07.03.1931
Neðri deild: 18. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í C-deild Alþingistíðinda. (1883)

91. mál, sveitargjöld

Flm. (Halldór Stefánsson):

Grg. fyrir þessu frv. er allítarleg, og má af henni sjá bæði hinar almennu ástæður fyrir málinu og hinar sérstöku ástæður fyrir einstökum atriðum þess. Sömuleiðis segir í grg. frá því, hvernig á frv. stendur. Er það svo til komið, að við starf mitt í mþn. í tolla- og skattamálum varð mér enn ljósara en áður, hversu brýn þörf væri á að koma betra skipulagi á sveitargjöldin og ákveða sveitarfélögunum nokkra fasta tekjustofna. Meðnm. mínir í n. gátu ekki fallizt á till. mínar og eiga því engan hlut í samningu frv. með mér. Vil ég taka þetta fram, til þess að koma í veg fyrir misskilning.

Aðalatriði þessa frv. eru tvö. Er hið fyrra það, að sveitarfélögum eru með frv. áskildir að nokkru fastir tekjustofnar fram yfir það, sem nú er að l. Síðara atriðið er það, að settar eru reglur um niðurjöfnun útsvaranna. Vil ég þó jafnframt geta þess, að auk þessara tveggja atriða er vikið að þriðja atriðinu í grg. fyrir frv., og er það atriði í sjálfu sér ekki minnst virði, þó að ég hinsvegar hafi ekki gert neinar till. um það. Þetta atriði víkur að því, hversu gjöld til sveitarþarfa leggjast misþungt á gjaldendur, eftir því hvar þeir eru búsettir á landinu, en till. um rétting á því eiga ekki heima í þessu frv.

Þó að allítarleg grein sé gerð fyrir þessum atriðum í nál. mínu, sem frv. fylgir, vil ég þó víkja nánar að þeim, og þá fyrst því atriðinu, að sveitarfélögum sé séð fyrir nokkrum föstum tekjustofnum fram yfir það, sem þau nú hafa. Ég tel þessa hina brýnustu þörf. Öllum er það kunnugt, jafnt þm. sem almenningi, að útgjöld sveitarfélaga yfirleitt fara vaxandi með hverju ári. Liggja aðallega 3 ástæður til þessa.

Fyrsta ástæðan er hinn vaxandi framfarahugur, sem leiðir til meiri framkvæmda og þar af leiðandi aukinna fjárframlaga. Er auðvitað ekki nema gott eitt um þessa ástæðuna að segja í sjálfu sér.

Önnur ástæðan er sú, að Alþingi hefir undanfarið lagt ýmsar skyldur sveitarfélögunum á herðar, sem leiða yfir þau aukin útgjöld. Má í því sambandi minna á það, að sveitarfélögunum er gert að bera kostnaðinn af heilbrigðis- og fræðslumálum að sínu leyti.

Þriðja orsökin til þessa eru ýms atvik, sem sveitarfélögum eru ósjálfráð, svo sem vaxandi útgjöld til fátækramála. Þykir mér rétt að geta þess þegar í þessu sambandi, að þessi útgjöld falla mjög misjafnlega þungt á hin ýmsu framfærsluhéruð, beinlínis vegna þess skipulags, sem lögákveðið er á þessum málum.

Eins og nú stendur munu útgjöld allra sveitarfélaga á landinu nema nál. 1/3 á móts við útgjöld ríkisins sjálfs, og þessi útgjöld sveitarfélaganna fara vaxandi með ári hverju. Þar sem nú ríkið sjálft, þ. e. löggjafarvaldið, á nokkurn þátt í þessu, eins og ég drap á áðan, væri ekki nema eðlilegt, að það sæi sveitarfélögunum fyrir auknum tekjustofnum til að standast þessar auknu og vaxandi álögur. En það er öðru nær en að svo hafi verið gert. Þvert á móti hefir ríkið, þ. e. löggjafarvaldið, jafnframt því, sem það hefir lagt aukin útgjöld á herðar sveitarfélaganna, svipt þau tekjustofnum, t. d. tíundinni. Auk þess vil ég í þessu sambandi sérstaklega benda á lög um tekju- og eignarskatt frá árinu 1921, þar sem mjög var gengið á þann nær eina tekjustofn sveitarfélaganna, sem þeim allt þangað til var að mestu leyti eftirskilinn. Ég á þar við tekjur og eignir, öðru nafni efni og ástæður, því að þau höfðu þann stofn nálega óskertan áður.

