13.02.1930
Neðri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Sigurður Eggerz:

Ég ætla ekki á neinn hátt að fara að gera Íslandsbanka að umtalsefni. Örðugleikarnir, sem af því máli leiðir, munu tala nógu skýru máli. Ég stend upp til þess að árétta fyrirspurn mína til stj. um, hvaða tilraunir hefðu verið gerðar til þess að útvega landinu fast lán, og hvaða kjör hafi verið í boði. Því var fleygt, að hægt hefði verið að fá lán með 6% „effektivum“ vöxtum. Er það rétt?

Þar sem stj. hefir ákveðið að taka lán, og ákveðið er þegar að byggja á því landbúnaðarbanka, sem er nú að nokkru leyti byrjaður, og ýms önnur fyrirtæki til langs tíma, þá skiptir mjög miklu fyrir þingið að fá vitneskju um, hvað hafi verið gert í þessari lántöku, ekki sízt þegar nú er unnið með rándýru bráðabirgðaláni, sem hægt mun að segja upp með litlum fyrirvara.

Annarsstaðar á Norðurlöndum hefir gengið vel að fá lán. Danmörk hefir tekið mjög ódýrt lán. En ég býst varla við, að við fengjum lán með sömu kjörum. Það kann að fara nokkuð eftir því, hvernig fer um málið, sem hér hefir verið rætt dagana á undan og ekki er enn lokið (Íslandsbanka).

Ég ítreka spurningar mínar til hæstv. fjmrh. um það, hvort hægt hafi verið að fá lán og með hvaða kjörum. Þm. eiga kröfu til að fá þessum spurningum svarað.