17.03.1931
Neðri deild: 26. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í C-deild Alþingistíðinda. (2070)

145. mál, einkasala á síld

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Út af því, sem hv. þm. Ísaf. hélt fram um hagsmunamótsetning sjómanna og útgerðarmanna, skal ég minna hann á það, að till. um niðurlagning síldareinkasölunnar var lesin upp á fjölmennum fundi vestra, og þar kom það berlega fram, að útgerðarmenn og sjómenn töldu sig hafa sameiginlega hagsmuni af niðurlagning Einkasölunnar. Hinsvegar var á það bent, og réttilega, að hagsmunir verkamanna í landi, þeirra er ynnu að verkun síldarinnar, væru andstæðir hagsmunum sjómanna og útgerðarmanna, og var í því sambandi sérstaklega bent á hið gífurlega kaupgjald í landi og hin löngu vinnuhlé, sem verkafólkið þar hefði.

Í sambandi við það, sem sagt hefir verið um saltfisksöluna, þá skal ég geta þess, að norskur fiskur er stundum í hærra verði á Spáni en okkar fiskur, en orsakir þess eru þær, að okkar fiskur er smærri en sá norski, því að í Noregi er látið þetta 24–26 og mest 28 fiskar í pakka, en hér eru ekki færri en 32–35 fiskar látnir í pakka. Það er einnig eftirtektarvert, að norskir sjómenn bera minna úr býtum fyrir sama afla af fiski en við Íslendingar, en hinsvegar meira fyrir sama afla af síld, en þetta sýnir betra fyrirkomulag á síldarsölunni hjá Norðmönnum en hjá okkur.