13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í C-deild Alþingistíðinda. (841)

19. mál, nýr vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Lárus Helgason:

Mig furðar nokkuð á því, að þm., sem búsettir eru austan Hellisheiðar, skuli hafa staðið upp hver af öðrum, til þess að hnýta að þessu frv.

Ég sé ekki betur en að hér sé um mikla bót að ræða, þar sem á að leggja nýjan veg eftir þörfum nútímans. Þegar þessi vegur var lagður, sem nú er, var ótrúlega lítið hugsað um, hvort hann væri snjóléttur eða ekki. Þess á að gæta við þennan nýja veg, og þegar hann er kominn, verður allt annað að fara yfir Hellisheiði en nú er.

Mér hefir heyrzt á þessum hv. þm., sem eru óánægðir með frv., að þeir harmi, að ekki er fallizt á að leggja járnbraut. Það er nú búið að tala og rita svo mikið um járnbraut, og ekkert hefir orðið úr, og engar líkur eru til þess, að það verði á næstu árum, enda er enginn kominn til þess að segja, hvaða dýrmæti það væri fyrir landið, þótt járnbraut fengist á þennan spotta.

Það var sagt hér áður, að umferð hefði stöðvazt í tvo daga á Hellisheiði í vetur. En ætli það sama gæti ekki komið fyrir, þó að hér væri járnbraut? Í Danmörku, sem er minna snjóland en Ísland, hafa járnbrautir orðið að stöðvast á ýmsum stöðum, að því sem mér hefir verið sagt, vegna snjóþyngsla, og sama er að segja um Noreg. Ég hygg, að það gæti orðið nokkuð örðugt fyrir okkur að ganga svo frá járnbraut, að öruggt væri. Ég held, að það væri nær okkar getu að halda við það, sem hér er gert ráð fyrir, en ekki hnýta að þessu frv. og tala um að þetta sé í rauninni ekki annað en kák. Hér er stigið spor í rétta att, og þegar þetta verk er komið í framkvæmd, verður allt annað að komast á milli þessara héraða og Rvíkur. Ég er því þakklatur fyrir, að þetta frv. hefir komið fram og fylgi því með ánægju.