14.04.1930
Neðri deild: 81. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í D-deild Alþingistíðinda. (3631)

519. mál, kaup á sauðnautum

Benedikt Sveinsson:

Mér þótti vænt um það, að hv. landbn. skyldi bera fram þessa till., og vil þakka hv. frsm. fyrir skörulega framsögu málsins. Það verður ekki annað sagt en að þessi för á síðasta sumri hafði tekizt mjög vel að því leyti, sem förina sjálfa snerti. Hún var með mesta skörungsskap stofnuð og framkvæmd og tókst öll mjög giftusamlega. Að vísu var það ekki þeim norsku mönnum að kenna, að dýrin drápust, þegar komið var til Íslands, og engum manni, nema þá þeim, sem við tóku og segja má, að ekki hafi kunnað að fara með þau eins og þurfti. En þess var lítil von, þar sem enginn hafði áður kynnzt lífsháttum þessara dýra, né þekkti hættur þær, er yfir þeim gætu vofað.

Að vísu hafði Vilhjálmur Stefánsson skrifað hingað viðvaranir nokkrar og reglur til að fara eftir um meðferð sauðnautanna, en ég hygg, að þær hafi ekki borizt hingað fyrr en um seinan. Nú höfum vér fengið nokkra reynslu í þessu efni og stöndum því betur að vígi. Það væri vesalmannlegt, ef Íslendingar legðu nú árar í bát og létu að engu verða þá tilraun, sem gerð var í sumar. Því er nauðsyn að reyna nú að afla fleiri dýra. Það mun vera rétt að athuga tilboð það, sem borizt hefir frá dönsku nýlendustjórninni á Grænlandi, einkum sakir þess, að það kemur fyrir meðalgöngu Sigurðar Sigurðssonar búnaðarmálastjóra. Er hann hinn mesti vinur Danastjórnar á Grænlandi af íslenzkum mönnum. Hefir hann dvalizt þar um hríð á hennar vegum og mjög dregið hennar taum í frásögn sinni allri. Er því enginn landa vorra líklegri til að afla góðra kjara en hann hjá hinni góðfrægu Grænlandsstjórn. (JAJ: Illræmdu væri réttara!). — Jæja, hjá þeirri stjórn, sem er á Grænlandi, að hverju sem hún er frægust. Annars er ekki því að leyna, að mér þykir þetta tilboð nokkuð óákveðið, þótt það líti fallega út að fá dýrin við kostnaðarverði. Ég veit ekki, hversu Danir mundu reikna sér kostnað af þessari för, og er illt að átta sig á því fyrirfram, hvað kosta mundi að fara alla leið frá Angmagsalík norður í Franz Jósefsfjörð, eða hvert annað, sem sauðnautin væri að hitta. Þrátt fyrir þetta er sjálfsagt að athuga tilboðið og taka því, ef mönnum sýndist það mundu verða aðgengilegt. — En þess er vert að minnast, að unnt mun vera að fá dýr úr fleirum áttum en þessari einni. Norðmenn fara á hverju sumri norður með Grænlandi og taka þar nokkuð af sauðnautum, sem þeir hafa síðan á boðstólum. Síðastl. sumar veit ég um, að þeir náðu 26 dýrum. Voru sum veturgömul, en sumt sumrungar. Með þessi dýr var farið norður til Svalbarða, til þess að koma þar upp sauðnautastofni. Verð þeirra dýra, er Norðmenn hafa haft til sölu, hefir ekki verið sérlega hátt, og væri engin frágangssök að kaupa af þeim 3 eða 4 dýr. A. m. k. vil ég benda hæstv. stjórn á að leita tilboða frá þeim, áður en þeir afla sér dýranna úr annari átt með óákveðnu verði.