09.04.1931
Efri deild: 42. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í D-deild Alþingistíðinda. (638)

258. mál, lokun Íslandsbanka

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Því hefir verið haldið fram af hv. 1. og 4. landsk., að traust landsins væri í hættu vegna lokunar Íslandsbanka, en jafnframt komast báðir að þeirri undarlegu niðurstöðu, að tjón lands og þjóðar út af því, að bankinn þurfti að loka, hafi verið landsstj. að kenna, en alls ekki þeim mönnum, sem stjórnað höfðu bankanum fram að síðustu stundu, að landsstj. sé sek, vegna þess að hún gat ekki gert kraftaverk og bætt fyrir allar syndir bankastjóranna. Þegar syndamælirinn var fullur orðinn, þá sá bankastjórnin, að bankanum varð ekki haldið lengur á floti; þetta vita þeir báðir, hv. 1. og 4. landsk., og þó láta þeir sem svo, að auðvelt hafi verið fyrir landsstj. að bæta úr öllum glappaskotum bankastjóranna, svo að töpin hefðu lítil sem engin orðið. En töpin voru komin og afleiðingarnar af þeim voru óumflýjanlegar og hefðu orðið margfalt verri, ef gengið hefði verið inn á þá braut, sem íhaldsflokkur þingsins vildi: að ríkið tæki ábyrgð á öllum fjárreiðum bankans samstundis og að órannsökuðu máli. En af því að beðið var nokkrar vikur, tókst að fá aðra til hlaupa í skörðin með fjárframlög. Þó að það sé óneitanlega mikið að fleygja á ári hverju úr ríkissjóði ½ millj. kr. í þessa eyðsluhít, þá hefði það þó orðið langtum meira, ef fylgt hefði verið ráðum íhaldsmanna.

Þessir tveir hv. andstæðingar mínir láta í veðri vaka, að það sé venja ríkja að taka ábyrgð á fjárreiðum banka við hrun þeirra. En svo er alls ekki. Norski íhaldsmaðurinn Abraham Berge tók að vísu 25 millj. kr. úr ríkissjóði til þess að hjálpa einum banka; peninga þessa tók hann í heimildarleysi, en í góðri trú um, að bankanum mætti bjarga. En það dugði ekki, bankinn fór samt á höfuðið.

Það voru líka um 50 bankar í Noregi, sem urðu gjaldþrota á þessum árum, og þeir voru ýmist teknir undir skiptameðferð eða reistir við með nýju fjármagni. Engum datt í hug, að norska ríkið ætti að hjálpa bönkum þessum með því að ábyrgjast fé þeirra.

Og það má nefna fleiri ríki. Danir ætluðu að hjálpa Landmandsbankanum og settu í hann 300 millj., en það kom ekki að neinu haldi; töp bankans urðu hlutfallslega jafnmikil og hjá Íslandsbanka, og nú held ég, að í Danmörku sé ekki einn einasti maður, sem haldi því fram, að þetta hafi ekki verið rangt, enda var þarna allt í óreiðu, eins og reikningarnir sýndu á eftir, en slíkar blekkingar hljóta alltaf að draga slæman dilk á eftir sér.

Það varð líka skömmu síðar, að 2 aðrir bankar leituðu á náðir ríkisins, en þá voru Danir orðnir svo hræddir, að þeir vildu ekki með neinu móti rétta hjálparhönd banka, sem þó var tiltölulega létt verk að hjálpa.

Þó að lánskjörin væru ekki góð í haust, þá verður ekkert hægt um það að segja, hvernig þau hefðu orðið, ef bankanum hefði verið vel stjórnað. En bankanum hefir verið frámunalega illa stjórnað í 15 ár, og þar af súpum við seyðið. Þegar svo komið er til Alþingis og beðið um ríkissábyrgð á banka, sem búinn er að sukka milljónum á milljónir ofan, þá verður ekki annað sagt en að nokkuð langt sé gengið í óskammfeilni og blekkingum.

Það er algengt í Ameríku, að bankar fari á hausinn eins og önnur fyrirtæki, og þó er Ameríka til enn.

