12.03.1931
Efri deild: 22. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í D-deild Alþingistíðinda. (573)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Jón Jónsson:

Það var ekki lítill völlur á hv. frsm. meiri hl., þar sem hann var að ógna stj. með landsdómi. Það var reyndar ekki að undra, þó að hann liti talsvert á sig, þar sem hann hefir hnýtt einum aðalforkólfi Íhaldsins aftan í sig. Hann skilaði frá honum ástæðunum fyrir því, að hann álíti rétt, að kaupgjald opinberra starfsmanna hækki frá því, sem það var 1928. Út af þessu langar mig til að spyrja hv. 1. landsk. að öðru, sem ekki skiptir minna máli, sem sé, hvort hann álíti ekki, að þrátt fyrir þessa hækkun á launum embættismanna sé samt ekki nauðsynlegt vegna atvinnuveganna, að kaupgjald fremur lækki heldur en hitt, og hvort honum finnist samræmi í því, að á sama tíma og farið er fram á, að kaupgjald lækki, sé verið að hækka kaup starfsmanna ríkisins, en það er gert, ef þessi till. verður samþ. Það verður hærra vegna þess, að því verður ekki mótmælt, hvort sem grundvöllurinn fyrir dýrtíðaruppbótinni er réttur eða ekki, að dýrtíðin hefir minnkað. Svo kom eitt það fram, sem ég vissi ekki við fyrri hluta þessarar umr., að samkv. útreikningi hagstofunnar hefir dýrtíðin minnkað síðan um áramót um 5¼ á einum mán., og það er ekki svo lítið. Það er því enn ein sönnun fyrir því, að nú er minni þörf en áður til að hækka launin, en það er óneitanlega gert, ef þessi till. verður samþ.

Mig langar til að fá að heyra álit hv. 1. landsk. um þetta. Ég geri ráð fyrir, að hann telji þörf á, að kaupgjald lækki, hvort sem hann nú segir það hreint út eða ekki. En það er einkennileg aðstaða að vilja hækka laun opinberra starfsmanna á sama tíma og álitið er, að almennt kaupgjald þurfi að lækka.

Ég held, að opinber launakjör séu yfirleitt ekkert hneykslanlega lág hér. Það er vitanlega æskilegt, að sumir starfsmenn hins opinbera gætu fengið hærri laun en þeir hafa nú. En það má segja um menn hér yfrleitt, því miður, að þeir þyrftu að hafa meiri tekjur en þeir hafa. Það eru ekki til ítarlegir útreikningar um það, hvaða tekjur fólk yfirleitt verður að komast af með, t. d. bændur og verkamenn. Þó má gera sér nokkra hugmynd um það af skýrslum hagstofunnar, og ef maður ber það saman við laun embættismanna, virðast þau ekkert óskaplega lag. Kjör embættismanna verða að miðast við kjör þjóðarinnar yfirleitt. Fátæk þjóðfélög geta ekki launað starfsmönnum sínum eins vel og þau, sem betur eru stæð.