07.03.1931
Efri deild: 18. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

29. mál, utanfararstyrkur presta

Erlingur Friðjónsson:

Mér þykir nokkuð undarlegt, að hv. síðasti ræðumaður skyldi nú fyrst taka til máls, þegar hv. flm. brtt. er búinn að tala sig dauðan. Það er ekki þinglegt. Ég hefði ekki tekið til máls nú, ef þessi hv. þm. hefði ekki hagað sér svona. En fyrst ég stóð upp, þá vil ég gera grein fyrir minni afstöðu til þessara brtt. Ég skil vel tilgang þess að fá lög, sem ákveða prestunum styrk til utanfara. það er aðallega tvennt, sem prestar mundu vinna við það, Fyrst og fremst hafa þeir, á meðan þessi lög gilda, vissu fyrir utanfararstyrk, og í öðru lagi föst ákvæði um, hvernig þessum styrk skuli varið, hve langan tíma utanferðin skuli taka og hvernig þeir eigi að fara með þá menntun, sem þeir fá í utanförinni, þegar heim er komið. En eins og kunnugt er, þá er það ekki tekið fram í fjárl., eða a. m. k. ekki ýtarlega, hvernig fara skuli með styrki þá, sem þar eru veittir.

En það er annað, sem gerir mig hikandi við að fylgja þessu frv., að þessar utanfarir prestanna muni ekki geta orðið að neinu gagni, þar sem prestar hér á landi eru um 100, en aðeins 2–5 eiga að fá styrkinn árlega. Þá gætu þeir allir ekki farið utan á skemmri tíma en 20–50 árum. Hér getur því varla verið um miklar umbætur að ræða, hvorki fyrir prestana né þjóðina í heild sinni.

Vegna þess að lítil von virðist til þess, að mikið verði í aðra hönd, þó að frv. verði samþ., og í öðru lagi hætt við, að fleiri embættismenn kæmu á eftir, sem vildu fá svipuð hlunnindi, þá var ég hikandi við 2. umr., hvort ég ætti að vera með frv. eða ekki. Ég býst þó við að verða fylgjandi sumum þeim breyt., sem sessunautur minn, hv. 2. landsk., hefir lagt fram, því að þær eru til bóta að mínu áliti, a. m. k. fyrir ríkissjóð.