16.04.1930
Sameinað þing: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í D-deild Alþingistíðinda. (3448)

538. mál, endurheimtun íslenskra handrita frá Danmörku

Fjm. (Benedikt Sveinsson):

Það er í samráði við hæstv. forsrh., sem ég hefi tekizt á hendur að flytja þetta mál. Einnig hefi ég talað við Pál Eggert Ólason prófessor, sem hefir kynnt sér málið rækilega, og mun ég hlíta leiðsögu hans um það.

Það er oss öllum kunnugt, að Íslendingar hafa jafnan verið mikil bókmennta- og fræðiþjóð. Frá því að Íslendingar lærðu að skrifa letur á 11. öld, hafa þeir verið sískrifandi allskonar fræði, sem jafnan hafa verið mikils metin bæði af Íslendingum sjálfum og öðrum þjóðum.

Þegar á 13. öld fóru íslenzkir höfðingjar að gefa erlendum höfðingjum söguhandrit eða afskriftir þeirra, en engu að síður voru fornritin vel varðveitt í landinu sjálfu fram eftir öldum. Þegar komið var fram á 17. öld, fóru Svíar og Danir að vakna til meðvitundar um það, að hér væri um auðugan garð að gresja, að því er snerti sögu þessara þjóða, og kepptust nú um að ná sem flestum handritum til að stæra sig af. Snemma á 17. öld fóru biskupar vorir og aðrir hérlendir fræðimenn að halda þeim til haga, og þá var farið að afrita þau á ný, einkum undir handleiðslu Brynjólfs biskups. Menn höfðu yfir höfuð geymt handritin vel; sum þeirra voru 400 ára gömul eða meir þegar þau voru endurrituð hér á 17. öld. Danakonungur fór að líta hornauga til bókanna. Það var mjög erfitt að gefa þær út hér; Brynjólfur biskup ætlaði að fá sér prentsmiðju, en einhverra hluta vegna var sundurþykkja á milli hans og Þorláks biskups á Hólum, sem þó var sjálfur fræðimaður, svo að ekki varð úr því, að Brynjólfur fengi prentsmiðju. Á elliárum sínum sendi hann Danakonungi mörg afardýrmæt handrit, í því trausti, að þau yrðu gefin út, enda hafði konungur sent hingað erindreka til að ná í þau og einmitt látið svo, sem til væri ætlazt að koma þeim á prent. Flateyjarbók komst um þetta leyti í hendur Danakonungs og ennfremur Konungsbók, Sæmundaredda, Snorraedda og hin stórmerku handrit þjóðveldislaga vorra, auk margs annars. Þessar bækur voru allar gefnar konungi og margar fleiri, sem ég þarf ekki upp að telja, því að ég ætla ekki að gefa stj. neina sundurliðaða skrá yfir þær bækur, sem heimta skuli, en nefni aðeins einstök dæmi.

Meðal þeirra manna, sem þótti nóg um þennan bókaflutning úr landi, má nefna Jón biskup Árnason í Skálholti og síðar Steingrím biskup Jónsson, sem vildi gera alvarlega ráðstöfun til að heimta bækur, sem ranglega voru komnar í safn Árna Magnússonar, en tilheyrðu biskupsstólunum og brýna skyldu bar til að skila. Þessar bækur vantaði tilfinnanlega við biskupsstólana. Merkust handritasöfn voru fyrrum við biskupsstólana og klaustrin, sem sanna má af fornum ritum og ýmsum órækum skilríkjum. Vafalaust hafa verið við öll klaustrin meira eða minna stórmerkileg bókasöfn, og ekki síður við biskupsstólana, bæði ýmsar fornsögur og önnur fornrit og fjöldi af allskonar bréfum, og svo gerðabækur, bréfabækur biskupa, máldagabækur og ýmislegt þesskonar. Við þetta bættust síðar jarðabækur, dómabækur, alþingisbækur og ýmsar opinberar bækur, sem tilheyra ísl. stofnunum. Auk þessa var fjöldi af bókum, sem höfðingjar létu skrifa sér til handa og ýmsir áttu.