Hv. þdm. munu kannast við það, að enn þykir ýmsum ekki nóg gengið á þennan aðaltekjustofn sveitarfélaganna. .4 ég þar við till. hv. þm. Ísaf., sem fara í þá átt að hækka tekju- og eignarskattinn til ríkissjóðs allverulega. Yrði með því gengið enn nær sveitarfélögunum en nú er gert, því að hér er um að ræða aðaltekjustofn þeirra.

Það er því ekki einungis nauðsynlegt sveitarfélaganna vegna, heldur réttlætismál og bein skylda ríkisins, að sveitarfélögunum sé séð fyrir föstum tekjustofnum fram yfir það, er þau nú hafa. Aðalúrræðið að þessu leyti, sem ég hefi komið auga á. er það, að fasteignir verði gerðar að tekjustofni fyrir sveitarfélögin almennt, þannig að þau fái jafnmiklar tekjur af þessum stofni sein ríkið sjálft. Till. mínar í frv. að þessu leyti þýða þá í raun og veru það, að fasteignaskatturinn sé tvöfaldaður og falli að helmingi til ríkissjóðs og viðkomandi sveitarsjóða. Nokkur sveitarfélög hafa nú þegar tekjur af þessum stofni, en ákvæðin eru mismunandi í hinum ýmsu sveitarfélögum, hvað skatthæðina snertir. En það tel ég með öllu óhæft, að misjafnlega þungur skattur sé lagður á menn eftir því, hvar þeir eru búsettir á landinu.

Þá er annað úrræðið, það, að láta hin ýmsu útgjöld bera sig sjálf — þ. e., að þeir, sem útgjöldin eru stofnuð fyrir, beri þau uppi með því að greiða tilsvarandi gjöld. Þetta er að vísu gert að nokkru leyti nú, en frv. gengur lengra í þessu efni.

Hitt aðalatriði frv. er það, að setja fastar reglur um það, hversu útsvör skuli á lögð, og tillögurnar eru þær, að það skuli vera gert eftir sömu reglum og hluti ríkissjóðs af þessum sama stofni er heimtur.

Að vísu er ekki hægt að tala um fast hlutfall á milli hluta ríkissjóðs annarsvegar og sveitarfélaga hinsvegar, því að hlutföllin breytast nokkuð frá ári til árs. Tekju- og eignarskatturinn sjálfur er nokkuð mismunandi frá ári til árs, og útsvör einnig, en láta mun nærri að meðaltali, að 3/4 gjalda af þessum skattstofnum, tekjum og eignum landsmanna, falli til sveitarfélaga, en 1/4 til ríkissjóðs.

Það leiðir af sjálfu sér, að úr því að nauðsynlegt þykir að setja svo fastar reglur um 1/4 af þessum gjöldum landsmanna, þ. e. þann hlutann, er til ríkissjóðs fellur, þá muni ekki síður þörf á að setja reglur um hina hlutana.

