12.03.1931
Efri deild: 22. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (576)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Páll Hermannsson:

Það var árið 1929, að hv. núv. 2. landsk. flutti þáltill. um það, að það ár skyldi greiða embættis- og sýslunarmönnum ríkisins sömu dýrtíðaruppbót og árið áður. Þá var dýrtíðaruppbótin 40%, en vísitala hagstofunnar árið 1929 sýndi, að það ár skyldi uppbótin vera 34%.

Á þinginu 1929 var ég í þeirri n., sem fékk þessa till. hv. núv. 2. landsk. til meðferðar. Svo fór, að ég einn nm. leit svo a, að rangt væri að hverfa frá þeirri reglu um dýrtíðaruppbót, sem gilt hafði. Var það m. a. af því, að ég bjóst við, að það mundi tefja fyrir endurskoðun á launalögunum. Mér þykir því gott að heyra, að hv. frsm. meiri hl., sami maðurinn, sem fyrstur flutti till. um að hverfa frá þeirri reglu að greiða dýrtíðaruppbótina eftir vísitölu hagstofunnar, gat um það í ræðu sinni nú, að við værum hér komnir inn á óheppilega braut. Mér virðist það sama liggja fyrir nú og á þinginu 1929. Hafi þá verið vikið inn á óheppilega leið, þá er með þessari till. haldið áfram á sömu braut, að því viðbættu, að bilið milli hinnar löglegu reglu og þeirrar leiðar, sem þingið hefir farið síðustu árin, er alltaf að breikka. Eins og sakir standa hefir framkvæmdarvaldið árlega átt að velja um tvær leiðir: hina löglegu leið, sem þingið vill ekki fara, og hina, sem þingið hefir valið, en sem þó er talin svo varhugaverð, að jafnvel er nú farið að minnast á landsdóm í sambandi við hana, þó að það muni hafa átt að vera í gamni.

Ég hefi haft þá skoðun síðan ég fór fyrst að taka eftir launamálunum, að ýmsir hinna lægst launuðu starfsmanna ríkisins hefðu of lág laun. Þessu viki þó auðvitað nokkuð öðruvísi við, ef tímarnir kynnu að breytast á þann veg, að þjóðin í heild neyddist til að láta sér nægja minna heldur en á undanförnum árum. Þó er ég nú, eins og ég var 1929, alveg mótfallinn þeirri leið, sem till. gerir ráð fyrir. Hin eina úrlausn á málinu, sem ég tel viðunandi, er endurskoðun og endurbætur á launalögunum í heild.

Ég ætla ekki að blanda mér inn í deilur, sem ekki koma till. beinlínis við. Það hefir verið rætt hér um almennt kaupgjald. Var þá réttilega tekið fram, að samkv. almennri málvenju væri litið á hæð kaupgjaldsins eftir krónutölunni. En ég vil benda á það, sem allir þó vita, að þegar unnin er daglaunavinna, tímavinna eða mánaðarvinna, sem munu vera algengustu vinnuformin, þá eru kjör verkafólksins eigi síður komin undir því, hvað langan tíma af árinu það hefir vinnu. Nú hefir kaupgjald ekki lækkað að krónutölu síðustu árin. En ég hygg, að atvinnan muni víða vera óstöðugri nú en áður, að einhverjir muni verða að láta sér nægja styttri vinnutíma á ári og fái þess vegna færri krónur til að lifa af yfir árið.