03.02.1930
Neðri deild: 13. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í C-deild Alþingistíðinda. (406)

67. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka, hlutafjárauki o. fl

Magnús Jónsson:

Hv. þm. Mýr. þarf ekki að segja mér neitt um það, hvað átt er við með endurkaupaskyldu Landsbankans, því ég var í þeirri milliþinganefnd, sem um það fjallaði. Þar var ekkert ákveðið annað en lágmarkið, því að vanalega hafa seðlabankar engar slíkar skyldur, en gera það samt. Það er af því, að endurkaup seðlabanka á víxlum annara banka eru þeirra vissustu viðskipti.

Hv. þm. sagði um yfirdráttarlánið svokallað, að þessi endurkaupaskylda hafi verið fyrirfram innt afhendi. Ég skaut því fram, að það gæti ekki stafað af endurkaupum, þar sem þessi skuld var meiri en sem nam endurkaupaskyldunni. Þetta lán stafar frá þeim örðugleikum, sem Íslandsbanki fékk ekki af seðlainndrættinum einum, heldur af því, hvað hann missti geysilega mikið innstæðufé, þegar óróinn varð mestur um bankann 1926.

Hv. þm. sagði í þessu sambandi með réttu, að ekki væri rétt að lýsa bankanum með svartari litum en vert væri. En mér fannst hann syndga í þessu þegar hann fór að líkja ástandi hans við það versta, sem komið hefir fyrir í öðrum löndum. Hvernig eru þrotabú vanalega? Þau gefa oft þetta kringum 10%. En hér er skýrsla, sem segir, að bankinn eigi fyrir skuldum. Segjum, að hann eigi ekki alveg fyrir skuldum. Ástandið er samt ekki líkt þeim firnum, sem menn verða að horfast í augu við, þegar um slíkt er að ræða.

Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir hans ræðu, vegna þess, að ég vil segja, að öllu sterkari rök hafa ekki verið færð fyrir því, að sjálfsagt er að samþ. frv. Hann fór að telja upp, hvað hefði mætt á Íslandsbanka um síðustu tíu ár. Það er ákaflega merkilegt, að hann sleppti því úr, sem mátti gefa bankanum mesta sök, en það eru óheppilegar ráðstafanir bankastj. í lánveitingum. Hitt, sem hann nefndi, er svo að segja allt saman að meira eða minna leyti bankanum ósjálfrátt, eða þar hafa aðrir aðiljar starfað mikið með honum. Hæstv. forsrh. nefndi seðlaflóðið. En fór bankinn þar fram úr heimild? Aldrei. Hann fékk alltaf heimild til að auka seðlana. Hann er í minnstri sök. Hin sjálfsagði íhaldsaðili hefði átt að vera þingið og stj. Hvað um gengistapið 1925? Var það Íslandsbanki, sem orsakaði það? Þessu má hiklaust svara neitandi.

Þegar hæstv. forsrh. talaði um að starfsfé bankans væri að minnka, gætti hann ekki að því, að bankanum var gert að skyldu að draga inn seðlana á hverju ári, og hann hefir gert það, nema þegar hann hefir fengið sérstaka lagaheimild til að fresta inndrættinum. Enska lánið fékk hann að nokkru, og er það dýrt lán, sem hann verður að afborga smám saman. Þannig var þá hlaupið undir bagga 1921, þegar þingið annars ákvað að kaupa hlutabréf bankans, en var ekki gert. Ég ætla það komi nú í ljós, að það var misráðið að fara ekki eftir kröfu þingsins um þetta.

Hæstv. ráðh. sagði, að ódýrasta fé bankans væri sparisjóðsfé. Það er ekki rétt, enda þótt það verði ekki borið saman við enska lánið. Bezta fé bankanna er þeirra eigið fé, sem þeir þurfa ekki að borga vexti af, nema þegar útkoman sýnir, að þeir eru færir til þess.

Eins er það, hvað bankinn er dýr í rekstri, þetta dýra höfuð á bankanum. En tveir af bankastjórunum eru skipaðir af ríkinu og laun þeirra ákveðin af því.

Um traust bankans út á við mætti margt segja, — en það er nú orðið framorðið, svo að ég verð stuttorður. Ég er ekki óhræddur um það, að ýmislegt, bæði frá hæstv. forsrh. og ýmsum öðrum, sem gustað hefir um bankann, muni hafa stuðlað eitthvað að því, að hans traust er ekki eins tryggt út á við sem þurfti að vera. Bankinn varð að draga inn starfsfé sitt, svo að það minnkaði úr 51294000 kr., sem það var samkv. jafnaðarreikningi 1921, og niður í 38734000 kr., eins og jafnaðarreikningur 1928 sýnir. Með öllum þessum aðstæðum, dýru starfsfé og gengistapi, sem hann varð fyrir, hefir hann getað aðstaðið fram á þennan dag, og hann er ennþá fyrirtæki, sem fjöldi góðra manna fullyrðir, að geti starfað áfram, ef vel er nú hlaupið undir bagga. Þetta sýnir okkur, að hér er virkilega um lífvænlegt fyrirtæki að ræða. Og hæstv. ráðh. hefir sýnt það með sinni ræðu — kannske skýrar en nokkur annar —, hvaða dæmalaust glapræði væri að leggja þetta fyrirtæki á höggstokkinn.