14.04.1930
Neðri deild: 79. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2443 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

Afgreiðsla þingmála

Sigurður Eggerz:

Þótt sumum kunni að virðast það smámál, þá finnst mér það ekki einskisvert, að sæmileg kurteisi sé viðhöfð í umr. á Alþingi. Það er sú minnsta krafa, að hver flokkur sé nefndur sínu rétta nafni, en ekki einhverju uppnefni. Það væri enginn vandi að finna uppnefni á stjórnarflokkana, eins og þeir láta sér sæma að nota um Sjálfstæðisflokkinn. T. d. mætti kalla annan Stauningsflokk, en hinn Jónasarflokk. En eigi að fara að löghelga uppnefni á þingflokkunum, er þá ekki að því komið, að farið verði að uppnefna einstaka hv. þm. sjálfa í þingræðum? Svona ósiði verður að átelja, og það skal verða haldið áfram að finna að þeim. Ég hefi ekki geð í mér til að svara andstöðuflokkum mínum í sama tón, með uppnefnum, sem ég álít ósæmandi á löggjafarþingi þjóðarinnar. Það er áreiðanlegt, að á engu þingi nema hér er svona ókurteisi látin viðgangast.