Hv. 1. landsk. sagði, að komið hefðu utanlands frá í fyrra skeyti um, að landið væri í hættu, ef Íslandsbanka væri lokaði. En það lék grunur á, að þessi skeyti væru íslenzk, og að hv. 1. landsk., eða menn nákomnir honum, hefðu pantað þau eða ýtt undir menn, sem áttu inni í bankanum, að senda þau. Annars er ekki hægt að lá bönkum eins og Hambro, sem orðið hefir fyrir blekkingum frá stj. Íslandsbanka, þótt hann vildi klóra í bakkann. Það er slæmur snoppungur á íhaldsmennina, að einmitt þessi banki, Hambro, sem notaður hefir verið sem grýla á lánstraust landsins, sótti eftir að semja við þá stjórn íslenzka ríkisins um lántöku, sem íhaldsmenn og þeirra nótar höfðu með blekkingum og fölskum skýrslum sagt, að ekki væri á neinn hátt að treysta. Annars hefði bankinn ekki viljað eiga við þá stj., ef hann hefiði ekki treyst henni. Þegar ég kom frá Englandi í haust, eftir að lánið var fengið, sögðu ýmsir við mig: „Það var annars gaman, að Hambro skyldi vilja semja, eftir allt, sem á undan var gengið“. Ég tók svo sem ekkert eftir þessu þá, enda hafði ég aldrei lagt neitt upp úr þeim hótunum, sem látnar hafa verið dynja um lánstraust landsins og kannske stundum borinn fyrir, en þessir menn fundu, hve spaugilegt það var, að Hambro skyldi sækjast eftir að semja við land um peningalán, eftir að búið var að nota hann sem grýlu um lánstraustsspjöll okkar. Og ekki er hægt að afsanna betur þær dylgjur um traustspjöll landsins en að snúa nú við blaðinu og benda á, að það var Hambro, sem sóttist eftir að semja.

Hv. 1. landsk. hneykslar það mjög, að hæstv. fjmrh. sagði í fyrra, að traust landsins yrði betra og meira eftir að Íslandsbanki væri gerður upp. Ég er viss um, að þetta var rétt athugað, enda komið á daginn. En hefði verið farið eftir till. þeirra máganna, hv. 1. landsk. og Eggerts Claessens, þá er eins víst, að allt væri hér í voða. Á meðan Íhaldið fór með völdin, var hægt að hræða þm. til alls, en í fyrra var mönnum að mæta á Alþingi, sem litu svo á, að íslenzka ríkið væri ekki sá syndaselur, að því bæri skylda til að taka á sig syndir alls heimsins. Þó að öll spor séu ekki til gleði, sem gengin hafa verið í þessu máli, þá sýndu þó erlendar stofnanir í haust, að komið var annað snið á fjárreiður á Íslandi en voru árið 1921, þegar enska lánið var tekið, sællar minningar.

Þá var því haldið fram af hv. 4. landsk., að allt frá láti Magnúsar Kristjánssonar hefði stj. og flokkur hennar gert allt, sem hægt hefði verið, til þess að drepa Íslandsbanka. En þetta er mikill misskilningur. Íslandsbanki hefir alltaf verið að deyja. Þeir, sem kunnugastir voru, vissu, að hann gekk með ólæknandi sjúkdóm. Hann hafði fengið hvert meðalaglasið á fætur öðru hjá íhaldsstj., en ekkert dugði. Sjúkdómurinn gróf um sig jafnt og þétt. Núv. stj. vildi bankanum vel, en henni kom aldrei til hugar að ganga erindi bankastj., sem með sukki sínu hafði komið bankanum á kné. Það var ekki nema eðlilegt, að heimtað væri mat á bankanum, þar sem grunur lék á, að tryggingar hans væru ekki nægilegar, og bankinn svo aumur orðinn, að hann gat hvorki bætt úr né komið með tryggingar, þegar um þær var beðið.

