10.02.1930
Neðri deild: 20. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í C-deild Alþingistíðinda. (409)

67. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka, hlutafjárauki o. fl

Frsm. meiri hl. (Héðinn Valdimarsson):

Bankanefndin hefir ekki getað orðið sammála um frv. þetta. finni hl. vill samþykkja það, en meiri hl. leggur til, að það verði fellt.

Í nál. minni hl. er getið um, hvernig nefndarstörfin hafa gengið. Ég get lýst þeim þannig fyrir mitt leyti: Fyrsta daginn virtist allt með felldu. N. athugaði möguleika til samkomulags, og því næst var ákveðið að tala við skyndimatsmennina. En svo bregður svo einkennilega við, að ekkert er aðhafzt langa hríð, því að sumir nm. vildu bíða eftir skeytum frá erlendum skuldheimtumönnum, hvaðan svo sem þeim kom vitneskja um, að slík skeyti kæmu, nema þau væru pöntuð af þeim sjálfum. Og þessi skeyti komu líka bæði frá skuldheimtumönnunum og Sveini Björnssyni sendiherra, sem privat manni að vísu, fyrst til forsrh. og síðan til n. Ég verð að segja, að mér þótti þessar skeytasendingar og biðin eftir þeim talsvert tortryggileg.

Sem nefndarmaður óskaði ég að fá að sjá skýrslu þá, sem bankaeftirlitsmaðurinn og Pétur Magnússon gerðu og byggðu mat sitt og yfirlýsingu á. Bankastjórarnir neituðu að leyfa mér að sjá hana, nema samþykki bankaráðs lægi fyrir, og þótti mér slíkt hátterni grunsamlegt. Lagði ég því til í n., að hún skoraði á bankaráð Íslandsbanka að leggja fyrir bankastjórana að láta n. og hverjum nm. í té allar upplýsingar. Andmælti hv. 1. þm. Skagf. till. og kvaðst ekki vilja leyfa „hlutdrægum“ manni að kynnast hag bankans. Fékk hv. 1. þm. Skagf. því áorkað, að frestað var að greiða atkv. um till. til næsta fundar, er ákveðinn var að morgni, en þá felldi formaður niður fundi til föstudagskvölds. Nefndarmennirnir hafa sýnilega ekki viljað, að nokkur rannsókn fari fram á bankanum þessa viku. En drátturinn er hættulegastur þessu máli, hvað sem gert verður.

Kvöldið áður en Íslandsbanki lokaði, 12 stundum áður hann átti að opna, var boðað til fundar í sameinuðu þingi. Var þar birt bréf bankastj. Kvaðst hún loka bankanum næsta morgun, ef ekki fengist ríkisábyrgð fyrir annaðhvort um 35 millj. króna eða um 10 millj. kr. og útvegað nýtt fé, 1½ millj. kr. Þetta fékkst ekki samþ. Þótti flestum tortryggilegt, hve skammur frestur til athugunar var settur. Kunnugir vissu, að bankinn hafði um langa hríð átt við fjárhagserfiðleika að búa. Bankastjórarnir hljóta að hafa vitað það manna bezt. Þeir hefðu því getað leitað aðstoðarinnar með nægum fyrirvara.

Bankanum hefir lengi verið að hnigna, traust hans að minnka. Má nokkuð rekja þá sögu, ef litið er til innstæðufjárins. Það var samkv. reikningum bankans:

1919 ........... kr. 25,6 millj.

1920 .......... — 21,5

1921 .......... — 21,4

1925 .......... — 19,3

1928 .......... — 13.3

Innstæðuféð hefir því minnkað um helming þessi 10 ár. Traustið í sömu hlutföllum.

Undarlegt er það, að þessi sömu ár, sem bankinn tapar stöðugt fé og tapar áliti, greiðir hann hluthöfum arð.

1919 .......... 12%

1920 .......... 6%

1922 .......... 5%

1923 .......... 5%

1924 .......... 5%

1925 .......... 4%

af öllu hlutafénu, 4500000,00 kr., og mestan arðinn í dönskum krónum.

