17.04.1930
Neðri deild: 85. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í D-deild Alþingistíðinda. (3568)

440. mál, styrkur samkvæmt jarðræktarlögunum

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég verð að segja, að mér finnst það fremur óviðkunnanlegt, að jafnþýðingarmikið mál og þetta skuli ekki vera borið fram fyrr á þinginu, sem nú er þó búið að standa svo lengi yfir. Það er ekki borið fram fyrr en núna 8. apríl. (MG: Það er borið fram vegna fjölda áskorana, sem nýlega hafa komið).

Út af ræðu hv. þm. Borgf. vil ég taka það fram, að við urðum að líta svo á, að till. Magnúsar Þorlákssonar á Blikastöðum, sem hann lagði svo mikið kapp á að koma fram, væru innblásnar af þeim flokki, sem valdi hann í Búnaðarfélagsstjórnina af sinni hálfu. Okkur fannst verða að taka nokkurt tillit til till., sem fulltrúi annars stærsta stjórnmálaflokks landsins í Búnaðarfélagsstj. berst fyrir. Og ekki sízt þegar það er mjög virðingarverður maður í sínu starfi, sem hefir mikla reynslu, er að haldi má koma, þegar meta skal, hvað leggja á í jarðabótadagsverk. Hann hefir meiri þekkingu á því atriði en ég.

Sigurður Sigurðsson og Pálmi Einarsson voru ekki sammála Magnúsi Þorlákssyni um þetta efni. Og meiri hluti Búnaðarfélagsstj. fór svo bil beggja, tók bæði tillit til till. Magnúsar og mats Sigurðar og Pálma, en fór ekki nærri því eins hátt með mat dagsverksins og M. Þ. vildi.

Nú lítur svo út; á yfirborðinu a. m. k., sem sumir hv. íhaldsmenn séu ekki sammála þeim skoðunum, sem fulltrúi þeirra í stjórn Búnaðarfél. Ísl. bar fram. (JS: Hæstv. forsrh. fer ekki æfinlega eftir stjórnmálaskoðunum okkar). Ég þorði ekki annað, landbúnaðarins vegna, en að taka nokkurt tillit til þess, sem ég hugði vera beinar till. íhaldsmanna. Mér dylst það ekki að það getur komið fyrir, að Íhaldsflokkurinn fái einhverntíma meira vald í þinginu en hann hefir nú, og hugsanlegt var, að hann fengi e. t. v. styrk úr öðrum herbúðum til að koma jarðabótastyrknum fyrir kattarnef, ef hann þætti ótæklega hár. (MG: Ég hugsa, að það verðum aldrei við, sem ráðumst á jarðabótastyrkinn). Jú, það mætti búast við, að það yrði fyrsta verk flokksins, ef svo ógiftusamlega tækist til, að hann fengi völdin aftur. Flokksins, sem hefir innan sinna vébanda þá menn, sem sýnt hafa flestum umbótamálum bænda fullan fjandskap á umliðnum árum, þegar þeir hafa séð sér það fært, og sem leitazt hafa við að rífa niður þær framfarir, sem Framsóknarflokkurinn hefir barizt fyrir. (Raddir: Þetta er algerlega ósatt!).