20.03.1931
Neðri deild: 29. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í C-deild Alþingistíðinda. (869)

20. mál, búfjárrækt

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Tveir nm. í hv. landbn. hafa nú veitt til mín nokkrum orðum, sem mér þykir rétt að svara að nokkru, og skal ég þá byrja á þeim, er síðar talaði, hv. 2. þm. Skagf. Hann sagði, að ég hefði farið að n. með þjósti, en þetta er alls ekki rétt hjá hv. þm. Ég fór alls ekki að hv. n. með þjósti; ég dró aðeins fram þau rök, er ég fann handbær, og mælti á móti brtt. hv. n. af því að ég áleit, að n. með þeim legði til, að gengin væru nokkur skref aftur á bak. Ég var aðeins með ræðu minni að reyna að rétta hlut frv. og afla því fylgis innan hv. þd., auk þess sem ég reyndi að leita samkomulags við hv. n., sem orðið gæti milli umr. Það verður sannarlega ekki sagt með réttu, að ég hafi flutt mitt mál með þjósti, enda hefir ræða mín í gær haft þann árangur, að hv. n. hefir þegar lagað sumar af sínum brtt.

Hv. þm. talaði um það í almennum umr. um frv., að það væri hér eins og talið sjálfsagt, ef einhverjum dytti eitthvað nýtt og óreynt í hug, þá ætti að þjóta strax til og búa til frv.

Hér er um það að ræða, að lögfesta fyrirkomulag, sem lengi er búið að standa og er orðið viðurkennt. Það er því langt fjarri, að hægt sé að segja, að hér sé um að ræða eitthvað nýtt og óhugsað. Fyrir mörgum ákvæðum frv. er fengin margföld reynsla, bæði innlend og sumpart erlend, er sýnir, að samskonar lagaákv. hafa falið í skauti sér stórkostlegar hagsbætur fyrir landbúnaðinn. Það er því langt frá því, að það sé rétt hjá hv. þm., að þetta frv. sé samið af neinni fljótfærni. Og einmitt þeir menn, sem mest hafa unnið að samningu frv. eru þeir, sem eru öllum kunnugri þessum málum og eru því vitanlega sjálfsagðir til þess verks að semja frv. Ég get því alls ekki tekið ákúrur hv. þm. til mín um það, að ekki hafi verið vandað til frv.

Hv. þm. sagði, að Búnaðarfélagið hefði sjálft átt að taka að sér þá starfsemi, er frv. hljóðar upp á, en ekki vera að hlaupa með þetta til þingsins. Það er nú einmitt svo, að Búnaðarfélagið hefir unnið að ýmsum þeim greinum, sem lögfesta á með frv., en félagið hefir nú takmarkað fé til umraða. En svo verður hv. þm. að taka það með í reikninginn, að aðaltilgangur frv. er sá, að lögfesta þessi atriði, sem hafa verið framkvæmd undanfarið eins og þau væru fyrirskipuð. Og þetta játaði hv. frsm. n. í gær, að n. væri sammála um að ætti að gera. En var þá ekki sjálfsagt að taka einnig með þau nýmæli, sem vissa þótti fyrir, að yrðu til stórra bóta?

Hv. þm. sagði, að þetta frv. hefði komið til þingsins óhugsað og óundirbúið, og hann virtist furða sig á því, að ég skyldi bera fyrir mig ráðunautana og þeirra skoðanir. En hvert átti ég eiginlega að snúa mér, ef ekki til þeirra sérfróðu manna um þessi efni? Mér er það ekki ljóst, til hverra annara ég hefði átt að leita en einmitt minna starfsmanna í Búnaðarfélaginu, og ég skal segja það alveg afdráttarlaust, að mér kom ekki til hugar að ráðfæra mig við aðra en þá.

Þá verð ég að segja nokkur orð út af ræðu míns ágæta samherja og vinar, hv. þm. V.-Sk. En ég verð að segja það, að mér er allt annað en ljúft að deila við annan eins mann og hann með aðra eins fortíð. Hv. þm. sagði, að sérfræðingum gæti skjátlazt, og þar af leiðandi ekki síður sérfræðingum Búnaðarfél. en öðrum. Ég get vitanlega fallizt á það, að við megum ekki binda okkur um of við skoðanir sérfræðinga, en ég vil einmitt benda mínum góða vini, hv. þm. V.-Sk., á það, að hér er ekki eingöngu byggt á orðum og áliti sérfræðinga, heldur miklu meir á reynslunni, bæði okkar eigin reynslu og annara reynslu. Frv. er einmitt byggt á reynslunni, sem ég veit og hv. þm. hefir sýnt, að hann ber svo mikla virðingu fyrir.

Hinsvegar er það svo bæði með mig og hv. þm. V.-Sk., að við getum eigi orðið sérfræðingar í öllum þeim málum, er koma fyrir þingið, en þm. verða einmitt sérfræðingar hver á sínu sviði eftir því, hvaða mál þeir kynna sér bezt og leggja mesta alúð við.

Hv. þm. V.-Sk. hefir verið sá mikli sérfræðingur og sá mikli og ágæti framfaramaður í sínu héraði í samvinnu- og félagsframkvæmdamálum öllum. Mér dettur ekki í hug að krefjast þess, að hann frekar en ég sé svo fullkominn að vera sérfróður á öllum sviðum. Ég get ekki verið honum sammála um starfsmenn Búnaðarfélagsins og tel, að þar fari hann nokkuð villt í ályktunum sínum. Ég tel mig kunnugri störfum þeirra en hann, og skoðun mín á þessum starfsmönnum og starfi þeirra er allt önnur en hans.