Það er kunnugt, að sumar ættir lögðu mjög mikla stund á ritstörf. Má þar til nefna að fornu Oddverja, Haukdæli, Sturlunga og ennfremur Skarðverja, sem urðu kynsælastir þeirra ætta gegnum margar aldir. En á seinni tímum var Svalbarðsætt einna merkilegust fyrir þá rækt, er hún lagði við bókmenntir vorar, einkum sá afspringur hennar, er staðfestist á Vestfjörðum. Létu þeir frændur, afkomendur Magnúsar prúða, rita margar bækur og merkilegar.

En mestu af þessu öllu saman hefir verið sópað burt. Dr. Páll Eggert hefir gert grein fyrir því, að bækur hafi flutzt úr landi einkanlega á þrennan veg: með sölu, gjöfum og lánum. Öll stund var lögð á að fá bækur fyrir lítið verð eða ekkert; en hitt var verra, að menn seldu bækur, sem þeir áttu ekki, bækur, sem voru fengnar frá almennum þjóðstofnunum að láni. Gripdeildamenn og vanskilamenn seldu á báðar hendur bækur, sem þeir áttu alls engin umráð yfir; það köllum vér kaupfox að fornum lögum, og mega slík kaup ekki haldast. Um gjafir er annað mál. Það verður ekki endurheimt, sem gefið er af réttum eiganda einstökum mönnum. En gjafir, sem gefnar eru konungi, eru allt annars eðlis. Konungur neytti valds síns, sem æðsti valdsmaður Íslands, til þess að láta senda til sín fornrit, með því fororði, sem sannanlegt er, að ritin yrðu gefin út. Fyrir þessar fortölur létu ágætir varðveizlumenn fornrita, svo sem Brynjólfur biskup, til leiðast að senda konungi dýrmæt handrit í fullu trausti þess, að þau yrðu prentuð. En á því urðu engar efndir.

Þar sem íslenzkir menn sendu konungi sínum þessi rit, þá var eðlilegt, að hann geymdi þau í söfnum sínum í Khöfn, eftir því sem allir staðhættir voru í þá daga. En nú horfir allt annan veg við. Nú er greiðfærara milli landanna, og má kalla, að konungur vor sé hér með annan fótinn. Er því viðeigandi, þegar frá því sjónarmiði, að konungur geymi nú íslenzka dýrgripi, sem tilheyra honum sem konungi hins íslenzka ríkis, og því heyra til hinni íslenzku þjóð, í bókhlöðu á Íslandi, — og teljum vér þetta eitt rétt, eðlilegt og sjálfsagt.

Það var Friðrik konungur III, er mest kapp lagði á að safna bókum héðan, og sendi hann erindreka sína hingað í þessu skyni. En þótt hann hlyti þá að geyma ritin í Danmörku, eins og áður var sagt, þá er nú annað uppi á teningnum, því að nú eiga Íslendingar sjálfir háskóla, sem beint þarfnast ritanna, og einnig eru hér góðar bókhlöður til þess að geyma þau.

Það hefir verið svo um ýmislegt annað, sem konungi hefir verið fengið í hendur, t. d. réttindi þau, sem hann tók af þegnum sínum í Danmörku, Íslandi og hertogadæmunum á tímabili einveldisins. Konungur lét þau réttindi hverfa aftur í hendur hvers þjóðlands, sem hafði látið þau í hendur honum. Alveg eins er um eignir, sem konungur hefir hlotið frá hverju þjóðlandi, að þær eiga þar heima, sem hann hefir hlotnazt þær, en eitt ríkið getur alls eigi eignazt það, sem hinu ríkinu ber, nema löglegir samningar séu um það gerðir, en svo hefir ekki verið um þessi efni. Hér er því fram borin fullkomlega réttmæt krafa. Vér viljum ekki á neinn hátt ásælast það, sem aðrir eiga, en krefjumst einungis þess, sem Ísland á tilkall til. En það kalla ég, að Ísland eigi tilkall til þeirra bóka, sem eru hugsaðar og samdar af hérlendum mönnum, skrifaðar á Íslandi og varðveittar á Íslandi lengur eða skemur. Íslenzkur er uppruni þeirra að öllu leyti.

