26.03.1931
Efri deild: 34. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

25. mál, bókasöfn prestakalla

Erlingur Friðjónsson:

Ég vildi frá mínum sjónarhóli mótmæla því, sem hv. 6. landsk. var að halda hér fram, að bókasöfn yfirleitt, sem prestar gætu átt kost á, væru þannig, að prestar gætu ekki á nokkurn hátt haft gagn af þeim. Ég býst við, að hv. þm. hafi aðallega í ummælum sínum átt við afskekktari presta, en þessi orð eru allhörð, ef þeim er stefnt yfirleitt til bókasafna á þessu landi, sem vel má skilja.

Viðvíkjandi kaupi bókanefndar skal ég benda á það, að jafnvel þótt í grg. fyrir frv. sé gert ráð fyrir því, að bókanefnd starfi kauplaust, þá verður það ekki að neinu leyti séð af frv. eins og það liggur fyrir nú. Og að sjálfsögðu verður aðallega farið eftir lögunum, en ekki því, hvað staðið hefir í grg. frv., a. m. k. alls ekki, þegar frv. hefir tekið mjög miklum breytingum, eins og þetta frv. hefir gert í Nd. Það mætti e. t. v. taka tillit til grg., ef frv. væri samþ. óbreytt, en því er ekki til að dreifa hér.