08.04.1931
Neðri deild: 41. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (326)

123. mál, dragnótaveiðar

Benedikt Sveinsson [frh.]:

Þar mun máli mínu hafa verið komið í gær, að ég var að sýna, að í raun og veru hefðu engar óskir komið frá landsmönnum í þá átt, að farið væri fram á rýmkun á leyfi til dragnótaveiða, nema frá nokkrum mönnum í aðeins einum hreppi, Keflavíkurhreppi. Aðrar óskir í þessu efni hafa ekki legið hér fyrir, þegar þetta mál hefir verið fyrir deildinni.

Hv. flm. hélt því fram, að fjarstæða væri að telja samband milli þess að leyfa dragnótaveiði innan landhelgilinunnar og þess að friða Faxaflóa. En það að friða Faxaflóa, er ekki einungis mal, sem varðar Íslendinga sjálfa, heldur einnig Englendinga og fleiri þjóðir, svo sem ég vitnaði til í ræðu minni í gær. Það hefir komið fram fyrir skemmstu í ensku blaði, sem heitir „Fishing News“ og er gefið at í Aberdeen, að nauðsyn væri að friða flóa við Ísland, einkanlega Breiðafjörð, vegna þess, hversu heilagfiski hefði gengið til þurrðar umhverfis landið síðustu áratugi. Ég skil ekki annað en að jafngáfaður maður og hv. flm. sjái, að samband er á milli þessara tveggja atriða. Til hvers væri að friða fiskinn á Faxaflóa eða Breiðafirði fyrir botnvörpuskipum, ef svo ætti að leyfa að drepa kola og annan flatfisk á sömu slóðum, og meira að segja innan landhelgi, með áþekkum veiðarfærum? — Þetta er svo augljóst, að hver maður hlýtur að skilja það, og þar sem hv. þm. Borgf. lýsti þessu með svo skorpum orðum og ljósum rökum í gær, þá þarf ég ekki að hafa lengra mál um það. Væri það nokkuð undarlegt, ef Englendingar vildu fleygja frá sér þeim rétti, sem þeir hafa að alþjóðalögum til að veiða fisk á fjörðum þessum utan landhelgi, jafnframt því, sem íslendingum og tveimur eða þremur öðrum þjóðum væri leyfilegt að skarka að vild sinni með veiðnustu morðtækjum innan landhelgilínunnar.

Hv. þm. hneykslaðist á því, að ég sagði, að þjóðirnar mundu skipa sér niður á miðin eftir því, hverja veiði þær stunduðu, en þetta er þó einmitt það, sem þær gera. Um Dani er það kunnugt, að þeir eru sérstakir snillingar að veiða kola á sandi og leirum í fjarðarbotnum. — Færeyingar stunda mest færafiski á grunnmiðum, utan og innan landhelgi. Íslendingum finnst það ekki borga sig lengur að fast við víkurveiðar með nót eða færi, þó að þeir hafi reynt það, en telja sér betra og gróðavænlegra að sækja á djúpmiðin. Hví skyldu þessar þjóðir ekki raða sér á miðin eftir því, sem þær álíta sér bezt og hagfelldast? — Það liggur í hlutarins eðli, að þær gera það.

Hv. flm. kannaðist við, að útlendingar — það er að segja Danir og Færeyingar — stæðu hér betur að vígi en íslendingar, af því að þeir þyrftu ekki að reiða útflutningsgjald af afla sínum, en Íslendingar verða aftur að greiða mikið fé í útflutningsgjald, jafnt þótt þeir séu ekki að veiðum innan landhelgi. — þetta er mikill aðstöðumunur, og þar að auki eru öll önnur gjöld, sem hvíla á útvegi Íslendinga, en koma ekki niður á þeim erlendu mönnum, sem hér hafa verið að veiðum að undanförnu. Nýlega kom í dönsku blaði hrottaleg skammagrein til Íslendinga út af því, að kolaveiðari, sem kom hér inn á höfn, hefði orðið að greiða eitthvað 140 kr. í ýmisleg gjöld. Þar var sagt, að þetta sýndi yfirgang og frekju Íslendinga. —