Kristján 5. sendi hingað árið 1681 nokkurskonar konunglegan fornfræðing, Hannes Þorleifsson, son Þorleifs lögmanns Kortssonar. Safnaði hann handritum og hefir vafalaust orðið vel ágengt. Því að á ofanverðri 17. öld höfðu Íslendingar gert glöggar og greiðar afskriftir af mörgum hinum torlesnu skinnbókum, og hirtu þá ekki svo vel um skinnbækurnar sem skyldi, a. m. k. ekki alþýða manna. Var því greiðara fyrir handritasafnendur konungs og aðra að fá þær afhentar. Hannes hefir því vafalaust náð miklu, því að hann dvaldist hér svo árum skipti og fór víða. En svo illa tókst til, að hann fórst á útleið með allar bækurnar. Veit enginn, hve mikið safn það var. En vissa er fyrir, að ýmsar merkar bækur voru til í landinu um miðja 17. öld, sem aldrei hafa komið fram síðan. Er ekkert líkara en margar þær bækur og fjöldi annara en nú fara sögur af, hafi farizt í þessum leiðangrum, sem stofnað var til af konungi. Voru bækur sem annað fluttar á misjöfnum farkostum landa milli og sættu því oft skemmdum eða fullkominni tortíming.

Dr. Páll Eggert tekur fram, að menn hafi orðið fúsari að láta bækurnar af hendi eftir að konungur hafði gefið það konunglega loforð að láta prenta þær. En þar sem það var ekki efnt og vanhöld hafa orðið á bókunum, þá er því meiri siðferðislegur réttur Íslands að fá þær leifar, sem varðveitzt hafa og geymdar eru í dönskum söfnum.

Þá hefir margt handrita farið út úr landinu í lánum. Hér var stórtækastur hinn frægi vísindamaður Árni Magnússon. Hann var kominn langfeðgum að telja af Guðmundi ríka á Reykjahólum, sem uppi var á öndverðri 15. öld og var auðmaður svo mikill, að hann átti mestan hluta Vestfjarða, sem kunnugt er. Var Árni ósvikinn Íslendingur bæði að ætt og eðli. Hann var skarpvitur maður á öll forn fræði, las allra manna bezt handrit og kunni manna bezt að fara með bækur. Lagði hann feikna mikla stund á að safna hverskonar handritum, prentuðum og óprentuðum. Sópaði hann t. d. alþingisbókum héðan svo vendilega, öllum eintökum, er hann náði til, að nú eru eyður í safn þetta síðan, því að hans ágæta safna brann, sem kunnugt er, 1728.

Ég sagði, að Árni hefði verið mjög ákafur að safna bókum. Og hann hafði ágæta aðstöðu til þess, þar sem hann var á ferð um allt Ísland í 12 sumur við jarðabókarstarfið. Hann spurði hvarvetna uppi handrit og bækur og fékk ógrynni af þeim léðar, einnig mikinn fjölda af bréfum, einkum frá stólunum í Skálholti og á Hólum og einnig frá fógetunum á Bersastöðum. Hann skrifaði „sk“ (þ. e. „skilist“) á sumt það, sem hann fékk léð og ætlaði að skila aftur. En það er svo um menn, sem eru bókelskir, að þeir eru stundum seinir að láta af hendi bækur, sem þeim eru léðar. Og Árni var ekki eins mikill framkvæmdaskörungur að skila bókunum sem að afla þeirra.

