08.02.1930
Neðri deild: 18. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í C-deild Alþingistíðinda. (532)

58. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Á síðasta þingi var af þm. Reykv. flutt frv. þess efnis, að allur Seltjarnarneshreppur skyldi lagður undir Reykjavík. Frv. var fellt við 1. umr., svo að það komst ekki einu sinni í nefnd. Nú flytjum við þm. Reykv. annað frv., sem fer miklu skemmra en hið fyrra, um að leggja aðeins lítinn hluta úr hreppnum undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Það er enginn vafi á, að þetta er nauðsynlegt fyrir Reykjavík, enda er varla nokkur maður hér, sem ekki æskir þess.

Seltjarnarneshreppur er, eins og menn vita, í 4 pörtum: í fyrsta lagi Seltjarnarnesið sjálft, síðan liggur landið eins og fleygur inn í Reykjavík úr suðrinu á milli Kaplaskjóls og Fossvogs. Þá nær hreppurinn yfir Viðey og í fjórða hlutanum eru 3 jarðir uppi undir Mosfellssveit. Nú fer frv. þetta aðeins fram á að leggja fleyginn inn í Reykjavíkurland, jarðirnar Þormóðsstaði og Skildinganes, undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, ásamt löndum og lóðum, sem seldar hafa verið frá þeim. Í Skildinganeslandi er verzlunarstaður, sem með lögum frá 1928 hefir verið lagður undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur að því er snertir tollgæzlu og lögreglustjórn. Það liggur í augum uppi, hvað eðlilegt þetta er, þegar þess er gætt, að annars þyrftu Skildinganesbúar að sækja þetta alla leið til Hafnarfjarðar. Skildinganes notar fjölmörg hlunnindi Reykjavíkur, eins og t. d. skóla, höfn og götur bæjarins, en hinsvegar gjalda íbúar þess ekki útsvar nema til hreppsins. Það er líka nauðsynlegt fyrir þá að fara að fá ýms hlunnindi, sem Reykjavík hefir nú, t. d. vatn og rafmagn.

Við flm. höfum ekki tekið fram ákveðna upphæð til skaðabótagreiðslu handa hreppnum, af því að enginn samningur liggur fyrir um það. Eins og menn vita, er borgarstjórinn aðeins settur í embættið. Það verður innan skamms auglýst, svo að borgarstjóri hefir ekki viljað taka neina ákvörðun í þessu efni. En fyrir 2. eða 3. umr. málsins geta verið fengnir samningar eða neitun á samkomulagi. Eins og sjá má í frv., viljum við, ef ekki næst samkomulag, láta skipa matsnefnd, sem báðir aðiljar skuli hlíta.

Ég vænti þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.