18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

65. mál, kirkjuráð

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Mér þykir það mjög leiðinlegt, að minn kæri vinur, hv. þm. Barð., skuli ekki taka mildara á þessu máli en raun bar vitni. En ég vona samt, að hans góða hjarta muni snúast síðar á sveif með okkur, sem erum þessu máli fylgjandi.

Hv. þm. Barð. sagði, að ég hefði ekki lagt mig mikið fram eða fylgzt með störfum hv. deildar í vetur. Þetta er rétt að nokkru leyti, enda hefi ég verið mjög bundinn við þá hv. deild, sem ég á atkvæðisrétt í.

Viðvíkjandi gagnrýni hv. þm. Barð., þá er það rétt, að þessi nýbreytni myndi kosta ofurlítið. En ég geri ráð fyrir því, að það myndu aðallega vera menn búsettir í Reykjavík eða nágrenni, sem yrðu kosnir í ráðið. Um einn þeirra, biskup, er það vitanlegt, að hann er búsettur í Reykjavík. Og þótt þetta sé ekki tekið fram í frv., þá er ég viss um það, að prestar, sem eru venjulega mjög sparsamir, færu ekki að kjósa prest, sem ætti heima t. d. á Norð-austurlandi, í ráðið.

En aðaltilgangurinn með frv. er sá, að gefa prestum þjóðkirkjunnar verksvið til þess að taka skipulagsbundið á málum sínum. Hefir frv. og náð hylli presta, og hafa um 75 prestar skrifað mér og óskað eftir því, að frv. næði fram að ganga.

Það er rétt, að ekki er hægt að segja svo glögglega um það fyrirfram, að hve miklu liði frv. þetta muni verða. En þeir, sem sömdu frv., hafa haft mikla trú á því, að það myndi styrkja þjóðkirkjuna á ýmsan hátt ef prestar hennar hefðu tækifæri til að taka á málefnum sínum á skipulagsbundinn hátt.

Það hlýtur þó hv. þm. Barð. að vita og viðurkenna, að prestar hafa lægri laun og öðruvísi lífskjör að ýmsu leyti en aðrar stéttir, sem orðið hafa að leggja á sig jafnlanga skólagöngu. Og það er eftirtektarvert, að prestarnir eru eina launastéttin, sem ekki hefir reynt að fá bætt kjör sín með stéttarsamtökum.

Stéttarsamtök geta auðvitað verið nauðsynleg, þótt þau séu oft erfið þjóðfélaginu. Og ef þingið óskar ekki að fá hnífinn á hálsinn, eða ef það vill gjarnan, að stéttirnar knýi ekki fram laun sín með harðræði, þá er ekki viðeigandi að taka illa kröfum prestanna, enda eru þeir orðnir langþreyttir á því að búa við ill kjör. Ég álit, að það kirkjulega sjálfstæði, sem farið er fram á með frv., sé hóflega stigið spor af prestanna hálfu og líklegt til þess að styrkja þá í starfi sínu.

Auðvitað er það sjálfsagt, að ríkið hafi hið æðsta úrskurðarvald í málefnum kirkjunnar, meðan hún er þjóðkirkja. En þó að kirkjunni sé gefið nokkurt aukið sjálfstæði með þessu frv., þá þarf samt enginn að hafa á móti því vegna þess, að það gefi henni of mikið frjálsræði.