Hv. flm. sagði, að Danir þyrftu að setja hér á landi stöðvar, því að þá fengju Íslendingar útflutningsgjald af þeim kola, sem þeir veiddu. — Já, auðvitað mundum ver fá útflutningsgjald, en það mundi verða til þess, að kolinn yrði algerlega upprættur hér, ef Danir færu að setja hér fastastöðvar í landi til kolaveiða í landhelgi. — Megum ver sízt fara að kjassa útlendinga til þess að setja upp stöðvar hér í landi voru til að uppræta fiskinn innan landhelginnar.

Hv. flm. og þeir fáu, sem fylgja honum að málum, halda, að hér sé verið að taka hlunnindi frá Íslendingum, sem séu rétt við bæjardyrnar, eins og þeir orða það. En ef þetta er rétt við bæjardyrnar, þá er með þessu verið að hleypa útlendingum heim að bæjardyrum til að taka veiðina þar, beinlínis verið að bjóða þeim heim í hlaðvarpann til fanga. —

Því verður eigi með sanni neitað, að hérlendir menn hafa til þessa haft hlunnindi af kolaveiði heima við bæjarvegginn, því að kauptúnin hafa hagnað af þessari veiði til matar og jafnvel til sölu. í Hafnarfirði hefir það lengi verið mikið bjargræði fátækum mönnum að veiða þar kola í soðið. Sama er að segja um fleiri staði, t. d. Húsavík, Þórshöfn og Vopnafjörð. Þetta er allt eyðilagt, ef nú á að fara að „trolla upp við kálgarð“ hjá landsbúum, eins og þeir orða það „ömmufrændur“ við Faxaflóa.

Hv. flm. helt einnig fram, að engin ástæða væri að óttast, að kolinn gengi til þurrðar innan landhelgi eða utan. En það hlýtur að vera öllum ljóst, þ. á m. hv. flm., að ef kolinn á hvergi griðastað, utan eða innan landhelgi, þá verður honum erfitt uppdráttar. Að uppvöxtur hans verði meiri, ef vér hleypum inn í landhelgina til viðbótar tveimur öðrum veiðiþjóðum til að veiða þar með þessum liðlegu og ódýru, en þó fengsælu veiðitækjum, það er mér hulinn leyndardómur, hvernig megi verða. En mér skildist það á hv. flm. og hv. 3. þm. Reykv., að það þyrfti að drepa kolann svo að um munaði til þess að fá mikinn kolastofn við landið! Annars hélt ég, að ekki væri svo mikið af kolanum enn hér við land, að hann sé farinn að éta sig sjálfan, svo að þess vegna þyrfti að drepa hann sem snarast, svo að það stæði ekki kynstofni hans fyrir þrifum. (HG: Alveg laukrétt!). Já, það er allt rétt, sem ég hefi sagt um þetta.

Þá vil ég lítið eitt snúa máli mínu til hv. 3. þm. Reykv. Hann hefir nú sem oft áður talað um þetta mál og hefir nú sem fyrr haldið þennan gamla fyrirlestur, hvað þröngsýnir og bölsýnir íslendingar hafi verið gegn öllum hagsmunamálum og með meinbægni gegn öllum, og að þeir vildu ekki unna öðrum gagns af því, sem þeir gætu ekki hagnýtt sér sjálfir. Mig undrar það, að hann skuli enn vera hér að flytja þessar gömlu kenningar sínar. Hann er nú að vísu farinn að sleppa nokkrum kafla úr þessari ræðu sinni, og vona ég, að þetta verði í síðasta sinn, sem hann flytur hér í deildinni nokkuð af því gamla og úrelta hjali. Eins og nokkur neiti því, að hér sem annarsstaðar hafi sumar ráðstafanir verið gerðar af fáfræði og að vér eigum ekki að leggja niður alla hagnýtingu, þó að henni hafi einhverntíma verið misbeitt ! Hér sannast hið fornkveðna, að sá, sem sannar of mikið, hann sannar ekki neitt. Hér er ekki verið að setja skorður við því, að vér megum veiða með lóðum og netjum eins og gert hefir verið áður, heldur er hér að ræða um veiðarfæri, sem útlendingar einir nota, mestmegnis, til ómetanlegs tjóns landsmönnum.

