03.02.1930
Neðri deild: 13. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í C-deild Alþingistíðinda. (397)

67. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka, hlutafjárauki o. fl

Sigurður Eggerz:

Ég er sammála hv. þm. Mýr. um það, að aðalatriðið í þessu máli sé, hvernig eigi að bjarga, en ekki hitt, hverjir séu orsök í því, að nú er svo komið, sem komið er. Þar með segi ég ekki, að það sé þýðingarlaust að gera sér grein fyrir þeim ástæðum, sem liggja til þess, að Íslandsbanki varð að loka, því að þær geta einmitt verið leiðbeinandi um það, sem gera þarf, til þess að ráða þessu máli til farsællegra lykta. Skal ég svo víkja að ræðu hv. þm. Mýr. að öðru leyti.

Hv. þm. hefir ekki með ræðu sinni snúið mér frá þeirri skoðun, að Landsbankinn hafi brotið lög á Íslandsbanka. Það er að vísu rétt, að Íslandsbanki skuldar Landsbankanum 3347000 kr., en þegar lögin um seðlainndráttinn voru sett, var þessi skuld þegar til. Og það hefði verið einber hégómi að lögákveða, að Landsbankinn skyldi endurkaupa víxla af Íslandsbanka fyrir 5/8 þeirrar upphæðar, sem bankinn drægi inn af seðlum sínum, ef ekki var miðað við inndráttinn, því að ef miðað var við, að Íslandsbanki skyldi greiða sína gömlu skuld, þýddi það ekkert annað en að loka bankanum. Sömu skoðunar eru þeir einnig, hv. 3. landsk. þm., sem var fjmrh., þegar l. voru samþ., og Klemenz Jónsson, þáverandi form. fjhn. Enda held ég, að allir lögfræðingar séu á einu máli um það, að Íslandsbanki hafi átt „formellan“ rétt á að fá þessar 625 þús. kr. Hitt er annað mál, að Landsbankinn gat rukkað Íslandsbanka um þessa gömlu skuld sína. Annars á þjóðbanki einnar þjóðar ekki að hugsa eingöngu um það minnsta, sem hann eftir lögunum geti sloppið með að gera, heldur ber honum skylda til að gera það, sem viðskiptalífið heimtar á hverjum tíma og hann er megnugur til að gera. Utan um þetta verður ekki komizt. Hvað gera þjóðbankar annara landa? Þeir hætta milljón á milljón ofan í þessu skyni. En hverju hefir þjóðbankinn í þessu landi hætt? Engu. Hann hefir aldrei haft sig í neinni hættu til þess að bjarga viðskiptalífinu í landinu. Aldrei. Það dugir ekki að halda því fram, að það megi rífa niður allar aðrar bankastofnanir, en aldrei finna að neinu hjá þjóðbankanum. Að þjóðbankinn sé eitthvert „tabú“, sem aldrei megi anda á, þó hann hafi drýgt hverja þá synd, sem hinum bankanum er gefin að sök, í meira eða minni mæli á sinni tíð. — Það dugir ekki.

Ég hefi þá svarað greinilega fyrsta liðnum. Og á ég þá eftir að svara öðrum liðnum.

Ég sagði, að þessi neitun hefði orðið til þess að stöðva bankann, og ég er ekki einn um þá skoðun. Allir bankastjórar Íslandsbanka líta sömu augum á málið.

Enginn hlutur er eins næmur fyrir áhrifum og bankamálin. Á meðan friður ríkir um bankann, getur hann lifað og haldið áfram að starfa með lítilli hjálp. En þegar órói skapast um bankann og erlendir menn koma fram með kröfur sínar, þá þarf stóra upphæð, þar sem lítil hjálp á réttum tíma hefði getað bjargað. Þetta er lögmál peningamálanna. Viðkvæmni á þessu sviði er meiri en margan grunar.

Það er hægt að færa sönnur á það, hvað miklu hefir oft tekizt að bjarga með lítilli hjálp. Árið 1926 eða '27 var Íslandsbanki illa staddur; þá voru vandræði hans stærri en nú. Skuld hans meiri við Hambrosbanka en nú, enda hafði Hambrosbanki veitt yfirdrátt um 20–30 þús. pund tryggingarlaust. Þá kom Hambrosbanki mjög vel fram við Íslandsb. eins og oft bæði fyrr og síðar. Ég fór þá utan til þess að ræða við stjórn Privatbankans í Danm. um vandræði Íslandsbanka. Þá átti Privatbankinn kröfu á Íslandsbanka allmiklu hærri en þá kröfu, sem hann hefir nú á bankann. Úr þeim hinum miklu vandræðum, sem þá steðjuðu að bankanum, var greitt með einni einustu milljón. En þar sem ein millj. dugði til þess að bjarga Íslandsbanka þá úr hinum miklu vandræðum, því ættu þá ekki 625 þús. krónur að geta hjálpað honum nú?

