08.04.1931
Efri deild: 41. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í C-deild Alþingistíðinda. (1252)

8. mál, vitagjald

Fjmrh. (Einar Árnason):

Eins og hv. flm. þessarar till. tók fram, var till. þessi hér til umr. fyrir nokkru og var þá samþ. Ég tók það fram það, að ég væri ekkert á móti efni till., en benti á það, að þær skoðanir hefðu komið ákveðið fram í hv. Nd., að litlar líkur væru til þess, að slík till. næði þar fram að ganga. Hefir og komið á daginn, að svo var.

Ég geri ekki eins mikið úr því og hv. flm. till., hvað þetta valdi miklum óþægindum. Hvort sem þetta orðalag verður haft eða ekki, þá býst ég við, að þetta verði í framkvæmdinni mjög svipað eins og verið hefir. Mér finnst því þetta atriði ekki vera svo stórkostlegt, að rétt sé að hrekja þetta mál í Sþ. Tel ég því rétt að afgreiða frv. eins og það liggur fyrir nú.