16.04.1930
Efri deild: 81. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í D-deild Alþingistíðinda. (3671)

231. mál, húsrúm fyrir listaverk landsins

Fyrirspyrjandi (Ingibjörg H. Bjarnason):

Mér finnst, að í ræðu hæstv. dómsmrh. hafi ekki verið svar við spurningum mínum, nema að litlu leyti, og þá ekki á þann hátt, sem ég bjóst við. Ég gat þess, að þetta ætti ekki að taka til nokkurs manns frekar en hæstv. ráðh., þar sem hann var upphafsmaður þeirra laga, sem gerðu fært að kaupa listaverk að nokkru ráði.

Hæstv. ráðh. hefir ekki skilið fyrirspurn mína alveg rétt. Með henni er ég ekki að fara fram á, að byggt verði nú á næstunni. En í henni felst hið sama sem í þáltill. minni í fyrra, að sem fyrst beri að gera einhvern undirbúning að uppdráttum o. fl. að fyrirhuguðu listasafni sem hluta af safnahússbyggingu yfir fleiri söfn. Mér kom ekki til hugar, að nú þegar væri unnt að ráðast í að byggja, nema ef kleift væri að byggja fyrst lítinn hluta úr húsi, sem síðar yrði almennt safnahús. Það virðist ekki óframkvæmanlegt nú á tímum, þegar menn sjá skóla rísa sem hallir, án þess að ráð sé gert fyrir, að af því stafi neinar drápsklyfjar. Ég vil undirstrika, að ágætt er að tryggja sér listaverk, svo að þau fari ekki úr landi eða glatist, en þau eru dauðir hlutir, ef þau eru ekki aðgengileg fyrir almenning og geymd þannig, að ekki sé alveg vafalaust, að þau verði ekki fyrir skemmdum. Það er vandi að geyma listaverk svo, að þau skemmist ekki. Ég skal nefna sem dæmi altaristöfluna hér í hliðarherberginu. Það er alls ekki varlegt að láta hana hanga þar sem hún er. Menn verða að ganga svo nálægt henni, að vel gæti eitthvað rekizt í hana og skemmt hana. Það er eins og máltækið segir, að ekki er síður vandi að gæta fengins fjár en afla. Ég vil leyfa mér að biðja alla hv. þdm., og sérstaklega hæstv. dómsmrh., að festa það í minni, að svo gott sem er að verja fé til kaupa á listaverkum, þá er eins nauðsynlegt að undirbúa að einhverju leyti, hvernig haga skuli byggingu yfir þau og hve stór hún skuli vera, og hafa í huga, að undirstaðan sé þannig, að stækka megi bygginguna, bæði á hæð og á hlið. Mér er það kunnugt, að erlendis hefir verið komið upp af litlum efnum og með einstaklingsframtaki allmyndarlegu safnahúsi; það var í fyrstu lítið og lágt undir loft, en síðan byggt ofan á. Þetta er ekki óframkvæmanlegt fyrir hæstv. stj., að hefja undirbúning á þessum grundvelli, sem ég nú hefi nefnt.

Ég get ekki fallizt á, að ég hafi blandað saman orsök og afleiðingum, þegar ég minntist á lögin frá 1928. Það hefi ég ekki gert, og ég hefi ekki lastað þau lög. En ég get ekki fallizt á það með hæstv. dómsmrh., að aðalatriðið sé að kaupa listaverk, en aukaatriði, hvernig þau eru geymd og hvort nokkur fær að sjá þau eða ekki.