Hingað til hefir engum föstum reglum verið hægt að fylgja um niðurjöfnun útsvara, heldur aðeins svo ákveðið með almennum orðum, að þeim skuli jafnað niður eftir efnum og ástæðum af tilkjörnum nefndum eftir mati þeirra á efnum og ástæðum manna. Ég vil ekki segja, að þessar óákveðnu reglur hafi verið svo mjög óréttmætar, þegar þær voru ákveðnar í upphafi, á meðan þessi gjöld voru lítil. En eftir að þessi gjöld eru komin upp í 3–4 millj. kr. á ári, sýnist óhæfilegt að taka þau svo af handahófi sem nú er gert. Till. frv. til umbóta í þessu efni eru þær, að lögfesta skuli að útsvör skuli heimt eftir sömu reglum og ákveðið er um hluta ríkissjóðs. Reglurnar um álagning tekju- og eignarskattsins eru settar eftir vandlega athugun og hafa ítrekað verið endurskoðaðar. Þar hafa menn lagt saman um að finna sem réttlátastar reglur fyrir hluta ríkissjóðs af þessum skattstofni. Ættu þær reglur líka að geta verið sá réttlátasti grundvöllur fyrir álagningu útsvaranna.

En með því að útsvör eru mjög misjafnlega há í hinum ýmsu héruðum, þá hrekkur tvöfaldur tekju- og eignarskattur ekki — ásamt hinum föstu tekjustofnum — til að bera uppi útgjöldin að öllu, nema aðeins í tveimur sveitarfélögum, sem léttastar hafa byrðarnar í hlutfalli við tekjur og eignir, Reykjavík og Akureyri. Þá er og stungið upp á öðrum dálítið frábrugðnum reglum til að ná því inn, sem á vantar. Má ef til vill segja, að þær reglur séu ekki jafnréttlátar, en það stafar af því, hve hár þessi skattur, útsvörin, er orðinn í hlutfalli við gjaldþol almennins, svo að vart er hægt að koma skipulegum reglum við. En það sýnir þá kannske ljósara en flest annað, hversu gífurlega þungt er lagt á þennan gjaldstofn hér á landi í raun og veru, þó að það hafi verið mörgum dulið til þessa og álitið, að tekju- og eignarskattur til ríkissjóðs væru þau einu gjöld, sem hvíla á þessum stofni. Ég vil heldur ekki segja, að ekki kunni að vera unnt að finna betri leiðir en ég hefi hér bent á.

Þá kem ég að þriðja atriðinu, sem er það, hve misþungt þessi gjöld falla á í hinum ýmsu héruðum. Ég hefi áður reynt að vekja athygli þingsins á þessu, en ekki fengið áheyrn. Ég vil enn vekja athygli á þessu, ef það kynni að geta orðið til þess, að menn færu að gefa þessu atriði meiri gaum og yrðu fúsari til leiðréttingar á þessu misrétti.

Eins og ég hefi þegar sagt og rakið er allítarlega í grg. frv., eru útsvör og tekju- og eignarskattur sami skatturinn. Hvort tveggja hvílir á sama stofninum, tekjum og eignum landsmanna. Hér er aðeins um tvö nöfn að ræða á sama skattinum. Tekju- og eignarskatturinn fellur til ríkisins, en útsvörin til sveitar- og bæjarfélaga. Þegar skatthluti ríkissjóðs hefir verið reiknaður út eftir þeim reglum, sem þar um eru settar, er það mat á því, hversu meta skuli þennan skattstofn til tekna. Þar með er fundin eining, sem hægt er að miða við. Fyrir þessu er gerð nánari grein í grg., og vísa ég til hennar.

Til sönnunar því, hve misþungt útsvörin leggjast á gjaldþol manna í hinum einstöku héruðum, hefi ég gert skrá þá, er fylgir grg. frv.

Það mundi taka of langan tíma, ef ég færi að lesa þessa skýrslu alla, en af því að ég tel rétt, að niðurstöður þessarar skýrslu sjáist einnig í umræðuparti Alþt., hefi ég samið útdrátt, sem ég vil leyfa mér að lesa upp. Skýrslan er þó eigi svo ítarleg, að hún sýni útsvarsþungann í einstökum hreppum, heldur aðeins meðaltal, innan hverrar sýslu. Ég hefi áður hér á Alþingi sýnt mismuninn á milli einstakra hreppa. (BSt: Munurinn verður enn meiri, þegar hrepparnir eru bornir saman). Já, það er rétt.