Urðu þær því margar innliggsa hjá honum. Um þetta hefir dr. Jón Þorkelsson þjóðbókavörður gefið glögga skýrslu í riti, sem hann gaf út að tilhlutan stjórnarinnar vegna þáltill., sem Hannes Þorsteinsson bar fram á þingi 1907 um endurheimt íslenzkra skjala. Krafa sú var ánýjuð með þáltill. 1924, er hæstv. núverandi forsrh. flutti þá ásamt þm. N.Þ. Nú er margt af þessum skjölum komið hingað til Íslands, og má þakkir gjalda fyrir það, að þau hafa verið leyst úr læðingi. Það voru ýmisleg bréf, mest forn eign Hólastóls, og eitthvað af embættisbókum, en þó er mestur hluti þesskonar bóka ennþá óheimtur úr safni Árna.

Nú er enginn vafi á því, að Íslendingar eiga fullan rétt til að fá allar bækur, sem Árni fékk léðar héðan. En svo er einnig á það að líta, að þótt Árni væri búsettur í Kaupmannahöfn, þá skiptir það ekki svo miklu máli frá því sjónarmiði, að bækurnar geti verið íslenzk eign fyrir því. Ég held því fast fram, að safn Árna Magnússonar sé íslenzk stofnun, þó að það hafi verið og sé geymt í Kaupmannahöfn. Árni Magnússon var alíslenzkur maður; handritasafn hans mestallt er frá Íslandi, ritað af Íslendingum, safnað af Íslendingum, og það eru Íslendingar, sem að mestu hafa varðveitt það og notað í Kaupmannahöfn. Að vísu er sagt, að Árni hafi á dánardægri sínu gefið þetta safn háskólanum danska, með gjafabréfi, sem reyndar er talið nokkuð tortryggilegt, en ég skal ekki segja margt um það. Dr. Páll Eggert segir, að erfðaskrá hans á deyjanda degi sé marklítil í þessu efni. Sama segir dr. Jón Þorkelsson. Manni dettur í hug þjóðsagan um prestinn, sem laut niður að dánarbeði gömlu konunnar og sagði: „Gaf hún enn, guðsbarnið, — Haukadalinn með öllum hjáleigunum, og skrifaðu, djákni!“.

En hvað sem þessu líður, og hversu mikill safnari sem Árni var, þá hefir hjá engum öðrum manni farizt meira en hjá. honum af íslenzkum handritum. Víst verður Arna ekki gefin bein sök á þessu, því að hann var hinn mesti hirðumaður um bækur og hinn þjóðlegasti maður. Og ekki var það af lítilsvirðingu fyrir hinni íslenzku þjóð, að Árni flutti bækurnar til Danmerkur, heldur af því, að hann átti þar heima. Jarðabækur hans bera glögglega með sér, hvernig hann leit á Bersastaðavaldið, og sömuleiðis minnisgreinir hans ýmsar, sem enn eru til.

Um bókaskaða Árna segir dr. Páll Eggert, með leyfi hæstv. forseta:

„Vér vitum, hversu Árna varð við tjónið í safni hans. Það er ekki líklegt, að tjónið eitt hafi sturlað hann og stytt ævidaga hans. Það er ekki fjarri lagi að ætla um jafnviðkvæman mann og samvizkusaman, að hvarflað kunni að hafa í huga hans, að samfara frægðarorði um dæmafáa söfnunarhæfileika myndi loða við nafn sitt nokkurt ógæfuorð, er jafndýrmæt eign var dregin frá fósturjörðu hans til eldsneytis í öðru landi, þó að enginn verði beint um sakaður“.