Hv. 4. landsk. var með dylgjur um það, að stj. hefði spillt fyrir bankanum erlendis. En vitanlega eru þetta staðlausir stafir, og undarlegt, að bankastjóri skuli leyfa sér að bera slíkt fram á Alþingi, þó að annað eins og enn vitlausara hafi sézt í Morgunblaðinu og fylgihnöttum þess. En hitt þarf vitanlega engan að undra, þó að t. d. Privatbankinn, sem orðið hafði fyrir stöðugum svikum og blekkingum af hálfu bankastj. Íslandsbanka, svo og Hambro, að þeir litu svo á, að fjárreiður bankans mundu ekki í því lagi vera sem upp var gefið. Má t. d. nefna, að þegar Hambro símaði til Íslandsbanka áður en lokað var og spurði um ástandið, þá svaraði bankastj. um hæl og sagði engan óróleika í kringum bankann. Þó vissi Íslandsbankastj., að svarið var rangt, því að bankinn hafði ekki haft annað fé frá áramótum en dálítið bráðabirgðalán frá Rvíkurbæ og nokkra fjárhæð, sem Þjóðverjar höfðu lagt inn í hann til geymslu lítinn tíma. Þó að hv. 4. landsk. skilji það ekki, þá skilja erlendir fjármálamenn, að slíkar blekkingar eru ekki til þess að skapa traust, heldur ótrú á þeim mönnum, er láta sér sæma að gefa falskar skýrslur.

Hv. 4. landsk. var talsvert drjúgur yfir því, að hæstv. forsrh. hefði lagt mjög eindregið að sér að framkvæma þessa dæmafáu rannsókn bankans. En forsrh. gerði þetta fyrir þrábeiðni meiri hl. bankaráðs. Sjálfur hafði hann enga löngun til þess, og hafði heldur enga trú á, að slík skyndirannsókn leiddi neitt það í ljós, sem byggt yrði á. En það, sem hv. 4. landsk. átti að gera, sóma síns vegna, var það, að neita að taka að sér rannsóknina, því að hann mátti vita, að þó að hann ynni að henni ásamt öðrum manni látlaust í sólarhring, þá gat hún aldrei orðið nema kák eitt og honum sjálfum til ævarandi óvirðingar, ef taka átti nokkurt mark á henni.

En þó er hv. 4. landsk. gleiður yfir niðurstöðu sinni um hag bankans og ætlar með frekju að hamra það fram nú, að hún hafi í öllum aðalatriðum verið rétt. Hann ætti heldur að líta á fjárlagafrv. og þá ½ millj. kr., sem ríkissjóður verður að greiða í vexti og afborganir af því fé, sem lagt hefir verið í bankann, og hann ekki getað á neinn hátt staðið straum af. Og því oftar sem þessi ½ millj. stendur í landsreikningnum, því betur sest, hve niðurstaða hv. 4. landsk. var áreiðanleg, enda getur hann verið viss um, að álit á hæfileikum hans til slíkrar rannsóknar var aldrei mikið, en áreiðanlega fer það þó minnkandi ár frá ári, á meðan þessi ½ millj. er að þvælast fyrir í fjárlögunum.

Hv. 4. landsk. segir, að ef bankinn hefði getað haldið áfram, þá hefði allt farið vel. En hvernig átti hann að geta haldið áfram, þegar hann var kominn í þrot með litlar eða lélegar tryggingar í höndunum? Og hvers vegna þarf þá landið að borga nú þessa ½ millj. á ári fyrir bankann, ef hægt hefði verið að komast hjá því? Hv. þm. veit, að það varð ekki komizt hjá því, að bankinn lokaði. Sjúkdómurinn, sem stafaði af margra ári sukki bankastj., hafði grafið svo um sig, að bankanum varð ekki bjargað. Hitt er kannske ekki jafnánægjulegt fyrir hv. þm., að bera saman mat sitt og þremenninganna, sem framkvæmt var litlu síðar, en hann má sjálfum sér um kenna, úr því að hann gerðist svo fljótfær að taka að sér að gera upp fjárreiður bankans á einum sólarhring. Og þó að seinni rannsóknarnefndin sé ekki nægilega svartsýn og álíti hag bankans betri en hann reyndist í raun og veru, þá var þó hægt að hafa það mat að einhverju, enda var það byggt á talsvert nákvæmari athugun og á lengri tíma, en mat hv. 4. landsk. og Jakobs Möllers var og verður aldrei annað en hleypidómur og fjarstæða, báðum til athlægis og óvirðingar.

