01.04.1930
Efri deild: 66. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í C-deild Alþingistíðinda. (613)

131. mál, bæjarstjóri á Siglufirði

Erlingur Friðjónsson:

Mér þykir rétt að svara hv. frsm. meiri hl. nokkru. Hann var að tala um, að með frv. þessu væri verið að útiloka núv. bæjarfógeta frá atkvæðisrétti í bæjarstjórn Siglufjarðar. Það er að vísu rétt, að ef sérstakur bæjarstjóri verður settur, þá er um leið úr sögunni hið gamla og úrelta form, að láta bæjarfógeta fara með atkvæðisrétt í bæjarstj. Í þessu efni vil ég vísa til þess, hvað segir í lögum nr. 61 frá 1919, um bæjarstjórn á Seyðisfirði, sem sýnir, hve sanngjarnlega hv. þm. Seyðf. hefir þá tekið í þetta mál. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp fyrri málsgr. 2. gr., og er hún þannig:

„Sýslumaðurinn í Norður-Múlasýslu er jafnframt bæjarfógeti kaupstaðarins. Hann er oddviti bæjarstjórnar“.

Og enn segir í 3. gr.:

„Málefnum bæjarins stjórnar bæjarstjórn, og eru í henni bæjarfógetinn og 9 bæjarfulltrúar, kosnir af bæjarbúum, sem kosningarrétt hafa eftir lögum þessum. Tölu bæjarfulltrúa má stjórnarráðið breyta, ef þörf gerist, eftir till. bæjarstjórnar. Oddviti bæjarstjórnar hefir því aðeins atkvæðisrétt á fundum, að hann sé bæjarfulltrúi“.

Hér er það sem sé fast ákveðið, að bæjarfógeti hafi ekki atkvæðisrétt, nema hann sé um leið kosinn bæjarfulltrúi. En nú talar hv. frsm. um þetta sem einhverja góðgá, að taka atkvæðisréttinn af bæjarfógeta, og binda hann því skilyrði, að hann sé kosinn bæjarfulltrúi. Mér finnst, að meiri hl. hv. n. hefði átt að kynna sér betur hverjum tökum þingið hefir hingað til tekið á þessum málum. Hitt getur ekki komið til nokkurra mála, að fara aftur á bak í þessum efnum. Hér er um fyllstu réttlætiskröfu að ræða, sem ekki verður hamlað framgangs til lengdar.

Þá var hv. frsm. að tala um símskeyti, sem bæjarstjórnin sendi Alþingi viðvíkjandi þessu máli. Hann lét svo um mælt, að ekkert lægi fyrir í þessu máli, nema þetta skeyti, annars engar upplýsingar um meirihlutavilja fólksins. Ég hefi áður lýst því yfir, að ég hefi verið beðinn um að flytja þetta frv., og til þess þurfti ég enga sérstaka heimild, því ég sem þm. get tekið að mér hvaða mál sem er til flutnings. Hv. þm. sagði, að það væri vani, að kjósendur snéru sér til þm. sinna um flutning áhugamála sinna. Já, að vísu er það vani, en það er líka vani, að þm. tali við kjósendur sína áður en farið er á þing, en hv. þm. Eyf. hafa nú ekki látið svo lítið hvað Siglfirðinga snertir. Það er því ekki nema eðlilegt, að þeir þykist ekkert upp á þá komnir um flutning þessa máls. Hv. frsm. meiri hl. var ánægður með afgreiðslu þessa máls. Þeir hafa ekki setið yfir málinu nema í mánaðartíma og skilað því frá sér með nál., sem ekki er nema þumlungur á lengd. En aðaláherzluna verður að leggja á, hve meiri hl. n. er mikilvirkur, því það tók hann 11 daga að semja þetta nál. Þetta er atriði, sem ég ætlast til, að verði undirstrikað í Alþingistíðindunum.

Þá heldur hv. þm. því fram, að bæjarfógetinn á Siglufirði hafi verið á móti þessu máli, af því að hann hafi ekki greitt atkv. með því.

Það er ekki sjálfsagður hlutur, að maður sé ætíð móti máli þó hann greiði ekki atkv. með því. (IP: Þó hefði þm. þótt það eðlilegast). Ég sagði ekkert um það. Ég sagði, að það væri eðlilegast, að hann greiddi ekki atkv. og enginn mundi skilja það öðruvísi en að stöðu sinnar vegna bæri að haga sér þannig.

Þá segir hv. þm., að ríkisstj. hafi ekkert um þetta mál sagt. Ég verð að spyrja: Hvað varðar ríkisstj. um þetta mál? Það nær ekki til hennar. Því þó að bæjarfógetaembættið og bæjarstjóraembættið yrðu aðskilin, gæti ríkisstj. ekkert um það sagt, þar sem bæjarstj. Siglufjarðar myndi eins og aðrar bæjarstj. greiða bæjarstjóra sínum kaup og sjá um hann að öllu leyti ríkinu að kostnaðarlausu. Ríkisstj. þarf því engin afskipti af því að hafa, hvort Siglufjörður fær bæjarstjóra eða ekki.

