30.01.1930
Neðri deild: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2338 í B-deild Alþingistíðinda. (3136)

32. mál, vegalög

Benedikt Sveinsson:

Hv. 2. þm. Rang., sem er formaður veganefndar, hefir nú reynt að gera nokkra grein fyrir hinum langa drætti, sem varð á nál. nefndarinnar í fyrra. Skal ég nú víkja nokkrum orðum að ástæðum hv. þm., ef ástæður skyldi kalla: Hann talaði um „undirnefnd“, sem tafið hefði afgreiðslu nál. Mér er ekki fyllilega ljóst, hvað hv. þm. á við með þessari skýringu, nema ef vera skyldi flokksnefnd, sem kosin var á lokuðum flokksfundi til þess að fjalla um þessi mál. Ég get nú frætt hv. þm. um það, að þessi nefnd var búin að skila áliti sínu á miðju þingi í fyrra, svo að tæplega hefir hún staðið hv. samgmn. verulega fyrir þrifum. Álit hennar var örstutt, og kom svo tímalega, að hv. n. hefði þess vegna getað sýnt meiri röggsemi um afgreiðslu málsins þegar á síðasta þingi.

Þá taldi hv. þm. höfuðástæðu dráttarins, að landsverkfræðingur hefði verið erlendis meginhluta þingtímans í fyrra. Hafi það valdið töfum á störfum hv. n. Sýnir það einungis, að nefndin hefir misskilið hlutverk sitt. Auðvitað er það þingsins að ákveða, hvar vegir skuli liggja og hverjir vegir skuli ganga fyrir, enda hefir það jafnan verið svo. Veit ég ekki betur en að Alþingi hafi ráðið vegalögunum til lykta, bæði 1907 og 1924. Þetta liggur í hlutarins eðli. Verksvið landsverkfræðings, eða vegamálastjóra, er allt annað. Hann á að annast framkvæmdir þær, er Alþingi vill láta gera. Það er fyrst og fremst þjóðin og fulltrúar hennar, sem meta, hvar þörf sé brýttust og ákveða hver verk skuli framkvæmast og í hverri röð. Verkfr. annast því næst kaup á efni, ræður smiði og verkstjóra og lítur eftir öllum framkvæmdum. Það er því óviðeigandi af hv. þm. að tala um hlutdrægni vegamálastjóra, því að hann gerir vitanlega ekki annað en þing og stjórn leggur fyrir hann. Að vísu ræður hann, hvort brú er byggð úr steini eða járni, eða hvort vegur er lagður hérnamegin eða hinumegin við holtið, o. s. frv., en þetta skerðir í engu vald þingsins. Það verður því að teljast fremur veigalítil afsökun fyrir úrskurðarleysi nefndarinnar árum saman, að vegamálastjóri var fjarverandi, því að hennar verk var fyrst og fremst að gera till. um heildarskipun vega hér á landi. Framkvæmdir laganna fara síðan eftir getu þjóðarinnar á hverjum tíma, enda dettur engum í hug, að mögulegt sé að framkvæma vegalögin í einni svipan. Þau eru, nánast sagt, sett til þess að samræma vegakerfi landsins, og til þess að stemma stigu fyrir óhóflegu reiptogi milli einstakra landshluta um þessi mál, sem verða mundi, ef um hvern vegarspotta þyrfti að þjarka á hverju þingi, svo sem fyrrum gerðist.

Hv. þm. sagði það réttilega, að nefndin hefði skilað áliti sínu í fyrra, en gallinn var, að það kom svo seint, að ekki gafst tími til að afgreiða málið fyrir þá sök. Nú vill svo til, að nákvæmlega sömu brtt. eru komnar fram á ný, sem nefndin fellst á, svo að málið liggur í rauninni eins fyrir og þegar nefndin gekk frá því í fyrra. Nefndin ætti því ekki að þurfa að liggja lengi á málinu í þetta sinn; hún „afmarkaði“ stöðu sína til málsins eins og það liggur fyrir með nál. frá 7. maí í fyrra. Ég væri því fyrir mitt leyti ánægður, þótt nefndin breytti aðeins dagsetningu nál. síðan í fyrra, og gæfi það út á ný, óbreytt að öðru leyti. Mundi sú meðferð greiða mest fyrir framgangi málsins á þessu þingi.