Það er tekið hér fram, að ekki sé hægt að fá neina fullnaðarskýrslu um það, hve mikið hafi farizt. En það vill svo til, að geymzt hafa vitnisburðir tveggja samtímamanna Árna, Finns Jónssonar biskups í Skálholti og Jóns Grunnvíkings Ólafssonar. Voru þeir báðir viðstaddir brunann og hjálpuðu Árna að bjarga, þangað til ekki var lengur vært fyrir eldi og reyk. Og biskupinn segir hátíðlega; að vart hafi einum þriðjungi safnsins verið bjargað. Líklega hefir hann átt við prentaðar bækur, því að Grunnavíkur-Jón segir, að af handritum hafi ekki bjargazt yfir helmingur. Af þessu má marka, hvílíkt feikna tjón Íslendingar hafa beðið við það skarð, sem brennt var í bókmenntaforða landsins í safni Árna Magnússonar. Ég hefi áður bent á, hve stórmikið hafi glatazt við flutning íslenzkra fornrita til Danmerkur. Og þetta verður nú ekki bætt með öðru móti en því, að allt Árnasafn, sem eftir er, verði flutt heim til Íslands og geymt hér, og ennfremur, að allar íslenzkar bókagersemar konungs verði geymdar hér á landi sem eign íslenzka konungsins og íslenzku þjóðarinnar.

Það hafa sumir viljað bera í bætifláka fyrir brottflutning íslenzkra rita til útlanda með því, að Íslendingar hafi ekki hirt sín rit sjálfir. En þetta er ekki veigamikil ástæða. Að vísu er það svo, að margt hefir farizt af bókum hér á landi, sumt af trassaskap, en sumt af slæmum húsakynnum eða af slysum. En eins og ég tók fram, þá finnst mér þeir hafi mestan réttinn til þessara eigna, sem hugsuðu, rituðu, endurrituðu og geymdu ritin í föðurlandi sínu og á sínu eigin máli, enda þótt konungur hafi hrifsað þær með einhverjum tökum og flutt til útlendrar þjóðar, sem ekki skilur nokkurt orð í þessum bókmenntum, nema með hjálp Íslendinga sjálfra. Og ég vil benda á það sem merki þess, hvort Íslendingar hafi verið svo miklir amlóðar um varðveizlu bóka sinna, að elzta handrit, sem enn er til á íslenzka tungu, er geymt óskemmt og vel varðveitt hér í íslenzku þjóðbókasafni, en það er Reykjaholtsmáldagi, sem er frá því um 1180. Hann var fyrst lengi geymdur í Reykjaholti og síðar í Skálholti. Sýnir þetta, að Íslendingar voru nokkuð geymnir á bækur og handrit. Ég skal nefna rétt sem dæmi, að eftir síðustu aldamót fékk Jón Þorkelsson eitt skinnblað úr Ólafs sögu Haraldssonar austan úr Vopnafirði. Þar var á hin nafnkunna landvarnarræða Einars Þveræings. Mætti ef til vill segja, að „hulinn verndarkraftur“ hefði hlíft þessu blaði, eins og skáldið segir um Gunnarshólma; en slíkt sem þetta sýnir, að Íslendingar voru ekki svo mjög hirðulausir. Og annað vil ég segja: Margar bækur, sem tekin voru pappírshandrit af hér á landi á 17. öld, voru þá orðnar æfa gamlar. Það er t. d. líklegt, að handritið, sem Jón prestur Erlendsson í Villingaholti afritaði fyrir Brynjólf biskup af Íslendingabók Ara fróða, hafi verið afargamalt þá, sennilega frá því um 1200, og því varðveitzt hér hátt á 5. hundrað ára. Mörg handrit eru enn til frá 13. öld, og hafa slík handrit verið geymd hér á landi kringum 400 ár.

Þær bækur, sem fórust hjá Árna, voru ekki svo mjög fornsögur. Þó brann þar brot af Heiðarvígasögu, sem var léð frá Svíþjóð á 12 blöðum, en Jón Grunnvíkingur skrifaði eftir minni, því að hann hafði tekið afskrift að blöðunum fyrir Árna, en hvorttveggja brann, afskriftin og skinnblöðin. Annars varð mestur skaðinn í bókum síðari alda, sem brunnu hjá Árna. Það voru dómabækur, bréfabækur, máldagar, skjalabækur og ógrynni fágætra bóka á prenti, sem síðan eru hvergi til sumar.

