13.03.1931
Neðri deild: 23. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í C-deild Alþingistíðinda. (1964)

117. mál, útsvör

Hannes Jónsson:

Í áframhaldi af því, sem hv. 2. þm. Eyf. sagði, vil ég geta þess, að eitt af því, sem mælir með að jarðeigendur, sem eiga heima utan sveitarfélags, greiði þangað sem jörðin er, er það, að útgjöld til sýslusjóða miðast við fasteignir í hreppnum; þess vegna er ekki nema réttmætt, að hlutaðeigandi jarðeigendur borgi eitthvert gjald til sveitarfélagsins. (PO: Það byggist á afnotum jarðarinnar).

Hv. 1. þm. Skagf. hélt því fram, að það væri af slælegri framkvæmd útsvarslaganna, ef mönnum héldist uppi að létta af sér útsvarsgreiðslu með því að telja heimili sitt annarsstaðar en þeir í raun og veru búa. Ég veit reyndar ekki, á hverju þetta byggist, því að ákvæði laganna eru nokkuð skýr. En ef svona yrði lítið á af dómstólunum, þá yrði hættan minni en ég hefði haldið.

Þó sýnist mér rétt, að svo verði gengið frá lögunum, að ekki orkaði tvímælis um þennan skilning á þeim, og með því útiloka deilur og málaþras, sem annars kann upp að koma vegna mismunandi skilnings á lögunum.