21.03.1931
Neðri deild: 30. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í C-deild Alþingistíðinda. (1996)

122. mál, útflutningur á nýjum fiski

Gunnar Sigurðsson [óyfirl.]:

Það er ekki efi á því, að þetta mál, sem nú er til umr., er eitt af stærstu málunum, sem liggja fyrir þessari hv. deild. Þetta spursmál um það, hvort það geti verið svo í framtíðinni, að sjávarútvegurinn beri uppi ríkissjóð, eins og allir vita að hann hefir gert hingað til. Ég er ekki í efa um, að þetta frv. er spor í rétta átt, en eins og hv. flm. tók fram, eru líka til fleiri leiðir, sem hann og tók vinsamlega í að athuga, og þess vegna er ég staðinn upp, þó að sjálfsagt séu hér margir fagmenn á þessu sviði frekar en ég. Ég hefi lengi verið sannfærður um, að of lítið hefir verið gert til þess að losna við að eiga eingöngu undir þessum þremur löndum um kaup á íslenzkum fiski. Við skyldum hafa séð, hvar við værum staddir, ef uppreisn hefði orðið á Spáni, eins og nærri lá og enginn fiskur hefði flutzt þangað. Ég sé ekki betur en að þá lægi fyrir algert hrun. Ég er viss um það, að á þessu sviði eins og öðrum, og sérstaklega á þessu sviði, er lagt allt of lítið fé fram til markaðsleita, og ekki nógu snemma athugað að losna við að eiga svona bundið við þessi lönd, sem þegar eru nefnd: Spán, Portúgal og Ítalíu, því það er, eins og þeim báðum, sem talað hafa í málinu, hv. flm. og hv. 2. þm. G.-K., hefir borið saman um, að það er neyðarúrræði að draga úr framleiðslunni, og ég ætla, að allir, hvaða flokki sem þeir annars tilheyra, geti verið sammála um það, að það er alvarlegasta sporið, sem komið getur fyrir íslenzku þjóðina, að verulega gangi aftur á bak fyrir útgerðinni. Ég býst einnig við, að ef hægt verður að koma nýjum fiski á markað, þá verði líka lausn á því, sem svo lengi hefir gengið til, að togarar verða að kasta miklu af fiski fyrir borð; t. d. get ég nefnt karfann, sem er ágætur til matar, honum er alltaf kastað fyrir borð.

Það er ein lausn á málinu, sem hv. flm. minntist á að lægi nú fyrir þinginu, að fá erlend félög til að ganga í málið og kaupa fisk. En sumir munu álíta, að ekki megi koma erlent fé inn í landið, nema lánsfé, en það er auðvitað hættulegasta tegundin. Ég sé ekkert á móti því, að tilraunir séu gerðar í þá átt, sem hv. flm. fer fram á. Ég sé ekki eftir, þótt látið sé fé af mörkum úr ríkissjóði til þessa, og að ekki mætti athuga að komast í samband við erlend félög, sem vildu kaupa fisk. Þau hafa það, sem okkur vantar, veltufé, viðskiptamenn og reynslu. Einstaklingsframtakið, sem hv. 2. þm. G.-K. talaði um, getur náttúrlega verið gott, en hér hefir það verkað seint, seinna heldur en æskilegt hefði verið, því ég veit, að enginn þm. efast um, að nauðsynlegt sé að reyna að hrinda þessu máli fram sem allra fyrst. Nú er farið að selja töluvert af frosnum fiski til Miðjarðarhafslandanna, og þá mundi siður hafa borið á vandkvæðum, sem komið hafa af því, hve verðið féll snögglega á Spáni. Og það er ekki svo lítið atriði. Ég hefi litla trú á gróða í byrjun á þessari tilraun, sem þegar er verið að gera og verður gerð. En allir, sem erlendis hafa verið, vita, hve mikill munur er á fiskverðinu þar og hér, t. d. í Þýzkalandi. Það er ekki einasta verðmunurinn, heldur líka gæðamunurinn, svo að þegar Íslendingar koma þangað, fá þeir dýran fisk, sem þeim finnst óætur. En það, sem ég vildi leggja áherzlu á, er að hafa augun opin fyrir, að gerðar verði tilraunir í þá átt, sem frv. fer fram á, að leita að möguleikum til að koma á samböndum við erlend félög, sem vilja taka slíkt að sér, því þau hafa þetta þrennt, sem ég hefi minnzt á: Þekkingu, veltufé og markað.