Ríkið hefir hvað eftir annað hlaupið undir bagga með Íslandsbanka og stutt hann.

Árið 1921 tók það enska lánið hans vegna og afhenti bankanum af því 300 þús. sterlingspund, þá um 9 millj. króna. 1927 er aftur tekið lán hans vegna, þá í Ameríku, dollaralánið. Af því var aðeins notuð 1 millj. Hún fór öll í Íslandsbanka. Svo var kallað, að bæði þessi lán væru tekin vegna atvinnuveganna, en dollaralánið fór alveg og brezka lánið að mestu í Íslandsbanka. Sífelldar ívilnanir og undanþágur frá seðlainndráttarskyldu voru veittar bankanum. Nú ætti hann að eiga í veltu aðeins 1 millj. króna eftir lögunum frá 1921. Hann hefir enn 4 millj. seðla í veltu. Löggjafinn hefir hér með veitt bankanum 3 millj. kr. ódýrt lán. Verður því ekki annað sagt en að stjórnir og þing hafi stutt bankann.

Landsbankinn hefir líka verið látinn hlaupa undir bagga Íslandsbanka. Þangað hefir Íslandsbanki leitað rekstrarfjárins. Nú á Landsbankinn yfir 4 millj. króna hjá Íslandsbanka. Síðan 1921 hafa ríki og Landsbanki til samans kastað í Íslandsbanka um 13 millj. kr. Eiga nú inni hátt á 10. millj. samtals þar auk umframseðla í umferð 3 millj. kr.

Þetta fé hefði Landsbankinn getað haft til eigin umráða, getað notað það sjálfur til eflingar atvinnulífsins í landinu.

Íslandsbanki var látinn hafa það til meðferðar.

Þrátt fyrir allan þennan sífellda stuðning heldur hnignun bankans áfram. Traustið og viðskiptin minnka. Reikningsjöfnuður bankans var (1921), þegar enska lánið var tekið handa honum:

.......... kr. 51,3 millj.

1922 .......... — 47 —

1923 .......... — 43 —

1926 .......... — 43,8 —

1928 .......... — 38,8 —

En jafnframt því, sem viðskiptin minnka, helzt kostnaður bankans óbreyttur eða eykst.

Hann var:

1921 ............ kr. 430 þús.

1922 ............ — 480 —

1923 ............ — 580 —

1924 ............ — 550 —

1925 ............ — 560 —

1926 ............ — 600 —

1927 ............ — 520 —

1928 ............ — 520 —

Kostnaður bankans 1928 var því 90 þús. kr. meiri en þegar velta hans var miklu meiri, 1921, og mun enn hafa hækkað 1929.

Allan þennan tíma virðist bankinn ekkert lánstraust að ráði hafa haft erlendis. Þvert á móti. Hann var neyddur til að borga mjög mikið af skuldum sínum við erlenda lánardrottna á tímabilinu. Svo að segja allt það nýtt fé, sem hann fékk, fékk hann frá Landsbanka eða ríkisstj., og mikið af því varð hann að afhenda erlendum lánardrottnum, og var það því tekið frá atvinnulífinu hér.

Bankastjórarnir halda því fram, að fjárkreppa bankans stafi af seðlainndrættinum. Þetta er tilhæfulaust. Bankinn hefir dregið inn 4 millj. seðla. Landsbanki og ríkissjóður hafa á sama tíma lagt honum fé, sem ásamt gulltryggingu, er losnaði vegna seðlainndráttarins, nemur yfir 11 millj. króna. Önnur fullyrðing er sú, að skuldaafborganir 1929 hafi valdið örðugleikunum. Þetta er líka rangt. Afborganir á árinu námu um 2 millj. En skuldaaukning bankans á sama tíma var 2425 þús. kr. Auk þess seldi hann fyrir hátt á 2. hundr. þús. gull umfram 2/5 hluta seðlamilljónarinnar, sem inn var dregin. Hefir því bankanum aukizt starfsfé á árinu um meira en ½ millj. Hvorugt þetta hefir því valdið kreppunni. Ástæðurnar eru aðrar og eiga dýpri rætur.

