18.03.1931
Efri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í C-deild Alþingistíðinda. (1028)

22. mál, bókhald

Frsm. (Erlingur Friðjónsson):

Við 2. umr. þessa máls gat hv. 4. landsk. þess, að hann óskaði þess, að frv. yrði sent Iðnraði Reykjavíkur til umsagnar. N. fellst á þetta og hefir sent frv. til iðnráðsins. Eftir að hafa fengið svar iðnráðsins fellst n. á nokkrar lítilsháttar brtt. við frv., og er þær að finna á þskj. 192.

Iðnráðið hefir með bréfi til n., sem ég með leyfi hæstv. forseta ætla að lesa upp úr, komizt svo að orði:

„Með lögum nr. 18, 31. maí 1927, um iðju og iðnað, er ákveðið, að handiðnaður allur heiti „iðnaður“, en vélaiðnaður og verksmiðjuiðnaður „iðn“. Fyrir þessar sakir leggur iðnráðið til, að 5. liður breytist þannig, að þar komi „iðnaður“ í stað „iðju“.

Iðnráðið segir, að þessi skýrgreining á orðunum iðnaður og iðja sé að festast í málinu og vill því, að það sé fært inn í þessi lög.

Einnig leggur iðnráðið til, að breytt sé í 11. lið 2. gr. orðinu byggingarmeistari í orðið húsameistari, og telur, að það muni betur skýra, hvað við er átt.

Þá hefir n. ekki tekið til greina fleiri till. frá iðnráðinu, en aftur á móti hefir henni verið bent á af einum dm., að ekki myndi það hafa þýðingu að láta standa í 6. gr. þessi orð: „Þeir, sem hafa sjálfvinnandi peningakassa, geymi reikninginn með ástimplaðri niðurstöðutölu sem fylgiskjal með innfærslunni“. — N. hefir fallizt á, að ekki væri ástæða til þess að geyma þennan renning, því að ekki getur hann talizt svo merkilegt sönnunargagn. N. flytur því einnig þessa brtt.

Hefi ég svo ekki fleira um þessi mál að segja.