13.02.1930
Neðri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1151 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. 2. þm. G.-K. tók sér fyrir hendur að hjálpa samherja sínum, hv 1. þm. Skagf., og verja gerðir hans viðvíkjandi tolltekjum ríkisins 1921.

Út af þeim tveim skjölum, sem ég lagði hér fram — en það var sjálfur samningurinn um enska lánið, ásamt aðalskuldabréfinu — greip hann til þess, til að verja málstað hv. 1. þm. Skagf., að gera þýðingarnar á skjölunum tortryggilegar, af því að þær væru ekki gerðar báðar af hinum löggilta skjalaþýðara, heldur væri önnur þýðingin gerð af lögfræðingi, og þar væru stóryrðin — þar væri talað um veðsetninguna.

Ég hefi nú látið sækja frumritið, sjálft skuldabréfið, og þar eru skilmálarnir prentaðir bæði á íslenzku og ensku, og undirritaðir með eigin hendi Sveins Björnssonar, sem var sá maður, sem lánið tók fyrir hönd stj.

Hér er frumritið. Hér eru stóryrðin nákvæmlega eins og ég hefi áður lesið þau upp. Það var heppilegt, að hv. 2. þm. G.-K. skyldi nota þetta orð — stóryrði — um það, þegar hv. 1. þm. Skagf. var að veðsetja tolltekjur ísl. ríkisins. (MJ: Ekki skilja ensku kreditorarnir íslenzku). Vill hv. 1. þm. Reykv. drótta því að Sveini Björnssyni, að hann hafi falsað þýðinguna? Annars sjá fleiri en Íslendingar þetta plagg. Það er dreift út um allan heim — sem talandi vitni þess, að hv. 1. þm. Skagf. veðsetti tolltekjur íslenzka ríkisins.