Hv. þm. var að segja nokkra drætti úr æfisögu þorsksins og sagði, að þegar hann kæmi inn fyrir Garðskaga, þá gerði hann mönnum stundum þann óleik að leggja krók á hala sinn og halda vestur í Jökuldjúp. Ég er ekki svo kunnugur hugarfari þorsksins, að ég viti til, að hann hugsi réttara en hvert annað dýr. Ég gæti fremur hugsað, að hann samkv. eðli sínu væri að elta eitthvert æti, t. d. loðnu. Kolinn er aftur á móti miklu hægferðugri. Hann liggur við botninn og „gengur eftir skipulagsbundnari áætlunum“, svo að ég tali reglulegt menntamál. En svo að ég sleppi nú þessum kenningum, þá þótti mér einkennilegt, hverja tröllatrú þessi góði þm. hefir á því, að þessar kolaveiðar verði nú helzta bjargræði Íslendinga út úr þessu svartsýnisöngþveiti, sem enginn sjái nú út yfir. Þessi opnun landhelgi fyrir dragnótaveiði á nú að verða bjargvættur Íslendinga. — Hann segir, að afkoma þjóðarinnar velti mjög á því, hvernig þessu frv. verður tekið. Hann segir, að stórmikil auðæfi séu af landsmönnum höfð með því að leggja hömlur á veiðina. En hvað er langt síðan það var gert? Það eru þrú ár. Íslendingar hafa því haft tímann frá upphafi Íslandsbyggðar og fram á mitt sumar 1928 til þess að moka upp þessum dæmalausu auðæfum. En ég veit ekki til, að þeir hafi auðgazt svo mikið á því. Þeir hafa reynt þessa veiðiaðferð og það ekki svo lítið. En þeir hafa beðið af henni einbert tjón og guggnað. Þessi veiði hefir því ekki verið almennt notuð. Danir stunduðu þessa veiði aftur á móti um nokkurra ára skeið fyrir Vestfjörðum, en kolinn varð bratt upprættur og þá fór allt á hausinn. Og þetta er þá sá Kína-lífselixír, sem á að bjarga allri þjóðinni. Ef Íslendingar líta á þetta sem sitt eina bjargræði, þá má nærri geta, hver hagur þeirra verður.

Á þessum veiðum voru alls engin höft fyrr en 1923, þegar friðaður var Hafnaleir fyrir utan Skaga. Og þó að þetta litla svæði væri friðað, þá var samt eftir nóg svigrúm til að grípa þetta gull.

Þegar þessa er gætt, kemur það berlega fram, að þetta tal hv. þm. er ekkert nema draumórar út í loftið, — um þessa veiði sem mikilvægan þátt í atvinnulífi þjóðarinnar. Það er svo barnalegt, að ég er alveg hissa á því. Nei, hv. þm. er miklu óhættara að treysta sínum gamla kunningja, þorskinum, til þess að auðga og farsæla þessa þjóð.

Hv. þm. hefir oft talað um það, að óhæft væri, að útlendingar veiddu þennan verðmæta fisk hér við land an þess að Íslendingar tækju sjálfir þátt í þeirri veiði. Íslendingar veiða mikið utan landhelgi. En hvers vegna veiða þeir þá ekki eins innan landhelgi þennan dýra fisk, meðan það er heimilt að lögum? Því hefir verið svarað áður. Það er af því, að þeir standa öðrum framar við þorskveiði, en standa öðrum að baki við kolaveiði. Og hvers vegna? Af því að þeim þykir þorskveiðin borga sig

betur. Það má nærri geta, hvort Íslendingar mundu ekki kosta kapps um að veiða kolann, ef þeir heldu, að sú veiði borgaði sig betur. Ég hefði gaman af að fá skýringu á þessu hjá hv. þm.