Ég hefi áður gert grein fyrir því, hvernig ég legg tekju- og eignarskattinn til grundvallar sem einingu fyrir gjaldþolinu. Fyrir hverjar 100 kr. í tekju- og eignarskatt eru goldnar í útsvör:

í Rvík kr. 230

Á Akureyri – 236

— Seyðisf – 538

í Hafnarf – 630

Á Sigluf – 745

Á ísaf – 856

í Vestmannaeyjum – 1571

í Kjósarsýslu (meðaltal) – 523

— Skagafj.sýslu – 838

— Húnavatnss – 996

— Suður-Múlas – 957

— Borgarfj.s – 1117

— Vestur-Skaftafellss – 1114

— Eyjafjarðarsýslu – 1153

— Mýrasýslu – 1357

— Þingeyjarsýslum – 1377

— Gullbringusýslu – 1388

— Rangárvallas – 1390

— Austur-Skaftafellss – 1400

— Múlasýslu – 1454

— Strandasýslu – 1525

— Árnessýslu – 1588

— Dalasýslu – 1640

— Barðastrandas – 1800

— Ísafjarðars – 2067

— Snæfellsnes-

og Hnappadalss. – 3133

Þessi útdráttur sýnir, að útsvörin eru tiltölulega langlægst í Reykjavík og Akureyri af kaupstöðunum, en í Kjósarsýslu af sýslunum.

Samhliða því, sem ég hefi viljað sýna, hve misjafnt er lagt á gjaldþol héraðanna með útsvörunum, hefi ég viljað sýna, hver er höfuðástæðan til þess, og það er hin mismunandi þunga fátækraframfærsla. Að vísu stafa misþungar álögur líka á stundum af mismiklum framkvæmdum til umbóta. Svo mun t. d. vera í Vestmannaeyjum, þar sem bærinn hefir lagt í hafnargerð og aðrar framkvæmdir. En ef kaupstaðir og sýslur eru teknar á sama hátt og áður og athugað, hve þung fátækraframfærslan verður, miðað við hverjar 100 kr. í gjaldþolinu verður útkoman þessi:

Akureyri kr. 50

Rvík – 91

Vestmannaeyjar – 168

Siglufjörður – 171

Seyðisfjörður – 206

Hafnarfjörður – 261

Ísafjörður – 410

Kjósarsýsla – 218

Húnavatnss – 278

Skagafjarðarsýsla – 281

Vestur-Skaftafellss – 329

Austur-Skaftafellss – 350

Suður-Múlasýsla – 375

Mýrasýsla – 429

Eyjafjarðarsýsla – 458

Þingeyjars – 459

Borgarfjarðarsýsla – 508

Barðastrandasýsla – 555

Rangárvallasýsla – 560

Norður-Múlasýsla – 591

Árnessýsla – 635

Dalasýsla – 640

Ísafjarðarsýsla – 767

Strandasýsla – 925

Gullbringusýsla – 1069

Snæfells- og

Hnappadalss. – 1167

Þessi útdráttur sýnir, að fátækraframfærslan er tiltölulega langlægst á Akureyri, þá í Rvík, Vestm.eyjum, Sigluf., Seyðisf., en af sýslunum einnig í Kjósarsýslu o. s. frv.

Í síðasta dálki skýrslunnar hefi ég með hlutfallstölum borið saman gjaldþol hinna einstöku héraða. En um það vísa ég til skýrslunnar, til að þreyta ekki hv. þdm. með fleiri tölum.

Ég hefi með frv. og grg. þess haft þann aukatilgang, að vekja athygli á því, hversu þessum málum er komið, til að reyna að fá þingið til að gefa þeim meiri gaum og reyna að vekja vilja þingsins til að ráða bót á þeim. — Legg ég til, að frv. verði, að þessari umr. lokinni, vísað til allshn.