12.03.1931
Efri deild: 22. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í D-deild Alþingistíðinda. (571)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Frsm. minni hl. (Ingvar Pálmason):

Ég þarf ekki miklu að svara hv. þm. Snæf. Það er rétt, sem hann sagði, að læknar eru í 15 ár að komast upp í hámark launataxtans, en það er rangt, að prestar séu komnir upp í hámarkið eftir 10 ár, enda játaði hann það á eftir. Ég held því, að við höfum báðir lesið þetta álíka fljótlega yfir.

Hv. þm. taldi þau dæmi, sem ég kom með, villandi. Ég get ekki gert að því, þótt hv. þm. finnist það; ég tók dæmin beint út úr veruleikanum, dæmi, sem ég þekki sjálfur. Svona er útkoman hjá héraðslækninum og prestinum þar, sem ég þekki vel til, og það getur ekki talizt villandi, þó að dæmin séu tekin svona út úr bláköldum veruleikanum. Það hefir engin tilraun verið gerð til að sýna, hvernig þetta kæmi niður á embættismönnum yfirleitt. Það er ekki hægt að ætlast til, að þm. geti unnið svo mikið starf í hjáverkum, til þess þarf aðstoð þeirra manna, sem hafa betri gögn í höndum en þm. geta haft.

Hv. þm. sagði, að lagt launaðan embættismann munaði meira um 300–400 kr. launaviðbót en hátt launaðan embættismann munaði um að fá 500 kr. Ég veit ekki vel, hvernig á að fá það út. 500 kr. er þó meira fé en 300 kr., hver sem hefir það með höndum. Það væri víst helzt að skilja þetta á þann hátt, að þeir, sem lág hafa launin, verði að sýna svo mikla sparsemi, að í raun og veru verði þeim meira úr þessari lágu upphæð heldur en þeim, sem hærri hafa launin, verður úr talsvert hærri upphæð.

Hv. þm. Snæf. var að ámæla mér fyrir, að ég væri á móti till. og kæmi ekki með neitt í staðinn. En það er vegna þess, eins og ég hefi áður tekið fram, að ég álít, að slíkar till. eigi ekki að koma fyrr en launalög embættismanna verða tekin til endurskoðunar. En ég tel ómögulegt að sjóða neitt það upp úr þessari till., sem frambærilegt væri. Auk þess eru til fleiri leiðir. Það mætti t. d. veita í fjárlögunum einhverja upphæð þeim til launabóta, sem lægst laun hafa.

Ef hér er aðeins um tvennt að ræða, fella till. eða samþ. hana, þá legg ég á móti henni. Það stendur hvort sem er opið að koma með till. til bóta, þegar þar að kemur, að farið verður að ræða um framlengingu á lögum um dýrtíðaruppbót. Ég sé ekki heldur, að hægt sé að skylda neinn til að vera annaðhvort með till. eða koma með brtt. við hana. Þetta má ekki ræða af kappi eða hita, heldur verður að íhuga rólega, hvaða úrræði verði vænlegust bæði fyrir ríkissjóð og þá, sem launahækkunar þurfa með.