Það er því ekki á þessum liðum, sem leita má kreppu þeirrar, sem bankinn hefir lent í, heldur í því, að menn hafa yfirleitt fengið vantraust á bankanum, sem magnazt hefir með ári hverju, viðskiptin hafa fælzt frá honum, og hann orðið fyrir ýmsum nýjum stórtöpum. Auk þess má geta þess, að starfsfé það, sem bankinn hefir haft, er mjög dýrt og óheppilegt. Eigið fé er allt rokið út í veður og vind. Ódýrust er nú seðlaútgáfan, en hún er að hverfa lögum samkvæmt, eins og eðlilegt er.

Sparisjóðsfé bankans er orðið lítið, og hefir hann þó greitt hærri vexti en Landsbankinn gerir af innlánsfé, til að halda því kyrru hjá sér, svo að drátturinn á endanlegri upplausn hans yrði sem lengstur. Við það bætist, að nú á síðustu árum, þegar ætla mætti, að stj. Íslandsbanka beitti mestri varúð, hefir bankinn orðið fyrir stórum töpum, bæði vestanlands og austan, sem hv. þm. munu þekkja. Á ég þar sérstaklega við Sólbakkatapið á Flateyri og verzlun Stefáns Th. Jónssonsonar á Seyðisfirði, og efast ég ekki um, að mikið af töpum hefir orðið á öðrum stöðum. En einkennilegast af öllu er þó það, að bankastjórar Íslandsbanka hafa sagt, að allt væri í lagi hjá bankanum þrátt fyrir þetta. Athugi menn mat bankaeftirlitsmannsins, Jakobs Möllers, og bankareikningana, kemur einkennileg útkoma. Árið 1926 metur bankaeftirlitsmaðurinn, að helmingur af hlutafénu sé tapað en 2¼ millj. króna eftir, 1928 virðist á bankareikningunum sem eftir sé 3½ millj. króna af hlutafénu. Við skyndimat, sem Jakob Möller bankaeftirlitsmaður framkvæmir ásamt Pétri Magnússyni bankastjóra, komast þeir að raun um, að ekki sé neitt eftir af hlutafénu. Það hefir horfið, a. m. k. helmingur þess, 1926–29, og eftir reikningum bankans virðist hann hafa grætt á tímabilinu 1926–28. En þetta eru vitanlega rangir reikningar. Allir vita, að bankinn hefir á þessum tíma orðið fyrir töpum, sem bankastjórarnir hafa leynt á reikningunum. Engar aths. eru gerðar við þennan alranga reikning, hvorki af endurskoðunarmönnum né bankaeftirlitsmanninum.

Nú í ár er svo komið fyrir bankanum að í október, þegar átti að greiða síðari hluta dollaravíxilsins, 475 þús. kr., getur hann það ekki, og sá víxill er ógreiddur enn. Í janúar mun bankinn hafa lýst því yfir endanlega við Landsbankann, að hann gæti ekki greitt hann, og í þeim mánuði þarf hann á nýjum peningum að halda til viðbótar. — Þá um áramótin eiga að hafa verið í sjóði í kringum 1 millj. króna, en hún mun hafa eyðzt, í hvað, veit ég ekki. Bankinn reynir þá að fá nýtt lán í Landsbankanum og mun hafa farið fram á 625 þús. kr., en gat ekki útvegað nægilegar tryggingar, og svo stöðvast bankinn af þessu, að geta ekki fengið það fé, sem þarf til þess að halda áfram, vegna þess að bankanum var ekki trúandi til að endurgreiða lánið, og gat engar tryggingar gefið. Það bætti ennþá á vandræði bankans, að Privatbankinn í Kaupmannahöfn, sem Íslandsbanki skuldar tæpar 3 millj. ísl. kr., segir láninu upp í janúarmánuði, og við þær fréttir falla hlutabréf bankans í verði. Í sjálfu sér hefir það ekki áhrif á hag bankans, en það veikir enn meira traust hans og álit.

