04.03.1930
Neðri deild: 43. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í D-deild Alþingistíðinda. (3321)

37. mál, björgunar- og eftirlitsskip við Vestmannaeyjar

Sigurður Eggerz:

Ég er ekki vanur að halda ræður hér á þingi nema stórmál sé á ferðinni, og ég verð að líta svo á, að þetta, sem hér liggur fyrir, sé stórt mál.

Ég verð að segja það, að ég álít till. hv. minni hl. allskostar ófullnægjandi, er hann leggur til, að málið verði rannsakað, en rannsókn er ekki nægjanleg, heldur er aðeins ein heppileg leið til lausnar þessa máls, og hún er sú, að skip sé haft við Eyjarnar, sem fullnægir að öllu leyti þörfum sjómannanna.

Mér virðist rétt að taka samninginn til athugunar, þótt sumir hv. þm. vilji gera lítið úr gildi hans, en þar stendur svo:

„Það er áskilið, að ríkið láti skipið framvegis, meðan það er vel til þess fært, halda uppi á kostnað ríkissjóðs samskonar björgunar- og eftirlitsstarfsemi við Vestmannaeyjar í 3½–4 mánuði (vetrarvertíðina) árlega, sem það hefir haft á hendi undanfarin ár, enda leggi bæjarsjóður Vestmannaeyjakaupstaðar árlega fram 15 þús. kr. til útgerðar skipsins, sbr. þál. 18. maí þ. á.

Nú stendur það að vísu, að Þór skuli annast björgunarstarfsemi við Eyjar meðan skipið sé vel til þess fært, en það er það vitanlega ekki þegar það er strandað. En þegar lesið er niður í kjölinn, þá er það auðsætt, að tilætlunin hefir verið sú, að skipið skyldi annast þennan starfa meðan það dygði, en ef engin ófyrirsjáanleg slys hefðu komið fyrir, þá hefði mátt gera ráð fyrir 15 árum. Þó ríkissjóður væri ef til vill laus eftir strangri bókstafsskýringu, þá getur Alþingi ekki notað sér af því. Mér finnst því ekki rétt viðhorf hv. frsm. minni hl., er hann fullyrðir, að Vestmannaeyingar geti ekki byggt kröfu sína á þessum samningi. Aðalatriðið er, að samningurinn gerir ráð fyrir, að gæzlunni skuli haldið áfram, og undan þessari skyldu getur Alþingi ekki skotizt, þó skipið hafi farizt.

Mér virðist það eðlileg krafa frá hv. þm. Vestm., að Alþingi nú viðurkenni þessa áframhaldandi skyldu.

Mér virðist tilhneigingin hjá hv. minni hl. vera sú, að víkja málinu frá sér og sneiða framhjá samningnum, en ég vil ekki trúa því, að hið háa Alþingi skilji svo við þetta mál, að Vestmannaeyingar fái ekki rétt sinn viðurkenndan. Vestmannaeyingar eiga þakkir skilið fyrir það, að hafa fyrstir hrundið af stað landhelgisgæzlunni og björgunarstarfinu, og það eitt, að þeir ráðast í þetta upp á eigin spýtur, ætti að nægja til þess að sanna, hvaða þörf þeir hafa fyrir slíkt skip.

Ég stóð hér ekki upp til að koma fram með neitt nýtt í þessu máli, en vildi aðeins leggja áherzlu á það, að Vestmannaeyingar gátu ekki lagt annan skilning inn í þennan samning en að landið hefði tekið við gæzlunni í a. m. k. 15 ár, gegn því árlega endurgjaldi, sem þeir áttu að greiða, og því eru þetta siðferðislega séð bein svik við þá, ef á að kippa þeim grundvelli burt, enda getur þingið alls ekki samþ. það.

Að endingu legg ég til, að sú eina till., sem að þessu miðar, verði samþ.