Þá sagði hv. þm., að bæjarfógeti sé jafnframt bæjarfulltrúi að lögum, m. ö. o., ríkisstj. hefir ennþá embættismann sem bæjarfulltrúa. Það er hægt að þrátta um það við hv. þm., hvort bæjarfógeti sé jafnframt bæjarfulltrúi eða ekki, meðan það álappafyrirkomulag er, að starfsmaður hins opinbera (bæjarfógetinn) fari með atkv. fyrir þess hönd. En allir sjá, hve fráleitt það er að búa við þetta fyrirkomulag, sem er frá 1918 og 1919. Siglufjörður er nú eini kaupstaðurinn, sem á eftir að fá þau réttindi að mega velja sér bæjarstjóra. Undanskilinn er þó einn kaupstaður, sem fékk bæjarréttindi fyrir 2 árum síðan (Nes í Norðfirði), en þessi kaupstaður, Siglufjörður, fékk bæjarréttindi fyrir 12 árum síðan.

Þá sagði hv. þm., að þeir, sem að dagskránni standa, hefðu ekki krafizt rannsóknar í þessu máli, en dagskráin segir, að það vanti upplýsingar. Hvernig er hægt að fá upplýsingar nema með rannsókn? Ég býst því við, að hv. meiri hl. verði að sætta sig við, að engar upplýsingar fáist, ef hann krefst ekki rannsóknar í þessum efnum.

Þá talaði hv. þm. um langan og fróðlegan fyrirlestur. Já, ég vona, að hann hafi verið fróðlegur fyrir hv. 2. þm. S.-M. og að eitthvað það hafi komið fram, sem kom flatt upp á hv. þm. En hvað lengdina snertir, þá var hún álíka og framsöguræða hans fyrir þumlungslöngu dagskránni. Það er því ekki hægt að segja, að ég hafi flutt langa ræðu.

Þá sagði hv. þm., að meiri kostnaður væri greiddur við lögreglustjórn á Siglufirði en í öðrum kaupstöðum á Íslandi. Stafar þessi meiri kostnaður eðlilega af því, að lögreglustjórn á Siglufirði er erfiðari en í öðrum kaupstöðum, og er þá ekki nema eðlilegt, að kostnaðurinn sé nokkru meiri þar en annarsstaðar. Þetta er verst fyrir lögreglustjórann. Hann verður að vinna öll verk sem lögreglustjóri og jafnframt sem bæjarstjóri. En þetta vill hv. þm. láta hann vera við áfram.

Þá fannst hv. þm. vera ósamræmi í samanburði mínum á fólksfjölda á Siglufirði og Seyðisfirði og að ég hefði lítið gert úr því, að fjölmennara væri í Vestmannaeyjum en á Siglufirði. Ég hefi ekki lagt neitt upp úr mannfjöldanum, en fyrst hv. þm. talaði um mannfjölda á þessum stöðum, fannst mér vera ástæða til að gera samanburð. Ég vil líka leggja mikið upp úr því, hversu miklu meira er flutt frá og til Siglufjarðar en frá öðrum kaupstöðum landsins. Það, sem ég lagði aðaláherzluna á, stendur því óhrakið af hv. 2. þm. S.-M., því það eru tölur, sem þar er byggt á. Hv. þm. sagði, að það væri ekki vandi að taka upp úr hagskýrslunum, en hvað álítur hann, að sé betra en tölur að byggja á? Það er í mörgum tilfellum það eina, sem sannar eitthvað bókstaflega.

Hv. þm. var að grípa fram í fyrir mér áðan, hvort þetta væri ósk Siglfirðinga. Dregur hv. þm. það í efa? Vill hv. þm. bíða eftir því að fá að heyra óskir Siglfirðinga, eftir því að fá annað símskeyti frá þeim?

Hvað Akureyri snertir var farið eftir meiri hl. bæjarstj. um það, hvort velja skyldi bæjarstjóra eða ekki. Hvernig á nú að fara að gera miklu meiri kröfur til Siglfirðinga en til Akureyrar og annara kaupstaða í þessu efni?

Hv. þm. sagði, að það væri vafamál, hvort þingið ætti að vera að snúast í máli sem þessu. Þá skildist mér, að hv. þm. vildi fresta málinu, t. d. til næsta þings, og gæti hann þá vel orðið með því, að Siglufjörður fengi bæjarstjóra, ef nægilegar upplýsingar væru þá fyrir hendi. Það gleður mig að eiga eftir að heimta hv. 2. þm. S.-M. með sínu gamla eðli, þótt það verði ekki fyrr en á næsta þingi, og fá þá að njóta hans góðu krafta í þessu máli. Annars sé ég ekki annað en að fara verði með hann sem umskiptingana áður, að berja duglega á honum. En ég vænti nú, að hv. þm. láti sér skipast við orð mín, góð rök og ráðleggingar, svo engra sérstakra aðferða þurfi að leita til að hann bæti ráð sitt.