Þá er enn í þriðja lagi þess að geta, að fyrirspurn kom frá Hambrosbanka til bankastjórnar Íslandsbanka, áður en honum var lokað, um hvort nokkuð væri athugavert við hag bankans, þrátt fyrir verðfall hlutabréfanna í Kaupmannahöfn. Bankastjórtrin svaraði, að ekkert væri að honum viðvíkjandi innanlandsviðskiptum og aðstöðu hans hér. En tveim dögum síðar lokar hann og stöðvar allar greiðslur sínar. Geta menn skilið af þessu, að bankastjórar Hambrosbanka væru reiðir út af framkomu þessa banka í sinn garð, og gerir það málið ekki auðveldara.

Bankinn verður á þennan hátt sjálfdauður. Hann fellur, vegna þess að hann hefir hvorki fé né traust né viðskipti né hæfa bankastjórn, og sú spurning, sem liggur fyrir hinu háa Alþingi, er aðeins sú, hvort Alþingi eigi að ráðast í að verja gjaldtrausti landsins og peningum ríkissjóðs til að reisa við þennan horfellda banka, blása í hann nýju lífi. Ég verð að segja það, að eftir forsögu bankans álít ég það ekki glæsilegt; og auk þess sé ég ekki, hvaða skylda getur verið fyrir ríkissjóð, eftir allt það, sem gert hefir verið af hálfu hins opinbera fyrir þennan einkabanka, önnur en sú, að sjá um, að sérhver lánardrottinn bankans fái það, sem honum hlutfallslega her, og ennfremur að lokun bankans valdi sem minnstu róti fyrir atvinnuvegi landsins, þannig að þeir, sem hafa heilbrigð viðskipti við bankann, geti haldið áfram atvinnurekstri sínum óröskuðum. En hitt, að leggja bankanum til 3 millj. kr. sem forgangshlutafé og taka ábyrgð á honum öllum, eftir frv. hv. minni hl., álít ég alveg óhugsandi. Þar að auki er frv. þannig orðað, að ómögulegt er að samþ. það; ríkissjóður leggur bankanum til 3 millj., „að því tilskildu, að aðgengilegir samningar náist við Privatbanken og Hambros Bank“. En hver á að dæma um, hvort samningarnir séu aðgengilegir eða ekki?

Því hefir verið haldið fram, að það mundi valda álitstjóni fyrir Íslendinga út á við, ef hreinsað væri til og gerð endanleg skipti á Íslandsbanka. Ekki er hægt að neita því, að hvaða stórfyrirtæki, sem fara illa og verða að leysast upp, valda álitstjóni fyrir landið, en engum dettur í hug, að ríkissjóður eigi að ganga í ábyrgð fyrir þau. Geri ég heldur ekki ráð fyrir því, að aðrar þjóðir, sem hafa mikið af gjaldþrota einkabönkum og þekkja til þessara hluta, skilji ekki, að sama getur komið fyrir hjá okkur Íslendingum og þeim. Og ég hygg, að eins og málið liggur fyrir, og enginn veit, hvernig hag bankans er komið, geti aðrar þjóðir skilið, að eðlilegast sé að játa hrein skipti fram fara.

Sumir halda því fram, að það reynist erfitt að leiða fjárstrauminn úr einum banka í annan, eða í nýjan banka, ef hann kynni að verða stofnaður, sem við jafnaðarmenn teljum réttast. Því er ekki að neita, að slíkt getur verið erfitt, en ég hygg þó, að það sé auðveldara en sú leiðin að taka á sig ábyrgð á allri skuldasúpunni, sem enginn veit, hvers virði er, og leggja auk þess fram mikið fé úr ríkissjóði, sem ekki er handbært.

Ég hygg, að þótt erfiðir tímar verði fram undan fyrst um sinn, við að loka bankanum, verði þeir enn erfiðari, ef haldið er áfram að fleygja fé inn í þrotabú bankans. Ef karlmannlega verður á tekið og bankinn gerður upp og hreinsað til í viðskiptunum, er ég fullviss um, að það muni hafa í för með sér margfalda blessun fyrir þjóðina, atvinnuvegi hennar og fjármál.