Um það er nú að ræða, hvernig helzt megi bæta Íslandi þann skaða, er þarna varð. Hið eina úrræði er það, að Íslendingar fái heim allar íslenzkar bækur Árna. Því að það, sem hann átti sjálfur, er ekki meira en til þess að greiða upp í það, sem tapaðist hjá Árna af opinberum bókum, sem hann hafði fengið léðar og bar skylda til að skila. Með þessari kröfu er ekki verið að ásælast neitt, sem annari þjóð ber réttur til eða samið er af öðrum en Íslendingum, og því ekki verið að ganga á annara rétt. Íslendingar hafa léð Dönum þessara bóka í 200–300 ár. Þeir hafa haft ærinn frama af þeirri geymslu. Á það verður jafnframt að líta, að Árni ætlaðist til, að tveir Íslendingar yrðu fastir starfsmenn við safnið, og hafði gert svo ráð fyrir. Nú trúi ég sé þar einn. Þetta telur dr. Halldór Hermannsson vanefndir á fyrimælum Árna. Hefir dr. Halldór ritað merkilega ritgerð í Skírni síðastl. ár, sem ég vildi biðja hv. þm. að kynna sér. Það eru Íslendingar, sem í raun og veru hafa varðveitt safnið að mestu leyti síðan Árni féll frá. Þeir hafa að mestu leyti rannsakað safnið og skrásett og verið starfsmenn að fornritaútgáfunum, þótt stundum hafi öðrum verið eignað. Af dönskum vísindamönnum koma varla aðrir til greina í þessu efni heldur en þeir Rask og Rafn á fyrra hlut 19. aldar, og á síðustu áratugum var þar ágætur bókavörður, dr. Kr. Kaalund. Gaf hann út merkilega handritaskrá yfir safn Árna, sem er tvö þykk bindi í stóru broti, og ennfr. samskonar skrá yfir ísl. bækur og norrænar, sem eru í konungsbókhlöðunni og öðrum söfnum í Khöfn. En megin allra upplýsinga um bækurnar mun tekið úr handritum Jóns Sigurðssonar, því að hann hafði áður samið skilmerkilega skrá yfir Árnasafn, sem má sjá af fyrsta bindi æfisögu hans, er dr. Páll Eggert hefir ritað.

Það er því svo, að Íslendingar hafa lagt grundvöll að öllum fornritaútgáfum og séð um þær meira eða minna. Mikilvirkastur manna á síðustu áratugum er dr. Finnur Jónsson, enda liggur eftir hann geysimikið starf. Íslendingar hafa yfirleitt lesið handritin og búið þau í hendur annara þjóða mönnum, og þess vegna hafa þeir heiðurinn af því, að þessar bókmenntir hafa komið að notum. Það sýnist því, að ef Íslendingar hefðu ekki lagt hönd á þetta verk, þá hefði bókasafnið orðið rusladyngja, sem hefði fúnað niður.

Nú eru nýjar röksemdir og nýjar ástæður fram komnar fyrir því að heimta handrit vor heim aftur, þar sem stofnaður hefir verið háskóli í landinu. Þarf hann að eflast sem mest, því að Háskóli Íslands hefir stærra og meira hlutverk að inna af hendi en að sjá embættismannaefnum fyrir fræðslu. Honum er fyrst og fremst ætlað það hlutverk að varðveita hinn dýrmæta arf forfeðranna, þar sem er tunga vor, bókmenntir og mannvit. Verður það hvergi betur gert en hér, þar sem tungan hefir haldizt óslitin fram á þennan dag, því að íslenzkar bókmenntir verða hvorki réttilega skildar né skýrðar, nema í ljósi íslenzkrar náttúru og íslenzks þjóðlífs.