Hv. 1. landsk. sagði, að tvö blöð hér í bænum hefðu jafnan reynt að veikja traust Íslandsbanka. Á hann þar víst við Tímann og sennilega Alþýðublaðið. Mér vitanlega hefir Tíminn aldrei reynt að veikja bankann, en hann hefir óspart bent á fjármálasukk bankastj. og varað við því. Það gæti verið, að læknir, er rækist á holdsveikan mann, segði við hann, að bezt væri honum að flytja inn í spítalann í Laugarnesi, en að sjúklingurinn vildi heldur vera heima, og honum yrði leyft það. Þetta er hliðstætt dæmi við sjúkdóm Íslandsbanka. Menn sáu vesöld bankans og að ekki lá annað fyrir honum en að dragast upp og komast í þrot. Fjárglæfrarnir í Stykkishólmi, á Seyðisfirði og allt Coplandsbraskið, svo ég nefni aðeins örfá dæmi, allt sýnir þetta sjúkdóm bankans, og engin von er til þess, að menn væru glaðir yfir því, að þetta sökkvandi spillingardýki, eins og Íslandsbanki var orðinn, yrði sett á ríkið.

Á þinginu 1923 kom fram till. frá okkur framsóknarmönnum um, að látin væri fara fram rannsókn á fjárreiðum bankans, en íhaldsmenn settu sig á móti þeirri till. og drápu hana. Nú vilja þessir sömu menn, þegar Íslandsbanki er dauður og úr sögunni, láta rannsaka sögu banameinsins.

Hv. 1. landsk. sagði, að andstæðingablöð sín hefðu haldið því fram, að ekkert gerði til, hvernig færi um Íslandsbanka, af því að hann væri eign erlendra manna. En þetta er ekki rétt að því er Tímann snertir; hann minntist aldrei á það, en benti á, að fjármálasukk bankastj. og fríðindi þau, er íhaldsmenn hafa jafnan verið fúsir að veita bankanum, mundi allt leiða til þess, að leggja þyrfti drápsklyfjar á þjóðina. En þá kom forsrh. íhaldsmanna, Jón heit. Magnússon, og fleiri, er verið höfðu með að ráða Eggert Claessen með 40 þús. kr. árslaunum til þess að stjórna bankanum, og sögðu að þetta kæmi ekki ríkissjóði við, hlutaféð væri útlent, og okkur skipti engu, hvernig bankanum væri stjórnað og hvernig um hann færi. En þegar svo sjúkdómurinn er kominn á það stig, að hann verður ekki læknaður, og kýlið er sprungið, þá er komið annað hljóð í strokkinn, þá er því haldið óspart fram, að ríkið beri ábyrgð á bankanum og forsrh., sem er form. bankaráðsins, átti þá að eiga mikla sök á því, hvernig komið var. Þannig er blaðinu snúið við og hallazt á þá stj. og hennar fylgismenn, sem gert höfðu allt, sem hægt var, til þess að bjarga bankanum í tíma, en fengu þá engu áorkað fyrir ráðríki og skammsýni íhaldsmanna.

Íslandsbanki var í fyrra í ábyrgð ríkissjóðs, að dómi þessara tveggja hv. íhaldsmanna, sem um málið hafa talað. En þetta er ákaflega vont mál að verja fyrir báða þessa hv. þm., vegna sukksins og óreiðunnar í allri stjórn bankans, en bankastjórarnir eru flokksmenn beggja þessara hv. þm., því að sá bankastjórinn, sem ekki var flokksmaður þeirra, tillíktist hinum eftir stuttan tíma.

Það þarf því engan að undra, þó að þessir tveir hv. þdm., sem báðir hafa slæma fortíð í þessu máli, séu ekki sem ánægðastir nú. Hv. 1. landsk. á þarna langa og ljóta fortíð, sem seint mun gleymast, þó að sú saga verði aldrei skráð til fullnustu, og þó að hv. 4. landsk. hafi aðeins verið einn dag í þessari paradís gróðabrallsins, þá er það nóg til þess, að sá dagur verður fjármálaminningu hans dýr.