed. á málinu. Ég veit, að það muni vera á tilfinningu flestra hv. dm., að viðskilnaður hv. Ed. við frv. sé á þann veg, að ekki sé sæmilega viðunandi. Ég skil ekki, þegar hv. frsm. og aðrir kvarta um óheppilega meðferð Ed. á málinu, en vilja þó ekki lagfæra það, sem þeim þykir miður Þetta er svo undarlegt, að menn hlýtur að stórfurða á. Það er engin vörn, að menn búist við, að svo verði ekki framvegis. Þetta hefir heyrzt á undanförnum þingum, að slíkt ætti sér vonandi ekki framar stað. (BÁ: Ekki í fyrra). Í fyrra vildi meiri hl. ekki láta kúgast af minni hl. En nú ætlar þessi hv. d. að láta í minni pokann. (BÁ: Sá vægir, sem vitið hefir meira). Það kom ekki fram hjá hv. frsm., sem vitanlega er skarpvitur maður, að þessi aðstaða d. kæmi til af því, að hún fyndi til vitsmunamunar gagnvart hv. Ed. En honum er þó auðvitað vorkunn, og þeim hv. þm. öðrum, er svo líta á. Ég verð að segja, að ég tel þessa aðferð mjög óviðunandi og að meiri hl. þessarar hv. d. geti tæplega sætt sig við að kasta þungum steini að hv. Ed., en vilja þó ekki lagfæra þær misfellur, sem hann telur á frv., og koma þannig í veg fyrir, að brtt. nái fram að ganga, hversu réttmætar sem þær eru. Og í því er ekki til að dreifa vitsmunaskorti hv. Ed., sem hv. frsm. vill nú vera láta.

Hæstv. fjmrh. kvað það muna 10 dögum, ef fjárl. væru opnuð nú. Ég sé ekki, að sá útreikningur geti átt sér stað. Það væru þá mjög óeðlilegar tafir, og aðrar en gætu stafað af meðferð fjárl., ef munað gæti 10 dögum. Hitt kann að vera, að hæstv. fjmrh. óttist einhverjar misþyrmingar á fjárl. frekari en orðið er, ef þau verða opnuð. En ég verð að segja, að ég tel miður, að þessi aðferð skuli viðhöfð, sem nú er beitt.

Það var minnzt í dag, og núna rétt áðan af hv. 1. þm. N.-M., á afstöðu Alþingis gagnvart kröfu herra Páls Torfasonar um greiðslu á fé, er hann telur vangoldið vegna afskipta hans af hinu svonefnda enska láni. Ég kom dálítið við þetta mál á síðastliðnu ári, og nú á þessu þingi að því leyti, að ég hefi með fleiri hv. þm. skrifað undir áskorun til hæstv. stj. um að bæta það, er vangreitt kann að vera. Ég hefi litið svo á, að svo fremi hlutur herra Páls Torfasonar hefir verið fyrir borð borinn, þá sé brýn skylda að lagfæra það. Því var slegið fram af hæstv. fjmrh., að hann hafi ekki viljað greiða herra Páli Torfasyni neitt síðastliðið ár, af því að síðasta þing hafi ekki ákveðið neina upphæð. Frá mínu sjónarmiði er það svo, að ég hafði enga hugmynd um, hver upphæðin skyldi vera, heldur vildi ég, að honum væri goldið það, sem honum bæri réttilega, því að réttan hlut hvers manns vildi ég ekki vita fyrir borð borinn. En ef það er satt, sem hv. 2. þm. Reykv. leyfði sér að sjá fram hér í dag í sambandi við þetta atriði; þá er það raunalegt og nærri því óhæfilegt, að maður í jafnvirðulegri stöðu sem konungsritari skuli leyfa sér að hafa annað eins í frammi. Og ef rétt reyndist, væri það ekki ófyrirsynju að skora á hæstv. stj., að sjá um, að konungur hefði ekki slíkan mann, — hvorki sér til hægri né vinstri hliðar.

Ég skal ekki lengja umr. um skör fram, og þó að ég hefði tilhneiging til þess, þarf ég ekki velvirðingar á því að biðja, meðan ég fer ekki út fyrir þá heimild, sem þm. hafa til þess að ræða málin. Ég gat ekki verið viðstaddur hinar löngu eldhúsdagsumr. og er því nokkuð ókunnugur því, sem þar bar á góma. Ég vildi því beina lítilli fyrirspurn til hæstv. fjmrh., ef svo kynni að vera, að á það atriði hafi ekki áður verið minnzt. Ég hefi orðið þess vitandi, að árið 1929 hefir nokkru fé verið varið úr ríkissjóði til framkvæmda í búskap í Breiðuvík í Barðastrandarsýslu, samtals um 4.600 kr. Án þess að koma til hugar, að nokkur vafi sé á nauðsyn þessarar greiðslu, vildi ég leyfa mér að spyrja, til hvers þessu fé hafi verið varið, eða hvort búskapurinn í Breiðuvík hafi ekki betur staðizt en svo, að þetta hafi þurft að leggja með. Þá væri ekki furðuefni, þó að mörgum bóndanum gangi miður vel sinn búskapur. Þá verður og minna, er getur komið til greiðslu skuldar Einars Jónassonar fyrrv. sýslumanns við ríkissjóð, ef búi hans verður að halda við með svo mikilli greiðslu úr ríkissjóði. Af því að hæstv. fjmrh. er ekki nú sem stendur staddur hér í hv. d., er ef til vill ekki von um upplýsingar í þessu efni. Það verður þá svo að vera. Ég hefi ekki getað fullnægt forvitni minni á annan hátt en að spyrja. Verði ég ekki virtur svars, er ekki annað fyrir en að taka það sem hverja aðra óvirðing.

