15.04.1930
Efri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2409 í B-deild Alþingistíðinda. (3223)

202. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Frsm. (Halldór Steinsson):

Já, það er nú langt orðið síðan byrjað var á hafnargerð fyrir Vestmannaeyjar, því það var 1914. Síðan hafa margoft komið fram bilanir og hefir miklu fé verið í þetta mannvirki varið. Þetta eru tveir garðar, annar að norðan, en hinn að sunnan mynnisins að höfninni. Nyrðri garðurinn hefir reynzt standa vel, en sama er ekki hægt að segja um syðri garðinn, sem hefir reynzt bila meira og minna á ári hverju. Síðast varð hann fyrir stórri skemmd í janúarmán. 1929. Var nokkuð unnið að endurbótum á síðastl. sumri, en varð þó ekki fullviðgert. Ógert er enn við helli, sem er undir austurbrún garðsins og sem þarf lagfæringar við, ef ekki eiga af að hljótast meiri bilanir og meiri kostnaður síðar.

Í þessu frv. er farið fram á 110 þús. kr. fjárveitingu úr ríkissjóði, og á að verja þeirri upphæð til þrennskonar aðgerða. Í fyrsta lagi á að gera viðbót við Básaskersbryggju, 60 X 60 m. Var síðastl. sumar byrjað á þessu verki og voru þá gerðir 70 metrar fram. En þetta kemur ekki að fullum notum við fermingar og affermingar stærri skipa, nema bætt sé við 60 metrum. Er þetta bráðnauðsynlegt bæði fyrir fiskiflotann og eins fyrir stærri skip. Skipin verða oft nú að bíða marga tíma eftir afgreiðslu. Þessi aðgerð er áætlað að kosti 235 þús. kr.

Þá er annað atriðið, hreinsun innsiglingarinnar. Innan við Hringskersgarðinn er malarrif, sem þrengir innsiglinguna. Auk þess berst grjót frá því út í höfnina. Þessi hreinsun er áætlað að kosti 20 þús. kr.

Þriðja aðgerðin er að ljúka viðgerð á Hringskersgarði, að því leyti sem því var ekki lokið síðastl. sumar. Er áætlað, að sú viðgerð kosti 25 þús. kr.

Allar þessar umbætur verða að teljast nauðsynlegar. Enda má gera ráð fyrir frekari kostnaði, ef ekki verður að þessu gert í tíma. — Ég vil ekki neita því, að mikið fé er búið að leggja í þetta mannvirki, eitthvað á 2. millj. kr. alls. En þegar þess er gætt, að hér er um einhverja mestu útgerðarstöð að ræða á landinu og að Vestmannaeyjar eru eign ríkissjóðs og tekjur þaðan hafa verið allverulegar síðastliðin ár, yfir ½ millj. kr. á ári, þá sýnist ekki vera um annað að gera en að ganga að þessu frv. Sá sjútvn. sér því ekki annað fært en að leggja það til við hv. deild, að frv. þetta verði samþ. óbreytt.