Nú á síðari árum er hin enska þjóð mjög farin að virða íslenzk fræði. Hefir verið stofnaður kennarastóll í þeim vísindum við enskan háskóla. Og eins og kunnugt er hafa Þjóðverjar lagt stund á þessi fræði allra erlendra þjóða mest. Þykjast þeir þar finna grundvöll til skilnings á sögu sinni og þjóðareinkennum. En í vegi þeirra erlendra þjóða, sem stund vilja leggja á íslenzk fræði, er einn þröskuldur — fallandaforað, ef svo má segja. Íslenzk fornrit eru gefin út í Kaupmannahöfn, með dönskum formála og dönskum skýringum. Verða því þeir útlendingar, utan Norðurlanda, sem skilja vilja íslenzkuna, fyrst að læra dönsku. Mega menn skilja það, að Englendingum og Þjóðverjum muni þykja alltorsótt að þurfa fyrst að læra dönsku, til þess síðar að geta skilið íslenzk fornrit. Sjá menn, hvílíkur hagur þeim væri að fá þetta milliliðalaust á málinu sjálfu, en slíkt verður hvergi gert til hlítar, nema á Íslandi. Er það því lífsnauðsyn háskóla vorum að hafa þessi hin þjóðlegu gögn við höndina, svo að hann megi verða undirstaðan að norrænum vísindum í heiminum. Yrði þeim menningarþjóðum, sem leggja stund á germönsk fræði, því hinn mesti greiði ger, ef íslenzkum handritum væri komið hingað, þar sem umhverfið er íslenzkt eins og þau sjálf eru. Er erlendum þjóðum það eðlilega þyrnir í augum að þurfa á millitungu að halda til þess að mega stunda fræði vor.

Ég held, að ég hafi þá gert næga grein fyrir því, hvað fyrir oss vakir, hinum mörgu flm. þessarar till. Vér eru 15 saman — og hefði sjálfsagt verið hægt að fá 42, ef í það hefði farið.

Þessi framsaga mín átti heldur ekki að vera vísindalegur fyrirlestur, enda er ég ekki til slíks fær, heldur vildi ég aðeins drepa á höfuðatriðin og marka þá stefnu, sem ég vil, að fram verði haldið í þessu máli.

Hæstv. forsrh. lagði áherzlu á það 1924, að íslenzk fornrit væru að því leyti verr geymd í Kaupmannahöfn en hér heima, þar sem meiri er ófriðarhætta þar en hér. Dýrmæt söfn eru þar í stórhættu á ófriðartímum. Er þetta mjög takandi til greina.

Af þessum ástæðum, sem ég nú hefi dregið fram, þykir mér ekki of langt farið, heldur mátulega, ef öllu er til skila haldið, því sem hér er farið fram á. En ekki viljum vér ásælast andlega fjársjóðu, sem aðrir hafa framleitt og eiga geymda í sínum vörzlum. Teljum sjálfsagt, að hver þjóð varðveiti fyrst og fremst sín handrit, enda koma þau þar bezt að notum.

Dr. Páll Eggert getur þess í áðurnefndum bæklingi sínum, að hann hafi séð það haft eftir dönskum þm., að Dönum myndi hið mesta heillaráð að fresta að skila aftur handritum vorum, þar til eftir 1940, því að þá myndi hægara að semja um stjórnmálin við oss Íslendinga.

Þetta mál kemur að sjálfsögðu stjórnmálum ekkert við, en það mættu Danir vita, að heldur vildum vér eiga fornrit vor áfram ytra en að selja landsréttindi vor.

Í fullu trausti til hæstv. forsrh., sem hefir hinar mestu mætur á íslenzkum fræðum, beini ég þessari till. til hans, í þeirri von, að með hans góða vilja og atfylgi mætti vel ágengt verða í þessu máli.