Ég álít, að stj. sé skylt að gera sem mest úr eignum herra Einars Jónassonar, í fyrsta lagi til þess að ríkissjóður fái sitt, og í annan stað til þess að eigandinn njóti, ef afgangur gæti orðið. En eftir því, sem mér er kunnugt, er síður en svo, að gætt hafi verið að koma eignum hans í það verð, sem mætti. Sumar eignir hans í Barðastrandarsýslu hafa verið seldar fyrir miklu lægra verð en hægt var að fá fyrir þær og ég hefði treyst mér til að selja þær fyrir, ef mér hefði verið falið það. Það er síður en svo, að þetta sé sagt til þess að kasta steini að hæstv. stj., en þetta stafar af því, að hún hefir treyst þeim mönnum, sem hún hefir falið að ráðstafa eignunum. Viðkomandi meðgjöf með búinu í Breiðuvík skal ég geta þess, að herra Einar Jónasson notfærði sér ekki afurðir búsins síðastliðið ár, nema ef til vill ullina: um það er mér ekki kunnugt og vil því ekki fjölyrða um það til né frá. Þætti mér fróðlegt að vita nöfn þeirra manna í Barðastrandarsýslu, sem svo eru færir til ráðsmennsku, að þeir þurfa 4.600 kr. meðgjöf með búi í Breiðuvík. Til þess að forðast misskilning, skal ég geta þess, að ég hefi vitneskjuna um þessa greiðslu frá ríkissfjárhirzlunni.

Ég skal geta þess í sambandi við þetta, að málaflutningsmaður einn hér í bæ, sem hefir þessar eignir með höndum, góður maður og gegn, bað mig um að koma til viðtals við sig, til þess að ræða við sig um ráðstafanir á Flateyjareignum herra Einars Jónassonar. Kvaðst hann vilja fá fyrir eignirnar 26 þús. kr., en spyr mig, hve mikið ég mundi vilja gefa fyrir þær. — „20 þús. kr.“, segi ég. „Vilduð þér selja eignirnar fyrir það verð?“ spyr hann. Ég kvað nei við, sagðist ekki mundu vilja láta þær undir því verði, sem hann hafði nefnt. Og eftir að hafa lagt þetta niður fyrir okkur, kom okkur saman um, að eignirnar væru að minnsta kosti 26 þús. kr. virði. Sagði hann, að eignirnar mundu settar á uppboð og boðið í þær fyrir ríkissjóðs hönd — ef þyrfti, og síðan seldar undir hendinni, á þann hátt, að aldrei fengist minna fyrir þær en 26 þús. kr. Nú er maður sendur vestur, og lokaþátturinn í meðferðinni á þessum eignum herra Einars Jónassonar er á þá leið, að umboðsmaður ríkissjóðs býður í þær og fær sér slegnar fyrir 21 þús. kr. Svo er makkað um þetta að uppboðinu loknu. Ég skal taka það fram, að ég er ekki að áfellast meðferð hæstv. stj. að öðru leyti en því, að henni varð ekki úr vegi að spyrja þm. Barðstrendinga, hvort þetta verð væri í hófi; því hafði hún ekki fyrir. — Og hverjir fleyta svo rjómann? Þessu er þannig ráðstafað, að kaupfélagið og Flateyjarhreppur eru látin ganga inn í kaupin. Það má segja, að hver silkihúfan sé upp af annari. Jörð, sem Einar Jónasson kaupir fyrir 3.000 kr., er seld fyrir 2.000 kr. (MG: Hvers virði var jörðin?). Ég veit, að ég hefði ekki látið hana fyrir minna en 3.500 kr. Þó verð ég að segja, að í þetta sinn kom salan maklega niður, vegna þess, hver hreppti jörðina. (Dómsmrh: Var það framsóknarmaður?). Því má nú nærri geta. En það var sami maðurinn og áður hafði selt Einari Jónassyni jörðina, en Einar var ekki farinn að borga hana.

Ég verð að segja það, að ríkissjóður hefir tapað meiru á þessari ráðsmennsku en sem nemur ýmsum smástyrkjum til námsmanna og sjúklinga, sem Ed. skar niður. Held ég, að því fé, sem þarna hefir tapazt, hefði verið betur varið þannig. Það er að vísu allrar virðingarvert, að hæstv. fjmrh. skuli vilja spara, en þá verður hann að vera sjálfum sér samkvæmur í sparnaðinum og sjá um, að eignum ríkissjóðs sé haldið í hæfilegu verði. En það, sem fram hefir farið þarna vestra, er í senn til tjóns fyrir ríkissjóðinn og mann þann, er hér á hlut að máli, Einar Jónasson.

Þó að ég þykist sjá, að fjvn. ætli að beita hér ofríki til að koma í veg fyrir, að mínar. till. nái fram að ganga, þá vil ég þó geta þess um VIII. brtt. á þskj. 557, að þá till. hefi ég ekki átt kost á að koma fram með fyrr. Því er það, að ég ber nú þessa lítilfjörlegu till. fram. Um hinar brtt. hefi ég talað áður, og mun ég láta það nægja, þar sem útlit er fyrir, að öllum brtt. sé búin sama gröfin.

Ég vona, að hæstv. fjmrh. virði fyrirspurnir mínar svars. Einkum þætti mér vænt um, að fá upplýsingar um búsmeðgjöfina, sem ég drap á áður. Þegar ég kem heim í mitt kjördæmi, veit ég að ég verð spurður, hvaða svör ég hafi fengið um það efni.