01.04.1931
Neðri deild: 39. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í C-deild Alþingistíðinda. (1646)

283. mál, virkjun Efra-Sogs

Ólafur Thors:

Ég vil gera mitt til, að mál þetta geti orðið afgr. á þessum fundi, og skal því ekki tefja umr. mikið.

Hv. 1. þm. S.-M. sagði, að hér væri verið að leika loddaraleik, og honum fannst þeir vera að leika þann leik, sem bera frv. fram. Hv. þm. hlýtur að eiga við, að það sé skrípaleikur, að jafnvel þeir, sem sjá, að hér er mesta þarfamál á ferð, vilji ekki samþ. það af því, að það eru andstæðingar, sem bera það fram.

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er eitthvert stærsta málið, sem þingið hefir lengi haft til meðferðar. Undirtektir hæstv. dómsmrh. voru eins og við mátti búast. Hann segir, að ríkissjóður megi ekki ganga í ábyrgð fyrir Rvíkurbæ, vegna þess, að ábyrgð, sem ríkið gekk eitt sinn í fyrir togarafélag eitt, hafi lent á ríkissjóði. Hvað snertir það nú þetta mál, þótt áhætta hafi fylgt því að ganga í ábyrgð fyrir Kárafélagið? Ég nefni þetta ekki af því, að ég búist við, að nokkur óvitlaus maður taki mark á þessu skrafi ráðh. En svona eru allar hans röksemdafærslur, í hvaða máli sem er.

Hæstv. dómsmrh. taldi ósannað, að þessar sex sýslur óski þess að verða aðnjótandi hlunninda af virkjuninni. Ef svo væri, að sýslurnar óskuðu ekki þessara hlunninda, hlýtur það að stafa af því, að alls ekki er hægt að veita þessum sýslum rafmagn með þolanlegum kjörum, því að sannað er, að þessar sýslur geta hvergi fengið rafmagn á ódýrari hátt en í sambandi við Sogsvirkjunina. Þar með væri því slegið föstu, að við gætum aldrei leyst það viðfangsefni að veita rafmagni inn á sveitaheimilin. Ef þetta væri rétt, er eðlilegt, að sú spurning vakni, hvort öll okkar landbúnaðarpólitík fram til þessa hafi ekki verið skökk. Verði ekki hægt að útvega sveitunum rafmagn, virðist mér mjög litlar líkur til, að takist að halda fólkinu þar, en að því miðar auðvitað stuðningur ríkissjóðs við landbúnaðinn. Reynslan hefir sýnt, að sú margvíslega löggjöf landbúnaðinum til styrktar, sem komið hefir verið á hin síðari ár, er þess ekki megnug að stöðva strauminn úr sveitunum. Og vonleysi hæstv. dómsmrh. í rafmagnsmálinu er því um leið vonleysi um framtíð sveitanna, og er það í litlu samræmi við öll hin stóru orð hæstv. ráðh. og flokksmanna hans um „trúna á moldina“.

Ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um það, að veiting rafmagnsins út um sveitirnar gengur jafngreiðlega og útbreiðsla símakerfisins, þegar einu sinni er búið að hefjast handa. Við munum spádómana um símann í byrjun, en nú er lína komin út á hvert annes og inn í hvern afdal, að kalla má. Þeir, sem unna íslenzkum landbúnaði, eiga að gera sitt til, að sömu spor verði stigin í rafmagnsmálinu. Og hér býst einstakt tækifæri til að veita sveitunum rafmagn með góðu og ódýru móti, þar sem Rvíkurbær tekur á sig meginhluta áhættunnar.

Eins og hv. 2. þm. Reykv. benti á, er það firra ein, að sveitirnar bresti alla aðstöðu til að afla sér þessara hlunninda. Við höfum séð fram á annað eins og hér er um að ræða og ekki kiknað við.

Hæstv. dómsmrh. vildi ekki segja það berum orðum, að hætta væri á að Rvík yrði gjaldþrota á næstunni, en hinsvegar vefengdi hann, að gjaldþrot ríkisins mundi leiða af gjaldþroti Rvíkur, vegna þess, að ¾ hlutar landsmanna byggju utan Rvíkur. En hæstv. ráðh. veit í fyrsta lagi, hve ríflegur hluti af tekjum ríkisins hefir til þessa komið frá Rvík, og enn fremur hitt, að þarfir þeirra, sem utan Rvíkur búa, eru mjög kostnaðarfrekar. Ef litið er á útgjaldaliði fjárlaganna, sést, að minnstur hluti af útgjöldum ríkissjóðs rennur til Rvíkur. Ég gæti trúað, að þessir ¾ hlutar landsmanna ættu erfitt með að standa undir sínum eigin böggum, er Rvík væri dottin úr sögunni.

Hæstv. dómsmrh. kom með þá skökku samlíkingu, að hér væri hið sama að gerast og ætti sér stað, ef fátækur maður bæði ríkan mann að skrifa á víxil fyrir sig. En reikningar Rvíkur bera það með sér, að Rvík er mun betur stæð en ríkið er nú eftir ráðsmennsku hæstv. stjórnar. Það kann því að hljóma undarlega, að Rvík skuli ekki geta fengið lán án ríkisábyrgðar, en bæði er það, að útlendingar vita ekki yfirleitt, sem betur fer, hvernig hagur ríkisins er í raun og veru, og hinsvegar gengur ríkjum ávallt betur en bæjum að fá lán. Reikningar Rvíkurbæjar eru ljósir, og þeir bera með sér, að engin áhætta getur fylgt þessari ábyrgð. Nú eru ríkisskuldirnar komnar á fimmta tug millj. og hæstv. dómsmrh. verður að skrökva því, að þær séu 12 millj. lægri en þær eru, til að fá ókjaralán í Englandi. Rvík hefir neitað að taka lán, sem hún gat fengið, vegna þess að farið var fram á veðsetningu, en hæstv. stj. hefir hinsvegar veðsett bæði tekjur og eignir ríkissjóðs fyrir ríkisláninu. Og sá kvittur hefir flogið fyrir, og ég vil hér með spyrja hæstv. stj., hvaða fótur sé fyrir honum, að hún hafi ekki aðeins orðið að veðsetja tekjur og eignir, heldur orðið að undirgangast skilmála, sem meini henni og hennar flokki nú að aðhyllast það frv., sem hér liggur fyrir.