Út af Berufirði og Reyðarfirði eru kolamið, sem heita „út af Hvítingunum“. Liggja þau utan landhelgi. Englendingar sópa mið þessi á hverju hausti, með ágætum árangri, en þar sést enginn íslendingur, ekki einn einasti. Má af þessu ráða, að þeir séu ekki jafnáfjáðir í þessa veiði og Englendingar, og þó eru þeir þarna jafnvígir Englendingum. þeir mundu því áreiðanlega leggja stund á þá veiði, ef þeim þætti hún borga sig.

Ég man ekki, hvort ég tók það fram í gær, en ég skal þá geta þess nú, að einn af mestu veiðimönnum hér við land, sem hefir veitt með allskonar veiðitækjum, hefir sagt mér, að af öllum veiðitækjum væri vandfarnast með dragnót, — það kostaði mesta nákvæmni og mesta þekkingu á réttum aðferðum, miklu fremur en botnvarpa, lagnet og reknet. Hv. þm. vilja nú, að leyfi til að veiða með dragnót sé rýmkað og svo þjóti Íslendingar til og hjálpi útlendingum um að uppræta allan kola úr landhelginni. En það kemur aldrei til þessa. Íslendingar kunna ekki vel að fara með dragnót, og útlendingar hefðu því upprætt allan kola, áður en Íslendingar gætu náð í nokkuð til drátta af honum. Reynslan sjálf segir þetta. Svona var það fyrir Vestfjörðum, og svona var það úti fyrir Aðalvík. Á þessum tveimur miðum hefir kolinn verið svo upp urinn, að þar er ekki nokkur skepna eftir, og svona verður það alstaðar, ef svo mikið á að stunda þessa veiði sem hv. þm. vill.

Hv. þm. sagði í öðru orðinu, að Íslendingar gætu veitt kolann móts við aðrar þjóðir alveg eins og þorskinn. Hversvegna gera þeir það þá ekki? Svo sagði hann, að oss vantaði skipaflota. Það getur verið, að oss vanti hann einmitt til þessara hluta. Ætli vér yrðum ekki nokkuð aftarlega í kolaveiðinni, þar sem útlendingar, sem kunna þessa veiði til fullnustu, bíða nú eftir löggjöf um, að þeim skuli verða hleypt í landhelgina, en þá verðum vér, sem kunnum þessa veiði miklu miður, að fara að kría út lán til að smíða skip. sér hv. þm. ekki, að þetta nær engri átt?

Það er rangt, sem hv. þm. sagði, að Íslendinga vantaði manntak í þessu efni. Þeir hafa þekkt kolann eins og annan fisk og hagnýtt sér hann eftir því sem þeim hefir þótt gagnlegt. Það er ekki fyrir manntaksleysi, að menn hafa ekki tekið upp á að rífa bæði hann og smálúðu úr landhelginni. Þeir hafa séð og skilið, að það gengur ekki til lengdar að drepa ungfiskinn innan landhelgilínunnar svo mikið sem mögulegt er.

Hv. þm. sagði, að það væri of seint að fara að veiða kolann núi, því að Englendingar hefðu að mestu lokið við hann. Þetta rekur sig ónotalega á það, sem hann sagði áður, að engin hætta væri á, að kolinn gengi til þurrðar. Það getur tæplega verið, að þessi þriggja ára friðun hafi alveg upprætt hann, eins og ætti að vera eftir rökum þessa hv. þm.

Hv. þm. sagði, að sjómenn ættu að vera blóðþyrstir við fiskinn. Eiga menn þá ekki að vera líka blóðþyrstir við laxinn í ánum? Eiga menn þá ekki að fara með einhverja dragnót í árnar og skafa upp það, sem þar er til af þessum dýra fiski? Hann verður annars kannske ellidauður. Það getur verið, að einhver Englendingur nái í hann, ef hann nær að ganga til sjávar! — Nei, mönnum hefir fundizt réttara að hafa þennan dýra fisk friðaðan nema þrjá mánuði á ári. En hv. þm. er svo grimmur orðinn, að hann vill ekkert nema „drepa, drepa“.

