10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (3350)

363. mál, lækkun vaxta

Benedikt Sveinsson:

Ég get nú verið ánægður, eftir vonum, með þau andmæli, sem ræða mín hefir fengið.

Hv. þm. Mýr. féllst á höfuðröksemdir mínar viðvíkjandi þessu máli. En mér þótti hv. þm. gera of mikið úr völdum þeim, sem bankaráð og bankastj. hefðu til að ákveða vextina. Ég veit nú reyndar, að það er svo í raun og veru, en þess ber að gæta, að það er Alþingi, sem hefir fengið þeim þetta vald í hendur. Og ef þessi völd þrjóskast við sanngjörnum kröfum þings og stj., þá getur Alþ. sett aðra skipun um þessi mál.) Ætti því bankaráðið að fara að vilja Alþ. í þessu efni. Bankaráðið má vita það, að þó það um stund geti gaupnað um otursgjöld landsmanna, þá muni það ekki hafa leyfi til að liggja á þeim Fáfnisfeng um allar aldir. Þótt það hafi nú vald yfir þessu, þá er um það líkt og vald konungs, þar sem stjórnarfyrirkomulagið er þingbundin konungsstjórn. Þótt valdið sé að formi til hjá konungi, þá er það þó í raun og veru hjá hinum kjörnu oddvitum þjóðarinnar. Það vald, sem Alþingi hefir gefið bankaráðinu, stendur ekki lengur en léð er. Ef misbrestur verður á beitingu þess, þá getur Alþ. tekið valdið af því. — Þótt einhverjar plánetur í þessu stóra bankakerfi, sem mun fjölskipaðra en sólkerfið sjálft, þótt hinar nýfundnu plánetur séu meðtaldar, sjái ekkert nema hina gullnu bankasól, þá mega þeir vita það, að við, sem utan við stöndum, sjáum fleira. Og enda þótt þeir telji það sitt eina lögmál að snúast kringum bankasólina, þá þekkjum við annað þyngdarlögmál, sem er nógu sterkt til að slöngva þeim út úr þessu banka-sólkerfi. Þetta finnst mér bankaráðið gjarnan mega vita. Það er því með endemum, þegar hv. þm. Mýr. fer að ávíta hæstv. forsrh. fyrir það að taka vel í sanngjarna till. um lækkun vaxtanna. Þótt stj. standi í augnablikinu höllum fæti gagnvart bankanefnd og bankaráði, þá er þessa að gæta, að þessi tvöfaldi hringur um bankann er engin festing. Alþingi getur sópað honum burt þegar vill. Um lántökur landsins er það að segja, að stærstu fyrirhyggju þarf á því, hvenær lánin eru tekin. Hér þarf að vera ódýrt lánsfé, svo vextir geti orðið skaplegir. — En hvernig er farið að, þegar ríkið tekur lán? — Það er ekki verið að hugsa um, hve háir vextir eru í það og það skiptið. Það er bara rölt af stað, þegar þörf þykir á að taka lán, en lítt að, því hugað, hvort vextir eru 3½% eða 6% á heimsmarkaðnum það augnablikið.

Hv. þm. Mýr. fór að tala um, að bankarnir ættu ekki grænan eyri. — Það var nú nógu gott að fá þetta sagt svona alveg ákveðið. (BÁ: Hefir hv. þm. ekki lesið bankareikningana? Þar hefir þetta staðið ár eftir ár). Fyrst svo er, þá er að bera í bakkafullan lækinn að vera að taka þetta fram. Bankinn á þá í raun og veru hvorki hús né húsgögn. Jafnvel ekki pennastöng til að skrifa undir. Allt er í skuld. Það er því eðlilegt, að bankinn vilji fá háa vexti! — En því er nú ekki að heilsa, að bankarnir hafi tapað af því, að þeir hafi lánað gegn lágum vöxtum. Þvert á móti hafa hinir háu vextir leitt til tapa. Háu vextirnir hafa örvað bankana til útlána gegn vafasömum tryggingum, eins og háir vextir jafnan gera: Það er gróðavonin, sem glepur. Okurkarlinn, sem lánar gegn 20%, gerir það í von um gróða. En sá gróði bregzt oft, því að þeir, sem slík lán taka, hafa svo slæmar tryggingar, að meira og minna af lánunum tapast. Krafa um sterkar tryggingar er hemill á framlögum til vafasamra framkvæmda, en ekki háir vextir.

Vegna þess, hve atvinnuvegirnir eru mismunandi áhættumiklir, þá mun vera rétt að hafa vexti misháa. Um tryggingar þær, sem atvinnuvegirnir hafa að bjóða, er það að segja, að öryggi þeirra fer vitanlega mjög eftir því, hversu varlega er lánað gegn þeim. T. d. fara tryggingar í óveiddum fiski alveg eftir því, hve varlega er áætlað um afla, og eins hve hátt er lánað út á þann afla, sem áætlaður er.

Hv. þm. Mýr. sagði, að seðlabankar ættu að vera forsjón atvinnu- og peningalífs þjóðarinnar. Þetta má vel vera rétt. En vér höfum engan slíkan seðlabanka, sem ekki er um leið „spekulations“banki. Ég hélt því fram áður, að seðlabankinn ætti að vera sérstök stofnun og skipta eingöngu við aðra banka, en láta þá svo meta, hve mikið mætti lána í þetta eða hitt fyrirtæki.

Annars er þessi óttablandna lotning, sem menn bera fyrir bönkunum sem sérstökum verum eða „persónum“, harla einkennileg. Bankarnir eru vitanlega ekkert annað en verkfæri eða vélar, sem þjóðin sjálf hefir sett á stofn og lætur starfrækja sér til hagsbóta. Og þá starfrækslu á að framkvæma með hag þjóðarinnar allrar fyrir augum, en ekki að miða hana við það, að bankarnir safni fédyngjum. Bankarnir eiga hvorki að vera neinir ofurjötnar, sem sliga landsmenn, eða góðgerðastofnanir, er játi fé fyrir ekkert.

Bankarnir eiga, með gætilegum lánum og hóflegum vöxtum, að styðja framkvæmdir og atvinnu þjóðarinnar, en ekki verða neinir eiturormar, sem eingöngu leitast við að safna undir sig fé. Og hvort sem það tekst í þetta skipti eða ekki að fá þá til að fallast á sanngjarna lækkun vaxtanna, þá verður krafan tekin upp aftur og leidd fram til sigurs, ef nú er neitað.