Sannleikurinn í málinu er, — og ég er ekki svo óhreinskilinn að segja hann ekki blátt áfram —, að ef Landsbankinn hefði sýnt meiri skilning á málinu og mætt Íslandsbanka á miðri leið, þá hefði mátt með lítilli upphæð, með þeirri upphæð, er ég nefndi og Íslandsbanki átti lagalega kröfu til, fyrirbyggja það sem nú er komið á daginn.

Ég þarf ekki mörgu að svara hæstv. fjmrh. Hann talaði með stillingu um málið, eins og hans er síður. Hann sagði, að ég hefði ekkert minnzt á örðugleika Íslandsbanka á undanförnum árum, en þá hefir hann víst ekki hlustað óskiptur á fyrri ræðu mína. Ég sagði einmitt, að um örðugleika Íslandsbanka væru svo margar sögur, að ég sæi mér ekki fært að telja þær allar upp.

Hæstv. fjmrh. sagði, eins og rétt er, að ekki mætti gleyma ríkissjóði og áhættu hans við að taka á sig nýja ábyrgð Íslandsbanka vegna. En hefir verið reiknað út, hvað mikið drýpur í ríkissjóðinn vegna þess stuðnings, sem Íslandsbanki hefir veitt sjávarútveginum? Og stöðvist sjávarútvegurinn, hver getur þá reiknað út tap ríkissjóðs? En á því eru horfur, að svo framarlega sem Íslandsb. verði að stöðva starfsemi sína, að mikill hluti sjávarútvegs landsmanna lendi í óútreiknanlegum örðugleikum.

Ég ætla ekki að endurtaka það, sem ég sagði áðan, nema það, að ég held fast við, að þinginu beri skylda til að taka ábyrgð á sparifé því, sem Íslandsbanki geymir fyrir landsmenn, og þó að bætt sé við, að ríkið taki á sig ábyrgð fyrir 3 millj. kr., þá er ég sannfærður um, að þingið þarf aldrei að iðrast þess.

Ég veit ekki, hvort ástæða er til að svara hv. 2. þm. Reykv. Mér fannst ræða hans veigalítil. Þó verð ég að játa, að mér fannst ræða hans eins og að rætast væri einhver gamall draumur hans um, að Íslandsbanki væri að fara á hausinn. Hann sagði, að ekki sæti á mér að vera að ræða um þetta mál, sem bæri ábyrgð á því, hvernig komið væri fyrir Íslandsbanka. Ég ætla ekki að mæla mig undan réttmætri ábyrgð. En mér finnst ég eigi enga ábyrgð að bera á því, að bankinn er stöðvaður nú. Og ég skal segja meira. Ég mundi ekki þora að standa hér upp á Alþingi og tala, ef ég vissi mig ekki hreinan af þessum áburði. Ég líð ekki andstæðingum mínum að slöngva slíku framan í mig og dettur ekki í hug að þegja við því. Ég mun tala um málið og hræðist engar árásir á mig sem bankastjóra. Með því vil ég þó ekki segja, að ekki hefði verið hægt að stýra bankanum betur en ég hefi gert, en hins er ég meðvitandi, að vísvitandi hefi ég ekki gert neitt rangt, og veit ekki heldur, að neitt það gæti komið fram við rannsókn, er ég þurfi að roðna af. Ég mun óskelfdur nota þm. rétt minn til að tala um þetta stærsta og afdrifaríkasta mál þjóðarinnar. Hér eru rædd smámál dag eftir dag og deilt um smáfjárveitingar, en hvað er það hjá þessu máli, sem ekki verður framhjá komizt, að er mál málanna.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að jafnaðarmenn vildu vinna að því að komast að sem beztri niðurstöðu til þess að bjarga þessu máli. En hver er sú björgun? Hún er ekki fólgin í því að loka bankanum fyrir fullt og allt.

Það, sem um er að ræða, er, eins og hv. 1. þm. Skagf. sagði, hvort bankinn eigi að lifa eða deyja. Það er barizt um líf og dauða bankans. Og um afdrif þessa máls fer mikið eftir því, hvernig þjóðinni reiðir af í framtíðinni.