30.01.1930
Neðri deild: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2329 í B-deild Alþingistíðinda. (3127)

32. mál, vegalög

Bernharð Stefánsson:

Það er ekki langt síðan vegalögin voru sett, en það er allt útlit fyrir, að ekki hafi tekizt sem bezt að uppfylla kröfur og þarfir almennings í þessu máli. Að minnsta kosti hafa á hverju þingi síðan komið fram tillögur um breytingar á þeim. Allar hafa þær farið sömu leiðina, til samgmn., og þar hafa þær sofnað út af. Ég minnist þess, að í fyrra, þegar, lagt var til að vísa slíku frv. til samgmn., lét ég í ljós efa um, að það væri til nokkurs. En hv. þáverandi og núverandi formaður nefndarinnar (GunnS) hafði þá góð orð um, að málið yrði afgreitt. Efndirnar urðu samt ekki að sama skapi, því nál. kom svo seint á þingtímanum, að ekki var hægt að gera neitt frekar. Hv. flm. þessa frv., sem nú liggur fyrir; lagði til, að því yrði vísað til samgmn., enda væri það samkv. þingvenju. En vegna þeirrar reynslu, sem fengin er, vil ég skjóta þeirri spurningu til hæstv. forseta, hvort það er ekki leyfilegt, þingskapa vegna, að kjósa sérstaka nefnd til að fjalla um þetta mál. Ég hefi enga trú á, að afgreiðsla fáist á því í samgmn., nema kannske ef samgmn. lýsir því yfir eindregið nú þegar, að hún skuli taka málið fyrir. Þá get ég fallið frá þessari till. minni. Ég brýni hv. samgmn. í þeirri von, að það beri einhvern árangur og að sjálfsögðustu breytingar á lögunum geti náð fram að ganga, eins og t. d. loforð Alþingis frá 1923 um að taka flutningabrautir upp í tölu þjóðvega. Þingtíðindin sanna, að þetta loforð var gefið af þinginu 1923 og efnt að mestu leyti 1924. En tvær flutningabrautir voru skildar eftir. Virðist vera kominn tími til að fara að efna þetta 7 ára gamla loforð. Ef hv. n. vill vinna að þessu, er henni til hægðarauka komin fram tillaga einmitt um þetta sérstaka atriði.

Ég vænti svars frá hv. formanni samgmn. og hæstv. forseta um það, hvort hann telur það brot á þingsköpum að kjósa sérstaka nefnd í þetta mál.