26.03.1931
Efri deild: 34. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í C-deild Alþingistíðinda. (1065)

23. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég get verið samdóma hv. 1. landsk. um það, að þetta er ekki stórt atriði, hvort það stendur, sem hér er í frv., eða það, sem hann vill fella niður; ég get ekki séð, að það sé stór skaði skeður, þótt gert sé ráð fyrir þessu. Það sýnir, að sá, sem undirbjó málið, er að reyna að þoka því áfram, þótt erfitt sé. Ég álít, að það eina, sem hefir fengizt við umr. bæði hér á Alþingi og í bæjarstj. Rvíkur, sé það, að hugsað er um háskólann sem bæjarhluta, sem geti verið lengi að vaxa, og því geti þessi bygging ekki verið neitt endanlegt takmark, heldur aðeins það, sem þjóðin getur sætt sig við í t. d. 20 ár. Af þessu leiðir þess vegna, að það er ekki neitt aðalatriði, hvenær þessari ráðgerðu byggingu er lokið.

Sem gamall skólakennari hefi ég sterka tilfinningu fyrir því, hvað fari illa um þá, sem eru að læra í háskólanum, að ég ekki tali um það, að í sumum deildunum er ekki nægilegt húsrúm, hvorki til að sitja né standa.