03.04.1930
Neðri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2353 í B-deild Alþingistíðinda. (3153)

32. mál, vegalög

Halldór Stefánsson:

Jafnvel þótt veitt sé dálítil úrlausn samkv. till. nefndarinnar á till. okkar hv. 1. þm. S.-M., þá get ég þó ekki verið ánægður með þær, þar sem n. vill ekki taka nema lítinn hluta af þeim vegi upp í þjóðvegatölu, sem við höfum gert till. um. Hv. frsm. (JAJ) sagði, að það hefði verið hin ríkjandi stefna að leggja sem mesta áherzlu á að tengja fyrst saman landshluta og leggja svo aukavegi frá aðalvegum til kaupstaðanna og koma þannig vegakerfinu í rétt horf á löngum tíma. Ég skal ekki neita því, að mest áherzla hafi verið lögð á það undanfarið að tengja saman héruð og landshluta, en hinsvegar verð ég að telja það mikið vafamál, hvort sú stefna hefir verið rétt, því að mér virðist hitt eiga að sitja fyrir, að leggja fyrst vegi um héruðin og tengja þau við næstu hafnir, þannig að menn eigi hægara með alla aðflutninga en áður innanhéraðs, áður en vegir séu lagðir yfir óbyggðir. Meginhugsun þjóðvegalaganna er sú, að það liggi hringbraut um landið allt og út frá þeirri hringbraut liggi vegir til hafnarstaða, og sú till., sem við hv. 1. þm. S.-M. berum fram, gengur í þá átt að tengja þá einu höfn, sem er við Héraðsflóa, við hringbrautina. Þetta er að vísu ekki talin góð höfn, en hún getur staðið til bóta og nú á að gera þar lendingabætur á næsta sumri. Og hún er þó sú höfn, sem getur orðið þrautalendingin fyrir allt hið stóra Hérað, ef ótíð og snjókyngi hanna umferð yfir fjallgarðinn mikla, sem skilur héraðið frá góðum höfnum. Í nál. er sagt, að vegur þessi sé 40 km. langur, og er það sennilega rétt. Þar með er og sagt, að héraðið sé torfært yfirferðar og veglaust fyrir og verði vegurinn því dýr, en héraðið sé hinsvegar strjálbyggt. Það eru einmitt sumar af þessum ástæðum, sem mér virðast mæla með því, að vegur þessi verði tekinn upp í þjóðvegatölu. Hvar skyldi vera meiri þörf vegabóta en þar, sem veglaust er og torvelt umferðar? Vegasamband gæti og orðið til að lyfta undir velmegun þessa héraðshluta og veitt skilyrði til aukins þéttbýlis og kæmi þannig að margföldum notum.

Ég býst nú við, að það geti verið, að ekki tjái að deila um þetta mál vil hv. n., hún hafi meiri hl. fylgi með sinni till. En ég verð þó að benda á það, að þar sem vegur þessi má teljast svo nauðsynlegur og algerlega réttmætur að því leyti, að hann fellur algerlega inn í frumhugsun þjóðvegakerfisins, þá má búast við því, þótt hann nái ekki samþykki í þetta skipti, að jafnan á hverju þingi verði borin fram sú krafa, að hann verði tekinn í þjóðvegatölu, þangað til því fæst framgengt.