Þá minntist hv. þm. á hvalveiðina og Norðmenn. Hann sagði, að það væri hart, að íslendingar hefðu látið þau auðæfi ganga úr greipum sér. Það, sem aftraði Íslendingum frá þeirri veiði á 19. öld, var aðeins fátækt og kunnáttuleysi. En þó að hvalveiði sé jafnmikil nú sem áður, þá er það engin sönnun þess, að hvalurinn gangi ekki til þurrðar, heldur eru þá aðeins leituð upp ný veiðimið, þegar önnur þrotna. En þá fer svo, að eftir stuttan tíma verða allir hvalir drepnir, nema friðun verði sett.

Það mun vera svo í þessu máli sem öðrum, að reynslan er ólygnust. Ég held, að menn, sem aldir eru upp við sjó frá barnsaldri og eru nú komnir á efri ár, hafi eins vel vit á þessu eins og þessir útlærðu sérfræðingar, sem einir þykjast hafa vit á öllu, þó að þeir hafi aldrei kynnzt dýraríkinu sjálfu nema af bókum.

Ég hefi hér stutta greinargerð um kolaveiði í Þistilfirði, hvernig henni hefir verið hagað og hvernig þeim málum er komið nú. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa þessa grg. upp:

„Fyrir einum mannsaldri voru allir firðir hér fullir af smálúðu, ýsu og fleiri fiskitegundum. Höfðu bændur með ströndum fram mjög mikla björg af því að leggja lóðarspotta í fjöruna og veiða lúðu og fleiri fiska í soðið handa sér og nágrönnum sínum.

Um 1890 komu svo enskir togarar og sópuðu svo fjarðarbotnana, að engu kvikindi var þar vært. Á stríðsárunum hurfu togararnir og ungviðið fór aftur að þróast í næði í landhelginni og menn fóru aftur að stunda lóðaveiði á fjörðum inni með góðum árangri, svo yfir smáhafnirnar varð gnægð af smálúðu til soðningar þeim, sem við sjóinn bjuggu.

Vegna aukinna landhelgisvarna hafa togararnir ekki gert skaða þessi seinustu ár, en aftur er kominn annar ófögnuður í staðinn; Það eru dragnótaskipin, og hafa þau svo rækilega sópað landhelgina, að lúða sest nú ekki, og varla fæst í soðið af öðrum fiski, nema sækja það á haf út.

Er þetta vitaskuld afarmikið tjón fyrir þá, sem við sjóinn búa, að geta ekki fengið soðningu nema með ærnum tilkostnaði, og frá fjárhagslegu sjónarmiði alveg ófært, að sú mikla uppeldisstöð, landhelgin, skuli þannig eyðilögð af útlendingum.

Á almennum sveitarfundum í Sauðanes- og Svalbarðshreppi hefir verið skorað á hreppsnefndirnar að beitast fyrir því, að fá landhelgina friðaða fyrir þessari veiðiaðferð.

Vér leyfum oss því hér með að snúa oss til hins háa atvinnumálaráðuneytis og óskum og krefjumst þess, að ráðuneytið banni algerlega dragnótaveiði í landhelgi þessara hreppa, samkv. 8. gr. laga nr. 55 frá 7. maí 1928 um dragnótaveiði“.

Þetta bréf er ritað síðastl. haust og er undirritað af oddvitum þessara hreppa. Þeir eru aldir upp við Þistilfjörð og þessu máli gagnkunnugir, og því rétt að líta á, hvað þeir telja að rétt sé í þessum efnum.

Ég get svo látið útrætt um þetta mál, enda mæla þingsköp svo fyrir, að hver þm. tali eigi oftar en tvisvar sinnum. Ég er ekki hræddur um, þó að aðrir standi upp og tali af sinni miklu þekkingu á málinu, að þeir fái snúið nokkrum manni á sína sveif í þessu efni.