24.03.1931
Neðri deild: 32. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í C-deild Alþingistíðinda. (689)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús Torfason:

Ég stend upp út af 16. brtt. á þskj. 209, við 46. gr. Þar er gert ráð fyrir því, að leggja skuli dráttarvexti á skattinn, ef hann er ekki greiddur innan mánaðar frá réttum gjalddaga. Ég verð að taka undir það með hv. 1. þm. Skagf., að þetta ákvæði sé ekki heppilegt, a. m. k. nema þá í Reykjavík. Hér er yfirleitt um litlar summur að ræða: Ég þykist viss um, að 9/10 af þessum sköttum muni vera greiddir af gjaldendum, sem borga innan við 10 kr. hver, og tekur bersýnilega ekki að eltast við vexti af svo litlum upphæðum. Í öðru lagi er það, að gjalddagi er á manntalsþingum, en eftir að fólki hefir fækkað í sveitum, hafa bændur mikið til hætt að sækja mannntalsþingin. Þetta ákvæði væri því sama og að segja, að bændur verði að hlaupa um slattinn til hreppstjóra til að koma sér undan að greiða dráttarvextina. Yfirleitt er það orðið svo, að manntalsbókargjald er borgað á haustin, þegar bændur fá fé fyrir haustafurðir sínar, og þá gera hreppstjórar gangskör að því að innheimta skattinn í réttunum, eftir að lögtakslistinn er kominn frá sýslumönnum, sem sjaldan er fyrr en komið er fram í september. Ég tel því eins og nú standa sakir, að ekki sé vert að leggja dráttarvexti á, og það því síður, sem hreppstjórar eru illa launaðir. Auk þess eru hreppstjórar ekki þeir eiginlegu innheimtumenn, heldur eru sýslumenn, lög reglustjórar og tollstjóri það. Hreppstjórar eru aðeins umboðsmenn þeirra og innheimta skattinn fyrir ekki neitt. En út af þessum. eineyringum og tvíeyringum, sem hér er um að gera, geta orðið talsverðar skriftir. Fyrst verða hreppstjórar að reikna þá út, og síðan verða sýslumenn að reikna þá út, og eftir því sem manntalsbókunum og sjóðbókunum er nú hagað, þá er alls ekkert rúm fyrir þessa dráttarvexti.

Ég vil því leyfa mér að koma fram með skriflega brtt. við brtt. á þskj. 209, við 46. gr., ásamt hv. þm. N.-Þ. hún hljóðar þannig: „2. málsliður gr. fellur niður“. Ég mun svo afhenda hæstv. forseta þessa skriflegu brtt.

Her hafa orðið nokkrar umr. um það, hvort brtt. n. megi koma til atkv., um, hvort gefa megi ráðuneytinu heimild til að hækka eða lækka skattinn um 25%. Eins og hér hefir verið tekið fram áður, þá hefir þetta verið í lögum síðan 1924, að stj. hefir verið heimilt að innheimta alla tolla samkv. tolllögunum með 25%. Þetta er og í samræmi við breyt. þá, sem gerð var á tekjuskattslögunum 1928. Þetta er því búið að standa alllengi, og vist er, að góðir lögfræðingar hafa um það fjallað. A. m. k. veit ég ekki betur en að Jón heit. Magnússon hafi verið talinn einn af beztu lögfræðingum landsins á sinni tíð. En hann hefir líka lagt blessun sína yfir þessa aðferð. Og þess er líka von, því að í 36 gr. stjskr. er ekkert, er mæli á móti þessu, og ekkert bendir til þess, að minni áherzlu beri að leggja á orðin, „samkv. lagaheimild“ í niðurlagi gr. en „með lögum“ í upphafi gr., enda er það áreiðanlegt, að þetta „samkv. lagaheimild“ þýðir „með lögum“ og ekkert annað, hvað sem hver segir.

Heldur ekki 73. gr. er á móti þessu. hún hljóðar svo: „Skattamálum skal skipa með lögum“. Þar ber ekki að leggja neitt sérstaka áherzlu á „með lögum“. Því að þetta er aðeins eldgömul afturganga, allt frá stjórnarbyltingu Frakka, en þá settu þeir, sem kunnugt er, lög um öll möguleg mannréttindi. Og var þar gefið það loforð, að öllum skattamálum ætti að skipa með lögum. Þó mun mestu hafa ráðið um þetta ákvæði hinn óvinsæli saltskattur, sem öllu hleypti í bál og brand í Frakklandi.

En að ætlast til, að ekkert vald megi um þetta fjalla nema þingið leyfi, nær vitanlega ekki nokkurri átt.

Afleiðingin af þessari stefnu yrði, að við einir hér á Íslandi megum ómögulega hafa skattahækkun, eða færanlegan skattstiga, einmitt þegar farið er að taka sem mest tillit til gjaldþols manna í flestum öðrum menningarlöndum.

Ég veit ofurvel, að það á að heita, að einhver guð hafi í upphafi sagt: „Svona skal það vera, og þessu má aldrei breyta, nema með lögum“. Það má vel vera, að einhver guð hafi sagt þetta. En ég fullvissa hv. þdm., að það var ekki guð Ísraelsmanna, sem þetta sagði. Það var guð Filisteanna, — það var guð skattþegnafélags Reykjavíkur!

Annars tel ég, að það sé yfirleitt góð regla, að eftir að þing og stj. hafa langar stundir fylgt einhverri reglu, að breyta henni ekki nema brýn nauðsyn sé til. En þá má ekki heldur skirrast við að gera það.