15.03.1930
Neðri deild: 54. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í C-deild Alþingistíðinda. (580)

114. mál, Brunabótafélag Íslands

Frsm. meiri hl. (Sigurður Eggerz):

N. klofnaði í málinu. Meiri hl. leyfir sér að leggja til, að frv. verði afgr. með dagskrá.

Eins og frv. ber með sér, þá er gert ráð fyrir því, að starfsemi Brunabótafélagsins verði aukin að mun. Nú sem stendur gilda tvenn lög um þetta efni: Lög um stofnun Brunabótafél. Íslands, frá 3. nóv. 1915, og 1. um vátrygging sveitabæja (utan kauptúna), frá 27. júní 1921. Samkv. fyrri lögunum er skylduvátrygging á öllum húseignum í kauptúnum, sem hafa yfir 300 íbúa. Síðari lögin eru heimildarlög, og samkv. þeim hefir verið vátryggt í 51 hreppi. Í frv. er gert ráð fyrir, að tryggingarskyldan nái einnig yfir það svið, sem heimildarlögin ná nú yfir. Við það er ekkert að athuga.

Þá er gert ráð fyrir í frv. að sjálfstrygging sé afnumin og virðist það rétt.

Í frv. er gert ráð fyrir því, að lausafé megi vátryggja eftir miklu stærri mælíkvarða en nú á sér stað. Þetta sýnist mér varhugavert, af því starfsemi Brunabótafél. er byggð á gagnkvæmt um tryggingum. Ef t. d. mörg hús brenna, þá er gert ráð fyrir, að á þau hús, sem eftir eru, sé jafnað niður upphæð. Ef lausafé er tryggt, er naumast hægt að tryggja á þessum gagnkvæma grundvelli. Til þess að sú trygging geti talizt örugg, þarf sjóður að standa hak við. Sá sjóður, 10 þús. kr., sem um getur í frv., er svo lítill, að hans gætir ekki.

Í 25. gr. í lögum um Brunabótafélag Íslands er gert ráð fyrir, að þegar félagið er svo stórt, að ársiðgjöld nema meira en 75 þús. kr., þá skal stjórnarráðið semja frv. til l. um breyt. á stj. þess, í þá átt, að skipað sé fulltrúaráð til að gæta hags sveitarfélaganna og vátryggjenda. En frv. þetta skal ekki lagt fyrir Alþ. fyrr en fengnar eru umsagnir sveitarstjórna um það. Meiri hl. vill nú, að fyrirmæli laga þessara séu framkvæmd og frv. borið undir sveitarstjórnir. Ef að því ráði verður horfið, ætti fyrst að láta sérfróða menn athuga frv. og gera till. um það. Þessi mál eru svo vaxin, að erfitt er að komast að fullri niðurstöðu fyrir aðra en sérfræðinga.

Til þess að flýta fyrir umr. vil ég, með leyfi hv. minni hl. n., minnast á þær ástæður, sem hann færir fyrir því áliti sínu, að málið eigi að ganga fram á þessu þingi. Ég vona, að hv. frsm. minni hl. taki það ekki illa upp, enda þótt hann sé ekki búinn að tala. Ég geri það bara til að flýta fyrir.

Það, sem hv. minni hl. telur, að mæli með því, að frv. verði samþ. nú, er í fyrsta lagi, að aðkallandi þörf sé á reglugerð og flokkunarreglum bæði Brunabótafélagsins og einkum sveitarsjóðanna. Er vísað til þáltill. er fram kom á þingi 1928, frá hv. þm. Mýr., að mig minnir.

Að því er snertir breyt. þær, sem hv. þm. Mýr. taldi mest aðkallandi í ræðu þeirri, sem fylgdi áminnztri þáltill., þá er hægt að gera þær með reglugerð.

Hv. minni hl. segir, að ekki sé hægt að gera breytingar á samningum um endurtryggingu fyrir Brunabótafélagið. Það væri þörf á því að fá upplýsingar um það hjá hv. minni hl., hvað það er í núgildandi lögum, sem stendur í vegi fyrir slíkum samningum.

Þau rök, sem minni hl. hefir fært fram, eru alls ekki næg til að sanna, að ekki megi vísa því til sveitarstjórnanna til umsagnar.

Ég vil leggja áherzlu á það, að áður en þetta mál verður leitt til lykta, verður að athuga það af fagmönnum meira en orðið er ennþá, og eins og bent er á í dagskránni, þarf það einnig að sendast sveitarstjórnunum til umsagnar. Það er nauðsynlegt, að þegar málið verður endanlega leitt til lykta, standi meiri fagþekking á bak við það en nú er. Ég veit, að því kynni að vera haldið fram, að það mætti eins og hingað til komast hjá því að hafa fulltrúaráð, en lögin mæla svo fyrir, að það skuli vera, og þegar af þeirri ástæðu má ekki lengur dragast að hlýðnast fyrirskipunum laganna. — En auk hinna skýru fyrirmæla laganna um fulltrúaráðið, þá er að líta á, að þegar starfsemi þessa félags er aukin eins mikið og nú er gert, og þegar ýmsar takmarkanir á starfsemi þess falla burt og hún er rekin á víðtækari grundvelli, þá er sérstök ástæða til að hafa kröftugt eftirlit með framkvæmdarstjórninni.

Ég leyfi mér að óska þess, að rökstudda dagskráin, sem meiri hl. ber fram, verði samþ.